Afmörkunarvandinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Afmörkunarvandinn er viðfangsefni í vísindaheimspeki sem snýst um það hvernig við getum aðgreint vísindi frá gervivísindum. Með öðrum orðum: hvað er það sem afmarkar vísindi? Hver er munurinn á vísindalegum kenningum og trúarlegum tilgátum? 

Vandinn er ekki einungis sértækt áhugamál heimspekinga því nytsamlegt er að vita hvað vísindi eru svo við getum réttlætt, sem dæmi, að sjúkratryggingar borgi fyrir læknismeðferðir en ekki fyrir óhefðbundnar lækningar. 

Rökfræðileg raunhyggja[breyta | breyta frumkóða]

Rökfræðileg raunhyggja á rætur sínar að rekja til 3. áratugs 19. aldar og byggir á sannreynsluhyggju (e. verificationism). Sannreynsluhyggja segir að fullyrðing hafi einungis merkingu ef hún felur í sér röksannindi eða sé byggð á skynreynslu svo hægt sé að sannreyna hana. Trúarlegar, siðfræðilegar, fagurfræðilegar og frumspekilegar staðhæfingar eru því merkingarlausar. Sannreynsluhyggjan var upphaflega ekki ætluð sem svar við afmörkunarvandanum eins og hann er skilgreindur í dag. Vínarhringurinn setti kenninguna fram sem lausn við öðrum sértækari afmörkunarvanda, þ.e. hvað aðgreinir vísindi frá frumspeki.[1] Ef staðhæfing stenst sannreynsluprófið - og er aðgreinanleg frá ósannreynanlegum frumspekistaðhæfingum - telst hún vísindaleg. Þrátt fyrir að rökfræðilegir raunhyggjumenn vildu með hugmyndum sínum styðja og styrkja vísindin eru kenningar þeirra mörgum vandkvæðum bundnar sem varð til þess rökfræðileg raunhyggja fjaraði hægt og rólega út.

Kenning þeirra var gagnrýnd út frá þeirri forsendu að margar vísindalegar kenningar byggja ekki á skynlegri reynslu (við getum t.d. ekki skynjað rafeindir). Einnig er ekki hægt að segja að allar vísindalegar staðhæfingar (t.d. að rafeindir eru til) séu röksannindi. Vínarhringurinn gerði margar tilraunir til að svara gagnrýninni. Moritz Schlick reyndi að færa rök fyrir því að vísindalögmál fela ekki í sér staðhæfingar heldur ómerkingarbærar ályktunarreglur og þar með sé vandinn útræddur. Otto Neurath færði rök fyrir því að kennileg vísindaleg hugtök ættu allar í raun rætur sínar að rekja til skynjunar og því standast þær sannreynsluprófið. Rudolf Carnap leiddi þó í kjölfarið í ljós að ekki öll vísindaleg hugtök ættu rætur sínar að rekja til skynjunar og því sé eina lausnin á vandanum að fjarlægja öll kennileg hugtök úr vísindakenningum. Það verkefni reyndist mönnum vonlaust.[2]

Afsönnunarhyggja[breyta | breyta frumkóða]

Afsönnun eða hrekjanleiki er tilraun Karl Popper til að leysa afmörkunarvandann. Afsönnunarhyggjan snýr sannreynsluhyggju við. Í stað þess að vísindin séu það sem er hægt að sanna, með tilvísun í reynslu eða röksannindi, þá er afsönnunarhyggja sú afstaða að vísindi séu það sem er hægt að afsanna. Með öðrum orðum, ef hægt er að draga fram afsannanlega ályktun út frá kenningu eða kenningakerfi, þá er viðkomandi kenning eða kerfi vísindalegt.

Kenninguna setti Popper fram meðal annars því hann taldi sannreynsluhyggjuna ekki geta leyst afmörkunarvandann vegna þess að hún leggur staðhæfingar með merkingu að jöfnu við vísindalegar staðhæfingar. Popper þótti þetta augljóslega rangt, þar sem staðhæfingar geta haft merkingu án þess að vera vísindalegar staðhæfingar. Önnur tilætlun eða einkenni kenningarinnar er að hún er tilraun til að leysa afmörkunarvandann sem byggir ekki á tilleiðslu (e. induction). Tilleiðslur eru óáreiðanlegar, t.d. getur maður ályktað út frá reynslu sinni að allir hrafnar séu svartir ef maður hefur einungis séð svarta hrafna. Allar slíkar ályktanir eru óhjákvæmilega byggðar á takmörkuðum fjölda athugana og geta því aldrei reynst öruggar.

Quine, Duhem og Lakatos hafa allir gagnrýnt afsönnunarhyggju á þeim forsendum að hún er í raun ónothæf þar sem auðvelt er að sneiða framhjá skilyrðum hennar. Bæði vegna þess að afsannanir eru óöruggar (Popper sjálfur viðurkenndi að eitt frávik nægir ekki til að afsanna kenningu) og vegna þess að það er alltaf mögulegt að breyta afsannaðri kenningu örlítið svo að hún leyfi þau mældu frávik sem ollu afsönnuninni. Þannig geta kenningar auðveldlega viðhaldið „vísindastimplinum“ með því að bæta við sérhæfðum skilyrðum. Þríeykið bendir að þar af leiði að vísindalegar kenningar verða í raun aldrei afsannaðar, þar til að betri kenning tekur við af henni. Þar með víkur skilyrði vísinda sem afsannanlegar sjálfkrafa fyrir því að kenning þurfi einfaldlega að geta vikið af hólmi fyrir betri kenningu (e. replaceability).

Síðvissuhyggja[breyta | breyta frumkóða]

Síðvissuhyggja (e. postpositivism) hefur verið tengd afmörkunarvandanum út frá vísindaheimspeki Thomas Kuhn. Kenningar sínar birti Kuhn í ritinu Vísindabyltingar árið 1962 og ollu þær sjálfar vísindabyltingu í kjölfarið. Kuhn gerði þó afmörkunarvandann hvergi að viðfangsefni sínu og minnist ekki á hann. Hins vegar er hægt að útfæra lausn á vandanum út frá kenningum Kuhn um vísindi.

Kuhn telur að það sem einkennir vísindi er að þau fást við vandamál og úrlausnir vandamála. Því mætti með réttu kalla kenningu vísindalega ef hægt er að nota hana sem lausn að einhverju leyti við téð vandamál. Að vísu þurfa kenningar einnig að uppfylla ákveðin lágmarksskilyrði, eins og að fela ekki í sér augljósar mótsagnir, en Kuhn hafnar þeim ströngu skilyrðum sem Vínarhringurinn og Popper styðjast við. Kuhn var það ljóst að þó að kenning hafi þann kost að hún leysi vanda, þá þýðir það ekki að hún sé byggð á sannleika. Þetta telur hann þó ásættanlegt, sannleikurinn er ekki endilega viðfangsefni vísinda eða það sem vísindamenn leita sérstaklega að. Sannleikurinn og vísindalegar framfarir fylgjast því ekki alltaf jöfnum höndum.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sven Ove Hansson, Science and Pseudo-Science. Stanford Encyclopedia of Philosophy.
  2. 2,0 2,1 Eyja Margrét Brynjarsdóttir, Inngangur, Vísindabyltingar, 2015