Úrúgvælotan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Úrúgvælotan var áttunda samningalota GATT-viðræðnanna. Hún stóð frá 1986 til 1994 og lyktaði með undirritun Marrakesssamningsins og stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Umboð þessarar samningalotu snerist um að ræða ný svið sem áður höfðu verið talin of erfið til að semja um, s.s. landbúnað og textílvöru, eða höfðu ekki komið til álita fyrr, s.s. þjónustuviðskipti, hugverkarétt og fjárfestingastefnu. Meginmarkmið viðræðnanna voru að draga úr opinberum stuðningi við landbúnað, draga úr hömlum á erlenda fjárfestingu, opna fyrir alþjóðleg þjónustuviðskipti einkum á sviði banka- og tryggingaþjónustu og koma á alþjóðlegum staðli fyrir hugverkarétt. Samningurinn gekk í gildi 1. janúar 1995 en aðildarlöndin höfðu frest til að útfæra hann til 2000.

Samningalotan hófst í Punta del Este í Úrúgvæ í september 1986. Samningaviðræður héldu áfram í Genf, Brussel, Washington DC og Tókýó og lauk með undirritun samninga í Marrakess í Marokkó 15. apríl 1994.

Næsta umferð viðræðnanna var Dóhaumferðin sem hófst árið 2001 og er enn ólokið. Henni var meðal annars ætlað að taka fyrir ójafnvægi milli þróaðra ríkja og þróunarríkja sem margir gagnrýnendur töldu leiða af Marrakesssamningnum.