Þriðji orkupakkinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Þriðji orkupakki Evrópusambandsins (nefnt „pakki“ því þetta er safn af reglum) er lagabálkur sem lýtur að sameiginlegum orkumarkaði innan Evrópusambandsins (ESB) og evrópska efnahagssvæðisins (EES). Lagasetningunni er ætlað að efla samkeppni, einkum yfir landamæri, á mörkuðum fyrir gas og raforku, og auka sjálfstæði eftirlitsstofnana á orkumarkaði. Hún tók gildi innan Evrópusambandsins árið 2009 en hefur enn ekki tekið gildi innan evrópska efnahagssvæðisins.

Regluverkið kveður m.a. á um að skilja skuli að eignarhald raforkuvinnslunnar annars vegar og flutningskerfisins hins vegar, og að stofnuð verði sameiginleg orkustofnun (ACER) sem hafi eftirlit með hinum samevrópska markaði og leysi úr ágreiningi milli eftirlitsstofnana í aðildarlöndum vegna samtenginga yfir landamæri.

Þriðji orkupakkinn var lagður fram á Alþingi í apríl 2019. Ísland þarf að ræða löggjöfina þar sem landið er eitt af þeim þremur löndum (ásamt Noregi og Liechtenstein) sem eru á evrópska efnahagssvæðinu en ekki í Evrópusambandinu. Orkumálefni falla undir EES-samninginn. Ísland, Noregur, og Liechtenstein þurfa öll að samþykkja orkupakkann til þess að hann taki gildi.[1]

Deilur á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Orkupakkinn hefur verið umdeildur á Íslandi þar sem áhyggjur eru uppi um að hann geti stuðlað að breytingum á eignarhaldi orkufyrirtækja eða þvingað fram lagningu sæstrengs til meginlandsins í þeim tilgangi að selja raforku úr landi,[1] og að það feli í sér framsal framkvæmdavalds til eftirlitsstofnunar EFTA.[2] Nokkrir prófessorar við Háskóla Íslands á sviði orku- og auðlindamála gáfu út skýrslu þar sem þeir lýstu samningnum sem varasömum,[3] en sérfræðingar sem stjórnvöld hafa leitað til telja í álitsgerðum sínum að þessar áhyggjur séu óþarfar.[4]

Tilvitnanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Efast um þátttöku í samevrópska orkukerfinu. RÚV, 2018.
  2. Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson (2019). „Álitsgerð um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnanna ESB/EFTA vegna þriðja orkupakka ESB“ (PDF).
  3. Jónas Elíasson, Stefán Arnórsson og Haraldur Ólafsson (ritstjórar) (Ágúst 2019). Áhrif inngöngu íslands í Orkusamband ESB (PDF). Orkan okkar.
  4. Birgir Tjörvi Pétursson (september 2018). „Greinargerð um ýmis álitaefni sem tengjast þriðja orkupakka ESB og innleiðingu hans í íslenskan rétt“. Sótt apríl 2019.
  Þessi lögfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.