Þórdís Kristmundsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Þórdís Kristmundsdóttir

Fædd 13. nóvember 1948
Starf/staða Prófessor emerita í lyfjafræði við Háskóla Íslands

Þórdís Kristmundsdóttir (f. 13. nóvember 1948) er prófessor emerita í lyfjafræði við Háskóla Íslands. Hún er fædd og uppalin í Reykjavík.[1]

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1968 og M.Sc.-prófi í lyfjafræði og síðar doktorsprófi frá háskólanum í Manchester á Englandi 1976.[2] Hún hlaut sérfræðiviðurkenningu LFÍ (Lyfjafræðingafélags Íslands) árið 1977[3] og var Post-Doctoral Research Fellow á vegum I.C.I. Pharmaceuticals við lyfjafræðideild háskólans í Manchester 1977-79.[4]

Haustið 1979 hóf Þórdís störf við deild lyfjafræði lyfsala við HÍ sem sérfræðingur. Hún varð prófessor í lyfjagerðarfræði við HÍ 1986, sem er hennar sérsvið, og þar með önnur konan sem skipuð var prófessor við HÍ. Sú fyrsta var Margrét Guðnadóttir veirufræðingur.[5][1][6]

Rannsóknir[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknir Þórdísar hafa m.a. beinst að þróun og prófunum á lyfjaformum sem innihalda sýkladrepandi fitusýrur og mónóglýseríð sem virk efni, í þeim tilgangi að fyrirbyggja smit um slímhimnur og til meðferðar á húð- og slímhimnusýkingum.[4] Niðurstöður rannsókna hennar sýna kosti þess að nýta lípíð til að meðhöndla sýkingar í húð eða slímhúð en þau lípíð sem hún hefur unnið með eru örverudrepandi, erta hvorki né valda ofnæmi og vekja ekki upp mótsvörun líkamans.[7] Rannsóknir hennar sýna að lípíð gætu orðið ódýr uppspretta örverudrepandi efna til að takast á við sýkingar. Þórdís hefur víða haldið fyrirlestra og ritað fjölda greina og bókarkafla um viðfangsefni sín.[8]

Ýmis störf og verkefni[breyta | breyta frumkóða]

Þórdís var ritstjóri Tímarits um lyfjafræði 1980-84 og í fræðslunefnd LFÍ 1985-1988. Hún var framkvæmdastjóri Lyfjafræðingafélags Íslands 1979-1991, sat í framhaldsmenntunarráði félagsins 1994-96 og í stjórn Norrænu samtakanna um menntun lyfjafræðinga 1997-2001 (NFFU). Þórdís átti sæti í stjórn Lyfjafræðistofnunar Háskóla Íslands 1997-1999 og í stjórnarnefnd lyfjafræði lyfsala (læknadeild) og var formaður stjórnarnefndarinnar 1986-1987, 1989-91, 1993-1995, 1997-1999, 2000-03 og 2009-11. Hún var kjörin fyrsti deildarforseti Lyfjafræðideildar er hún var stofnuð og sat í deildarráði Læknadeildar 1988-92 og 1996-2000. Þórdís var í forystu við uppbyggingu Lyfjafræðideildar í Haga ásamt Þorsteini Loftssyni prófessor og Kristínu Ingólfsdóttur, fyrrum rektor HÍ, og var stjórnarformaður Reykjavíkurapóteks-Háskólaapóteks.[1]

Þórdís var fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs í háskólaráði 2006-2008[9] og átti sæti í nefnd háskólaráðs þar sem endurskoðuð voru ákvæði laga og reglna um dómnefndir og fleiri þætti ráðningarmála 2000-2002. Hún var í stjórn líf- og læknisfræðideildar Vísindasjóðs 1987-94 og varaformaður sjóðsins 1991-94. Þá sat hún í stjórn fagráðs Tæknisjóðs Rannís 1998-2002[1] og átti sæti í vísindasjóði HÍ 1995-2005, í vísindanefnd skólans 2001-2005 og 2011-2014[10] og í fagráði heilbrigðisvísinda vegna úthlutunar úr Eimskipafélagssjóðnum 2002.

Þórdís sat í stjórnarnefnd í norræna vísindasjóðnum Nordisk Forskarudannings Akademi (NorFa) (1990-1991) og var fulltrúi Íslands í norrænu rannsóknarnámskeiðunum Nordiska Forskarkurser (NordForsk) 1991-96 og Nordisk Federation for Farmaceutisk Undervisning (NFFU) 1997-2001. Þórdís sat í stjórn vísindasjóðs Krabbameinsfélags Íslands 1989-92, var varaformaður sjóðsins 1990-91 og formaður 1991-92. Einnig og var hún fulltrúi Krabbameinsfélags Íslands í stjórn rannsóknarsjóðs Norrænu Krabbameinssamtakanna (Nordisk Cancer Union) 1990-92. Þá sat hún í stjórn Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands og var fyrsti formaður hugverkanefndar Háskóla Íslands og LSH 2002-2009. Þórdís og var fyrsti formaður doktorsnámsnefndar Heilbrigðisvísindasviðs háskólans 2014-2017.[11] Hún átti einnig sæti í kærunefnd í málefnum nemenda við HÍ,[12] var fulltrúi HÍ í stefnunefnd í sameiginlegum málefnum HÍ og Landspítala og gegndi formennsku í afreks- og hvatningarsjóði HÍ.[13]

Á árunum 1986-1988 var Þórdís varaformaður Félags háskólakennara og hún varð fyrst kvenna til að ganga í Rótarý Reykjavík (ásamt Sigríði Snævar)[1] og sat í stjórn klúbbsins 1997-1998. Hún hefur setið í ýmsum nefndum á vegum háskólaráðs og rektors HÍ, unnið að skipulagningu fjölmargra vísindaráðstefna, setið í masters- og doktorsnefndum, ýmsum dómnefndum vegna stöðuveitinga lektora, dósenta og prófessora og sinnt fjölmörgum öðrum stjórnunar- og trúnaðarstörfum innan HÍ.

Viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Þórdísi voru veitt Nýsköpunarverðlaun Tækniþróunar hf. (ásamt W. Peter Holbrook og Skúla Skúlasyni) 1998,[14] og verðlaun International Association for Dental Research (IADR) og GlaxoSmithKline (GSK) fyrir rannsóknir á lyfjagjöf við munnholssjúkdómum 2005 (ásamt W. Peter Holbrook, Halldóri Þormar og Skúla Skúlasyni[15]).[16] Í nóvember 2018 var Þórdísi veitt gullmerki Lyfjafræðingafélags Íslands fyrir ötult og fórnfúst starf í þágu lyfjafræðimenntunar og Lyfjafræðingafélags Íslands.[17]

Einkalíf[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Þórdísar voru Kristmundur Jakobsson (f. 1923, d. 2014), loftskeytamaður og símvirki, og Ástdís Gísladóttir (f. 1926, d. 1999) húsfreyja. Þórdís er gift Eiríki Erni Arnarsyni,[17] (f. 1949), prófessor emeritus við Læknadeild HÍ[18] og sérfræðingi í klínískri sálfræði. Dætur Þórdísar og Eiríks eru Hildur viðskiptafræðingur og Kristín Björk lyfjafræðingur.[19]

Helstu ritverk[breyta | breyta frumkóða]

Greinar[breyta | breyta frumkóða]

Bókakaflar[breyta | breyta frumkóða]

 • T. Loftsson, T. Kristmundsdóttir. (1993) Microcapsules containing water-soluble cyclodextrine inclusion complexes of water-insoluble drugs, bls. 168-189 í ACS SYMPOSIUM SERIES Volume: 5203.
 • T. Kristmundsdóttir, S. Skúlason. (2011) Lipids as active ingredients in pharmaceuticals, cosmetics and health foods, bls. 151-178 í bókinni Lipids and Essential Oils as Antimicrobial Agents, John Wiley & Sons.
 • W. P. Holbrook, V. G. Patlolla., T. Kristmundsdóttir. (2018). Developing Remedies for Oral Mucosal Diseases (bls. 151-158). í bókinni Translational Oral Health Research, Meurman J. (ritsj.). Springer, Cham.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 „Morgunblaðið. (2018, 13. nóvember). Hún varð annar kvenprófessorinn við HÍ. Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor við HÍ – 70 ára“. Sótt 20. janúar 2020.
 2. Skrár um doktorsritgerðir Íslendinga. Þórdís Kristmundsdóttir. Sótt 20. janúar 2020.
 3. Axel Sigurðsson (ritstj.). (2004). Lyfjafræðingatal. Lyfjafræðingar á Íslandi (bls. 376-378). Seltjarnarnes: Lyfjafræðingafélag Íslands.
 4. 4,0 4,1 „Lyfjafræðisetur HÍ. Þórdís Kristmundsdóttir“. Sótt 20. janúar 2020.
 5. Guðmundur Hálfdánarson, Sigríður Matthíasdóttir. (2011). Aldasaga Háskóla Íslands 1911-2011 (bls. 326-444). Sótt 20. janúar 2020.
 6. Morgunblaðið B. (1986, 23. febrúar). „Vill byggja upp gott lyfjafræðinám“ segir Þórdís Kristmundsdóttir nýskipaður prófessor í lyfjagerðarfræði við Háskóla Íslands. Þórdís er önnur konan, sem veitt er prófessorsstaða við Háskólann. Sótt 20. janúar 2020.
 7. Morgunblaðið. (1999, 30. júní). Ný aðferð drepur kynsjúkdómavalda. Íslensk uppgötvun í alþjóðlegu tímariti um kynsjúkdóma. Sótt 20. janúar 2020.
 8. Researchgate. Thórdís Kristmundsdóttir. Sótt 20. janúar 2020.
 9. Háskóli Íslands. (2006). 21. háskólafundur 17. nóvember 2006. Sótt 20. janúar 2020.
 10. Háskóli Íslands. (2015). Nær 30 fá doktorsstyrki við Háskóla Íslands. Sótt 20. janúar 2020.
 11. Háskóli Íslands. (2016). Doktorsnám með alþjóðlega gæðavottun. Sótt 20. janúar 2020.
 12. Háskóli Íslands. (2017). Fundargerð háskólaráðs 12. janúar 2017. Sótt 20. janúar 2020.
 13. Háskóli Íslands. (2010). Úthlutun úr Afreks- og hvatningasjóði stúdenta Háskóla Íslands. Sótt 20. janúar 2020.
 14. Mbl.is. (1998, 19. júní). 200.000 kr. verðlaun fyrir lokaverkefni. Sótt 20. janúar 2020./
 15. Tannlæknablaðið. (2005). Peter Holbrook og félagar. Tannlæknablaðið, 23(1), 45. Sótt 20. janúar 2020.
 16. Háskóli Íslands. Lípíð gegn húðsýkingum. Þórdís Kristmundsdóttir, professor við Lyfjafræðideild. Sótt 20. janúar 2020.
 17. 17,0 17,1 „Lyfjafræðingafélag Íslands. (2018). Gullmerki LFÍ“. Sótt 20. janúar 2020.
 18. Háskóli Íslands. Eiríkur Örn Arnarson. Prófessor í sálfræði[óvirkur hlekkur]. Sótt 20. janúar 2020.n
 19. Lyfjafræðingafélag Íslands. Dagur lyfjafræðinnar. Sótt 20. janúar 2020.