Ísfélagið við Faxaflóa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Ísfélagið við Faxaflóa var fyrsta íshúsið í Reykjavík. Það var stofnað 5. nóvember 1894. Í þessu fyrsta alvöru íshúsi Íslendinga voru engar vélar, heldur var geymslugetan fengin með því að blanda saman ís og snjó og salti á vetrum. Ísinn var tekinn af Tjörninni í Reykjavík, og var þá talað um ístöku.

Upphaf Ísfélagsins[breyta | breyta frumkóða]

Sumarið 1894 var Tryggvi Gunnarsson (lengi kaupstjóri Gránufélagsins), þá bankastjóri Landsbankans, orðinn mjög áfram um að koma upp íshúsi í Reykjavík. Hann var þá formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur, og hafði þá nýlega fengið bréf frá Ísak Jónssyni um þetta framfaramál, en hann hafði kynnst rekstri íshúsa við Winnipegvatn í Kanada.

Verslunarmannafélagið hafði beitt sér fyrir því að C.F. Drechsel sjóliðsforingi héldi fyrirlestur í Reykjavík í júlí þetta sumar. Þar talaði hann um tilraun að flytja nýjan fisk í ís frá Reykjavík til hafna erlendis. Á fundi hjá félaginu 15. september þá um haustið hélt Tryggvi erindi um „klakageymsluhús“. Hann taldi Reykjavík vera á eftir öðrum kaupstöðum í ýmsum greinum. Hann hvatti menn til að koma upp íshúsi og voru fundarmenn því hlynntir, t.d. Helgi Helgason kaupmaður og Halldór Jónsson bankagjaldkeri. Matthías Jóhannessen kaupmaður vildi fara varlega í sakirnar. Kosin var nefnd til að fylgja málinu eftir og sátu í henni auk Tryggva Guðbrandur Finnbogason konsúll, Matthías Jóhannessen, Björn Jónsson ritstjóri og Helgi Helgason.

Á fundi félagsins 22. september var nefndin komin með tillögur sínar. Hún lagði til að ísgeymsluhús yrði komið upp, stofnfé yrði 8-10.000 kr, en Landsbankinn væri tilbúinn að leggja fram helminginn. Hinn helminginn skyldi koma frá einstaklingum sem keyptu 50 kr. hlutabréf. Einnig var lagt til að húsið yrði reist á stakkstæði Christens Zimsens, sem var á lóð Hafnarstrætis 23.

Hafist var handa þetta sama haust. Fundarmenn lýstu áhuga sínum á málinu og nefndinni var falið að ganga frá stofnun. Í boðsbréfi frá nefndinni var félagið nefnt: „Klakageymslu- og fiskifélag Reykjavíkur“. Á stofnfundi 5. nóvember 1894 fékk félagið heitið Ísfélagið við Faxaflóa.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]