Úlfur Hjörvar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Úlfur Hjörvar (22. apríl 19359. nóvember 2008) var rithöfundur og þýðandi. Úlfur samdi leikrit, smásögur og ljóð og þýddi skáldsögur, leikrit og ljóð. Úlfur var fyrsti þýðandinn sem fékk inngöngu í Rithöfundasamband Íslands.

Foreldrar Úlfs voru hjónin Rósa og Helgi Hjörvar rithöfundur og útvarpsmaður. Úlfur kvæntist (1964) Helgu Hjörvar (1943) fyrverandi forstjóra Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. Börn þeirra eru Helgi Hjörvar (1967) alþingismaður og Rósa María Hjörvar (1980) bókmenntafræðingur. Auk þess á Úlfur soninn Hákon Kjalar (1976) trésmið með Hjördísi Björk Hákonardóttur fyrverandi hæstaréttardómara.

Æviferill[breyta | breyta frumkóða]

Úlfur Hjörvar fæddist í Fjalakettinum við Aðalstræti í Reykjavík. Eftir fjölbreytilegt nám starfaði hann í Alþingi í nokkur ár og var eftir það blaðamaður við Þjóðviljann um skeið, en stundaði líka margháttuð störf önnur til sjós og lands, bæði á Íslandi og í Danmörku.

Úlfur átti á yngri árum þátt í margháttaðri útgáfustarfsemi, kom til að mynda að útgáfu Birtings og var einn af útgefendum bókmenntablaðsins Forspils (1956 – 1957) ásamt þeim Ara Jósefssyni, Atla Heimi Sveinssyni, Degi Sigurðarsyni, Jóhanni Hjálmarssyni, Þorsteini frá Hamri og Þóru E. Björnsson; þá starfaði hann í leikfélaginu Grímu og var framkvæmdastjóri þess um skeið. Sem starfsmaður Samtaka Hernámsandstæðinga átti hann hlut að margskyns menningardagskrám, þar á meðal frumuppfærslu Sóleyjarkvæðis Jóhannesar úr Kötlum við tónlist Péturs Pálssonar. Árin 1961 (september) til 1962 (maí) var Úlfur við nám í alþjóðlegum blaðamannaskóla í Moskvu og ferðaðist eftir það vítt og breytt um Sovétríkin í tvo mánuði; hann ferðaðist líka um Evrópu þvera og endilanga, en auk þess til Austurlanda nær, Bandaríkjanna, Venesúela, (sem fulltrúi á þing ITI), og dvaldi, (tvo mánuði eða lengur), í ýmsum löndum, til að mynda Finnlandi, Búlgaríu, Frakklandi, Spáni, Ítalíu (Sikiley/Róm), Túnis og Nígeríu.

Á árunum 1969 til 1972 og 1992 til 1999 var Úlfur búsettur í Kaupmannahöfn, en frá 1999 og til 2005 í Þórshöfn (Tórshavn) í Færeyjum og þar eftir í Kaupmannahöfn til dauðadags 9. nóvember 2008.

Starfsferill[breyta | breyta frumkóða]

Frá 1967 lagði Úlfur stund á bókmenntaþýðingar og þýddi meðal annar mikið af ljóðum, tugi leikrita og fjölda skáldsagna. Þar á meðal verk eftir Henrik Nordbrandt, Edward Bond, Ernst Bruun Olsen, Georges Schehadé, Ivan Malinowski, Georges Feydeau, Saki, Sam Shephard, William Heinesen, Knut Hamsun, Poul Vad, Nagíb Mahfúz, Toni Morrison, Karen Blixen, Shusaku Endo. Auk þess sem hann skrifaði smásögur og leikrit og orti ljóð, skrifað kvikmyndahandrit og samdi texta fyrir ýmsa myndlistarmenn.

Árið 1977 varð Úlfur félagi í Rithöfundasambandi Íslands, fyrstur þýðenda, og sat í stjórn þess 1981 til 1983. Á því tímabili átti hann frumkvæði að stofnun Bókasambands Íslands, sat í þriggja manna samninganefnd er gerði fyrstu þýðingasamninga RSÍ við FÍB og var fulltrúi RSÍ í fyrstu stjórn Þýðingasjóðs. Hann var fulltrúi sambandsins á alþjóðlegu rithöfundaþingi í Köln sumarið 1982, (”Interlit” ), og um haustið á alþjóðlegu rithöfundaþingi í Búlgaríu.

Hann átti sæti í Menntamálaráði Íslands 1987 – 1991, og jafnframt í stjórn Bókaútgáfu Menningasjóðs, sem á því tímabili sendi frá sér um eitt hundrað bókatitla. Frá árinu 1992 var hann félagi í danska rithöfundasambandinu, DFF, og var meðal annars fulltrúi þess á rithöfundaþingi í Islamabad í Pakistan 1995 og á þingi eistneskra þýðenda í Tallin 1997. Frá 2006 til 2008 sat Úlfur í stjórn Danska þýðendasambandsins (DOF).

Viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Úlfur hlaut verðlaun fyrir hvoru tveggja, leikrit og smásögur. Hann hlaut 3. verðlaun í smásagnasamkeppni Listahátíðar 1986; 2. verðlaun í leikritasamkeppni RÚV 1987 og 1. verðlaun í smásagnasamkeppni Listahátíðar 2000; og 1987 deildi hann starfslaunum RÚV með Gylfa Gíslasyni, myndlistarmanni.

Frumsamin verk[breyta | breyta frumkóða]

 • “Nokkrir góðir Dagar með Degi”, endurminning í bókinni “DAGUR”, (M&M/Nýlistasafnið, 2003).
 • “SJÖ SÖGUR” smásögusafn (NOKKRAR KONUR Í REYKJAVÍK 2002).
 • “FRÆNDRÆKNI”, í Frændafundur (Fróðskaparsetur Føroya 2002).
 • ”Leiðslur” (1. verðlaun í smásagnasamkeppni Listahátíðar Reykjavíkur 2000)
 • “Stefnumót - smásögur Listahátíðar 2000 (Vaka-Helgafell 2000), RÚV 2000.
 • “Viðskerin”, menningarfylgirit “Dimmalætting” 2000
 • ”Rennsli” (í þýðingu Þóru Þóroddsdóttur).
 • ”Mynd” (eintal fyrir útvarp) RÚV janúar 1995.
 • ”Ókunnugt dufl” (smásaga). Hlaut sérstaka viðurkenningu í smásagnasamkeppni Ríkisútvarpsins 1994. RÚV 1994.
 • ”Fjallakyrrð” (ljóð) Lesbók Mbl. 1993, m/mynd eftir Tryggva Ólafsson
 • ”Fjallamorgunn” (ljóð) TMM I 1992
 • ”HRYGGILEG ÖRLÖG ORÐA” (smásaga) TMM I 1991.
 • ”Illa fara orðini” þýdd á færeysku af Carl Johan Jensen og flutt í Færeyska útvarpið og prentuð í færeyska tímaritinu Vencil.
 • ”Alla leið til Ástralíu” (útvarpsleikrit) RÚV 1988, og síðar ”Staldrað við” (útvarpsleikrit. Hlaut 2. verðlaun í leikritasamkeppni RÚV 1987) RÚV 1987 og 2000.
 • ”Sunnudagur” (smásaga. Hlaut 3. verðlaun í smásagnasamkeppni Listahátíðar Reykjavíkur 1986), þýdd á færeysku af Carl Johan Jensen og flutt í Færeyska útvarpið.
 • ”Smásögur Listahátíðar 1986” (AB 1986), RÚV 1986, Mályrkja I (Námsgagnastofnun 1994).
 • Handrit að heimildamynd um listmálarann Tryggva Ólafsson, ”Bygging, jafnvægi, litur ” (RÚV-Sjónvarp 1984; einnig sýnd í Danmörku, DR 1, og víðar).

Helstu þýðingar[breyta | breyta frumkóða]

Skáldsögur[breyta | breyta frumkóða]

Sebastíanshús eftir Oddvør Johansen (Grámann 2005) Norðan Vatnajökuls (Nord for Vatnajøkel) eftir Poul Vad (Ormstunga 2001). Gestaboð Babette (Babettes gæstebud) eftir Karen Blixen (Bjartur 1998, Hljóðbókaútgáfan 1999 í lestri Kristbjargar Kjeld). Söngur Salómons (Song of Salomon) eftir Toni Morrison (Forlagið 1994). Þjófur og hundar eftir Nagíb Mahfúz (Setberg 1992). Leyndardómar (Mysterier) eftir Knut Hamsun (Forlagið 1991). Hneyksli eftir Shusaku Endo (Forlagið 1989, M&M 1991). Ástkær (Beloved) eftir Toni Morrison (Forlagið 1988, M&M 1991, RÚV 2000). Riddarinn (Rytteren) eftir H. C. Branner (RÚV 1981). Rúbrúk (Rubruk) eftir Poul Vad (RÚV 1975). Hin lítilþægu (De Nøjsomme) eftir Poul Vad (RÚV 1975, Menningarsjóður 1977). Móðir sjöstjarna (Moder syvstjerne) eftir William Heinesen (RÚV 1970, Helgafell 1974, M&M 1993). Barna- og unglingabækur: Taski (Kuffi) eftir B.Andreasen (fyrir dómnefnd í barnabókasamkeppni Útnorðurráðsins 2002). Stríðsvetur (Oorlogswinter) eftir Jan Terlouw (Iðunn 1972 og 1988). Onno + Inni eftir Vagn Steen (Framhaldssaga á barnasíðu Þjóðviljans Litla glugganum 1972). SAGA, er segir frá bæ er heitir Greppibær og nokkrum íbúum hans. (Framhaldssaga á barnasíðum Þjóðviljans Litla glugganum 1972-73). Góði ræninginn Vilbarður eftir Rudolf O. Wiemer (Framhaldssaga í barnatíma RÚV 1973). Í safnritum m.a.: Tónlist Erichs Zann eftir H. P. Lovecraft og Gula veggfóðrið eftir Charlotte Perkins Gilman í Hrollvekjum, (Iðunn 1982). Ljóðið: nú blæs haustlega, eftir Henrik Nordbrandt í Ljóðaárbók 1988 (AB 1988).

Aðrar þýðingar[breyta | breyta frumkóða]

Auk þess fjöldi smásagna, (einnig frumsamina), kaflar úr ritverkum og ljóð birt í blöðum og tímaritum eða flutt opinberlega m. a. í Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsinu, Norræna húsinu í Reykjavík, Jónshúsi í Kaupmannahöfn og víðar, eftir: Jørgen Bruun Hansen, Hendrik Nordbrandt, Poul Vad, Ivan Malinowski, Sten Kaalø, Piu Juul, Carsten Jensen, Saki, Henry Miller, Howard Fast, William Heinesen , Jóannes Nielsen, Christian Matras, o.m.fl. Leikrit: Þjóðleikhúsið: Ástarbréf (Loveletters) eftir A. R. Gurney (1993). Frænka Charleys eftir Brandon Thomas. Minningar frá Brighton Beach eftir Neil Simon. Hugarburður (Lie of the Mind) eftir Sam Shepard (1987). Tvíleikur fyrir einn (Duet for One) eftir Tom Kempinski (1982). Betri er þjófur í húsi en snurða á þræði eftir Dario Fo (1979). Fröken Margrét (Aparaceu a Margarida) eftir Roberto Athayde (1977). Hvað varstu að gera í nótt (Occupe-toi d´Amélie) eftir Georges Feydeau (1974). RUV- leiklistardeild: Með þig að veði ( Looser Takes All ) framhaldsleikrit í fjórum tháttum eftir Graham Greene. Engin tíðindi lengur (Yesterdays News) eftir Peter Barnes. Frægðarljómi (Fame) eftir Peter Barnes. Rósa (Rosa) eftir Peter Barnes. Hvar er Beluah? Eftir Raymond Chandler (Fimm þættir-frumflutt 27.11.92 og endurflutt juli.02) Kristín litla eftir Kaj Nissen. Snjórinn er blæja eftir Antti Tuuti. Andlát móður frúarinnar eftir Georges Feydeau. Farmiði til tunglsins eftir Einar Plesner. Engin ástæða til uppsagnar eftir Klas Ewert Everwyn. Leikfélag Reykjavíkur: Agnes – barn Guðs (Agnes of God) eftir John Pielmeier (1985). Guð gaf mér eyra (Children of a Lesser God) eftir Mark Medoff (1983). Borgið (Saved - nefnt Hjálp í uppfærslu) eftir Edward Bond (1971). Yfirmáta, ofurheitt . . . (Luv) eftir Murray Schisgal (1969). Leiklistarskóli Íslands: Hjá álfum og tröllum eftir Staffan Westerberg (1987). Aljóna og Ivan eftir Lév Jústínoff (1985). Bara ljón eftir Anders Järleby (1983). Prestsfólkið (Prästens familie) eftir Minnu Canth (1982). Leikfélag Akureyrar: Bréfberinn frá Arles (Postbudet fra Arles) eftir Ernst Bruun Olsen (1983). Alþýðuleikhúsið: Elskaðu mig (Elsk mig) eftir Vitu Andersen (Hafnarbíó 1981). Menningar- og fræðslusamband alþýðu: Blaðaviðtalið eftir Torgny Lindgren (staðfært). Áætlunarferð eftir Ønnu Wahlgren (staðfært). Bandalag ísl. Leikfélaga: Verkstjórinn eftir Bengt Bratt (Leikfélag Seyðisfjarðar 1974). Vasco (Histoire de Vasco) eftir Georges Schehadé (L.L. Ísafirði 1970). Gríma: Velkominn til Dallas, Mr. Kennedy eftir Kaj Himmelstrup (1967). Meðal annara þýðinga: Frásagnir úr byltingunni, bréf, greinar og dagbækur Che Guevara (M&M 1970)