Fara í innihald

Ófeigur Sigurðsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ófeigur Sigurðsson (fæddur 2. nóvember 1975) er íslenskur rithöfundur, ljóðskáld og þýðandi. Hann stundaði nám við Heimspekideild Háskóla Íslands og lauk BA prófi árið 2007 með ritgerð um bann og gegnumbrot í verkum Georges Bataille. Ófeigur hefur gefið út sjö ljóðabækur og fjórar skáldsögur. 

Fyrsta ljóðabók hans, Skál fyrir skammdeginu, kom út árið 2001 hjá sjálfsútgáfuforlaginu Nykri. Handlöngun, kom út undir merkjum Nýhil árið 2003, en hann átti einnig ljóð í safnritinu Ást æða varps sem Nýhil gaf út 2005. Sama ár kom út fyrsta skáldsaga hans, Áferð, hjá Traktori á Vestfjörðum, undirforlagi Bjarts.[1] Árið 2006 kom síðan út ljóðabókin Roði í bókaflokknum Norrænar bókmenntir, einnig hjá Nýhil.

Bókin Provence í endursýningu, sem kom út árið 2008 hjá Apaflösu, var gefin út í handunnu bandi og ætluð sem virðingarvottur við Sigfús Daðason skáld.[2] Kom hún út í 50 númeruðum eintökum. Seinna sama ár kom Tvítólaveizlan, fimmta ljóðabók Ófeigs, út hjá Nýhil útgáfunni.

Árið 2009 gaf Ófeigur út bókverkið Biscayne Blvd hjá Apaflösu ásamt listamanninum Magnúsi Árnasyni. Bókin var búin til úr silikoni og því vatnsheld. Hún var gefin út í minningu Geirlaugs Magnússonar, skálds, sem sjálfan hafði dreymt um að „búa til vatnshelda buslu-Heimskringlu handa Snorra í lauginni.“[3] Biscayne Blvd var gefin út í aðeins 30 eintökum og vó hvert eintak um 2 kíló.

Ófeigur hlaut Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins árið 2011 fyrir Skáldsögu um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma.[4] Árið 2014 kom skáldsagan Öræfi út og varð metsölubók, hún hlaut Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana og Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015. Bækur hans hafa komið út á 10 tungumálum.

Ófeigur hefur einnig stundað þýðingar og var þýðing hans á Verndargrip eftir Roberto Bolaño, gefin út hjá Sæmundi árið 2016, tilnefnd til Íslensku þýðingaverðlaunanna 2016.[5] 

Skáldsögur

 • Áferð, Bjartur/Traktor, 2005
 • Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma, Mál & menning, 2010
 • Landvættir, Mál & menning, 2012
 • Öræfi, Mál & menning, 2014

Ljóð

 • Skál fyrir skammdeginu, Nykur, 2001
 • Handlöngun, Nýhil, 2003
 • Roði, Nýhil, 2006
 • Provence í endursýningu, Apaflasa, 2008
 • Tvítólaveizlan, Nýhil, 2008
 • Biscayne Blvd, Apaflasa, 2009
 • Kviðlingar, Sjálfskeiðungur, 2013.    

Annað

Þýðingar

 • Verdargripur eftir Roberto Bolaño, Sæmundur, 2016

Viðurkenningar

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
 1. „Skáldsagan Áferð eftir Ófeig Sigurðsson er gefin út af Traktor...“, http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1052541/
 2. „Ljóð frá Provence ort á þýska ritvél“, http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1232931/
 3. Apaflasa kynnir: BISCAYNE BLVD
 4. „Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins“, http://www.islit.is/frettir/nr/3253
 5. „Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna“, http://www.islit.is/frettir/nr/3915
 6. „Ófeigur Sigurðsson, Bryndís Björgvinsdóttir og Snorri Baldursson hrepptu Íslensku bókmenntaverðlaunin“. pressan.is. Sótt 24. febrúar 2015.[óvirkur tengill]