Þjóðarflokkurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þjóðarflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur stofnaður 1. mars 1987 í aðdraganda kosninga til Alþingis sama ár. Flokkurinn lagði mesta áherslu á byggðamál og að reyna að stöðva fólksflóttann frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Meðal baráttumála var að komið yrði á landshlutastjórnum sem sæju meðal annars um innheimtu skatta, til að draga úr miðstjórnarvaldi Reykjavíkur.

Fyrsti formaður flokksins var Pétur Valdimarsson.

Í Alþingiskosningunum 1987 bauð flokkurinn fram í öllum kjördæmum nema Reykjavík, Reykjanesi og Suðurlandi. Í Alþingiskosningunum 1991 fór flokkurinn í kosningabandalag við Flokk mannsins, sem skipaði flestöll sæti á framboðslistunum á höfuðborgarsvæðinu meðan Þjóðarflokkurinn var ráðandi úti á landi.

Þrátt fyrir kosningabandalagið kom Þjóðarflokkurinn heldur engum manni á þing í kosningunum 1991. Bestur var árangurinn í Norðurlandskjördæmi eystra, rúmlega 1.000 atkvæði. Oddviti Þjóðarflokksins í kjördæminu var Árni Steinar Jóhannsson. Þegar ljóst varð að Þjóðarflokkurinn myndi ekki bjóða fram í þingkosningunum 1995, gekk Árni Steinar til liðs við Alþýðubandalagið og óháða og náði kjöri sem varaþingmaður. Hann varð síðar þingmaður fyrir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð kjörtímabilið 1999-2003.