Fara í innihald

Þórður Jónsson (prestur á Staðastað)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þórður Jónsson (167221. ágúst 1720) var skólameistari í Skálholtsskóla og síðan prestur á Staðarstað og prófastur í Snæfellsprófastsdæmi. Hann var vel lærður maður og ágætlega að sér í læknisfræði og stundaði lækningar.

Þórður var sonur Bauka-Jóns Vigfússonar biskups á Hólum og konu hans Guðríðar Þórðardóttur. Hann fór utan til háskólansáms 1688, sextán ára að aldri, og var í Kaupmannahafnarháskóla í fimm ár. Jón faðir hans lést vorið 1690 en á Alþingi um sumarið féll þó á hann þungur dómur fyrir óleyfilega verslun. Þórður fékk málið tekið upp fyrir hæstarétti í Kaupmannahöfn og rak það þar svo vel að hann fékk dómnum hnekkt 1693. Þótti það afrek af tvítugum manni og hlaut Þórður mikla frægð af þessu. Þó var sagt að hann hefði ofmetnast af þessu því að árið 1697, eftir að Þórður Þorláksson Skálholtsbiskup dó, sigldi Þórður og ætlaði sér að reyna að fá biskupsembættið, en það tókst ekki og varð Jón Vídalín, sem skömmu síðar giftist Sigríði systur Þórðar, fyrir valinu.

Þórður varð hins vegar skólameistari í Skálholti sama ár og gegndi því embætti til 1702, þegar hann varð aðstoðarprestur og skömmu síðar prestur á Staðarstað á Snæfellsnesi og prófastur í Snæfellsprófastsdæmi. Hann sóttist eftir biskupsembættinu á Hólum þegar Björn Þorleifsson1710 en lagði ekki í að sigla vegna ófriðar sem þá var milli Danmerkur og Svíþjóðar. Steinn Jónsson tók aftur á móti áhættuna, sigldi og varð biskup.

Þórður dó á Staðarstað 1720 og Jón Vídalín mágur hans andaðist á leið í útför hans en sagt var að þeir hefðu lofað hvor öðrum að sá sem lengur lifði skyldi halda líkræðu yfir hinum. Kona séra Þórðar var Margrét Sæmundsdóttir, Oddssonar prests í Hítardal. Móðir hennar var Sólvör (Salvör) Vigfúsdóttir, systir Jóns biskups, og voru þau því systkinabörn og þurftu konungsleyfi til að giftast. Þau áttu sex börn sem upp komust.

  • „„Saga latínuskóla á Íslandi til 1846". Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 14. árgangur 1893“.
  • „„Skólameistararöð í Skálholti". Norðanfari, 3.-4. tölublað 1880“.