Fara í innihald

Ísabella af Angoulême

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gröf Ísabellu í Fontevraud-klaustri.

Ísabella af Angoulême (118831. maí 1246) var drottning Englands frá 24. ágúst árið 1200 til 19. október 1216, þegar maður hennar, Jóhann landlausi, lést. Hún var einnig greifynja af Angoulême, sem hún erfði eftir föður sinn.

Ísabella var einkadóttir Aymer Taillefer, greifa af Angoulême, og Alísu af Courtenay. Langafi hennar í móðurætt var Loðvík 6. Frakkakonungur. Ísabella hafði ung að aldri verið heitin Hugh le Brun, greifa af Lusignan, en Jóhann landlausi tók sér hana fyrir konu ári eftir að hann fékk hjónaband sitt og Ísabellu af Gloucester gert ógilt. Hin nýja drottning var þá tólf ára að aldri og þegar orðlögð fyrir fegurð en brúðguminn 33 ára. Englandskonungar höfðu landeignir sínar í Frakklandi að léni frá Frakkakonungi og Filippus 2. Frakkakonungur notaði það að Jóhann hafði gifst stúlku sem lofuð var öðrum lénsmanni hans sem eina helstu átylluna fyrir því að taka allar frönsku lendurnar undir sig.

Sagt er að Jóhann hafi verið ákaflega ástfanginn af barnungu drottningunni sinni og vanrækt stjórn ríkisins af þeim sökum. Samkomulag þeirra var þó ekki gott, bæði vegna aldursmunarins og ekki síður vegna þess að þau voru bæði mjög skapmikil.

Ísabella var orðin 19 ára þegar fyrsta barn hennar fæddist og var það Hinrik, sem síðar varð konungur. Alls eignuðust þau Jóhann fimm börn sem öll lifðu til fullorðinsára. Um leið og Jóhann dó í október 1216 lét Ísabella krýna Hinrik son sinn. Ári síðar skildi hún hann eftir í umsjá ríkisstjórans, jarlsins af Pembroke, og sneri heim til Angoulême, sem hún hafði erft eftir föður sinn 1202.

Um vorið 1220 giftist hún æskuunnusta sínum, Hugh 10. af Lusignan. Áður hafði reyndar verið ákveðið að elsta dóttir hennar, Jóhanna, ætti að giftast honum og hafði hún verið alin upp við hirð hans, en þegar Hugh sá Ísabellu aftur, jafnfagra og fyrr, kaus hann hana fremur. Jóhanna var í staðinn heitbundin Alexander 2. Skotakonungi og giftist honum 1221, þá tæplega ellefu ára.

Ísabella og Hugh eignuðust níu börn sem öll komust upp. Ísabella var hégómagjörn og sætti sig aldrei við að hafa lækkað úr tign, úr drottningu niður í greifafrú. Árið 1241 móðgaðist hún ákaflega þegar Blanka ekkjudrottning, móðir Loðvíks 9. Frakkakonungs, virti hana ekki viðlits, og tók ásamt eiginmanni sínum og ýmsum óánægðum aðalsmönnum þátt í samsæri gegn Frakklandskonungi. Það mistókst þó og Hugh samdi frið við konunginn en árið 1244 voru tveir matreiðslumenn konungs handteknir og sakaðir um að hafa reynt að eitra fyrir konungi. Þeir játuðu að hafa verið keyptir til þess af Ísabellu. Hún flúði þá og leitaði skjóls í Fontevraud-klaustri, þar sem hún lést 31. maí 1246.

Sum barna Ísabellu og Hughs settust að í Englandi undir verndarvæng Hinrik 3., hálfbróður síns.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]