Íslenska geitin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Íslenskar geitur

Íslenska geitin, íslenski geitastofninn, eða landnámsgeitin er lítill lokaður erfðahópur geita sem talið er að hafi borist hingað með landnámsmönnum frá Noregi og verið án innblöndunar í um 1150 ár. Stofninn er í útrýmingarhættu og var aðeins 818 dýr í 76 hjörðum árið 2012. Árið 1930 voru geitur á landinu um 3000. Tvisvar hefur geitastofninn farið niður fyrir hundrað dýr en það gerðist á árunum 1883-1885 og aftur um 1960. Greiddur er opinber stofnverndarstyrkur fyrir vetrarfóðraðar geitur.

Ástæður fyrir fækkun geita eru taldar vera búháttabreytingar í sveitum og myndun þéttbýlis, einangrun svæða og niðurskurður vegna riðu ásamt því að geitur voru haldnar til mjólkurframleiðslu víða í sjávarplássum fram að seinni heimstyrjöldinni því þær þurftu ekki mikið fóður og mjólkuðu nóg til heimilis. Þegar svo mjólkursamlög voru stofnuð þá lagðist mjólkurgeitahald af en fyrsta mjólkurbúið var stofnað 1927. Varnarlínur vegna sauðfjárveikivarna sem settar voru upp í kringum 1940 hafa skipt geitastofninum upp í marga litla hópa með takmökuðu flæði erfðaefnis á milli. Stærsta geitabúið á Íslandi er Háafell í Hvítársíðu með yfir 180 dýr.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]