Öskupoki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Öskupokar.

Öskupoki er lítill poki sem er fylltur af ösku, og upp af honum er bandspotti og við hann festur lítill krókur. Allt fram á síðustu áratugi 20. aldar léku börn sér að því að búa til öskupoka og krækja öskupokum aftan í fólk á öskudegi. Öskupokana átti helst að hengja aftan í einhvern án þess að viðkomandi tæki eftir því.

Hér áður fyrr voru öskupokar oft fagurlega saumaðir og skreyttir, til dæmis með hjörtum. Var málað á þá mynstur eða þeir sniðnir spaða- eða tígullaga. Sumstaðar var það þannig að stúlkur settu ösku í pokana, en strákarnir steina. Síðustu áratugina sem þessi siður tíðkaðist voru pokarnir þó yfirleitt tómir. Öskupokasiðurinn er nú að mestu horfinn og hefur vikið fyrir grímubúningum og búðarsöng. Ein ástæða þess að pokarnir hurfu var sú að títuprjónarnir sem notaðir voru í krókinn voru gerðir úr harðari málmi en áður hafði verið svo að erfitt eða ómögulegt var að beygja þá.

Sá siður að hengja öskupoka á fólk á líklega rætur að rekja aftur í kaþólskan sið. Elsta heimild um orðið „öskupoki“ er úr orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnuvík, líklega frá miðbiki 18.aldar en þar segir:

Öskupoki, stundum öskuposi: Lítill poki fylltur ösku, sem piltar eða stúlkur hengja, sér til gamans á klæði annarra eða koma öðrum til að bera óvart á einhvern hátt á öskudag, það er að segja miðvikudag í föstuinngang. Sama á við um burð á steinum eða steinvölum. Þessi venja er án efa leifar úr kaþólskum sið.

Að hengja öskupoka á fólk á þessum degi virðist hafa verið alíslenskur siður. Eina útlenda dæmið um einhvers konar „öskupoka“, sem fundist hefur, er frá Danmörku og kemur fyrir hjá sagnfræðingnum Troels-Lund í verki hans Dagligt liv i Norden, en það er í þá veru að menn hafi slegið hvern annan með öskupokum, en ekki hengt þá hver á annan.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]