Ólafur Stephensen (dómsmálaritari)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ólafur Magnússon Stephensen (6. september 179114. apríl 1872) var íslenskur lögfræðingur sem var dómsmálaritari við Landsyfirrétt og bjó lengi í Viðey.

Ólafur var fæddur á Leirá, sonur Magnúsar Stephensen konferensráðs og konu hans Guðrúnar Vigfúsdóttur Scheving. Frændi hans og nafni, Ólafur sonur Stefáns Stephensen bróður Magnúsar, fæddist sama ár og er þeim stundum ruglað saman. Hann lærði til stúdentsprófs í heimaskóla hjá Árna Helgasyni biskupi og útskrifaðist árið 1814. Sama haust hóf hann nám við Kaupmannahafnarháskóla og útskrifaðist með lögfræðipróf 1817. Hann varð varadómsmálaritari við Landsyfirrétt 1826 en það starf var sameinað embætti 2. dómara árið 1834. Hann var sæmdur justitsráðsnafnbót 1862.

Ólafur erfði Viðey eftir föður sinn þegar hann lést 1833 og bjó þar til æviloka. Jón Espólín segir að hann hafi verið búmaður, en gáfuminni. Hann var þríkvæntur og voru fyrri konur hans tvær systur og náfrænkur hans, dætur Stefáns Stephensen amtmanns, föðurbróður hans, þær Sigríður (30. ágúst 1792 – 2. nóvember 1827) og Marta (14. júní 1805 – 27. október 1833). Þriðja kona Ólafs var Sigríður Þórðardóttir (1803 – 1879).

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Candidati juris. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 3. árgangur 1882“.