Þjóðvarnarfélagið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þjóðvarnarfélagið voru íslensk félagasamtök stofnuð í Reykjavík 1. október 1946 til þess að mótmæla Keflavíkursamningnum sem íslensk stjórnvöld gerðu við bandarísk stjórnvöld strax eftir seinni heimsstyrjöld og hernám Íslands. Helsti framámaður félagsins var Sigurbjörn Einarsson þá dósent í guðfræði við Háskóla Íslands, seinna prestur og biskup Íslands. Félaginu var breytt í landsfélag 3. maí 1949 og nefndist þá Þjóðvarnarfélag Íslendinga. Það gaf út blaðið Þjóðvörn. Það hætti starfsemi 1951 og seinna var Þjóðvarnarflokkurinn stofnaður árið 1953.

Meðal annarra þekktra einstaklinga sem tóku þátt í starfsemi félagsins voru Hannibal Valdimarsson, Gylfi Þ. Gíslason, Jónas Haralz og Rannveig Þorsteinsdóttir.

Sigurbjörn Einarsson hélt ræðu á fullveldisdeginum, 1. desember 1948, að beiðni háskólanema við Háskóla Íslands þar sem hann mælti sterklega gegn þátttöku Íslendinga í hernaðarbandalögum.[1] Þetta var fjórum mánuðum áður en Ísland varð að stofnaðila Atlantshafsbandalagsins og er talið marka aukna mótstöðu meðal almennings. Þegar Alþingi samþykkti inngöngu í Atlantshafsbandalagið 30. mars 1949 kom til óeirða á Austurvelli.

Tilvitnanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Haldi hverr vöku sinni, ræða Sigurbjörns Einarssonar frá 1. desember 1948 birt í Þjóðviljanum 3. desember 1948

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]