Fara í innihald

Íraska byltingin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Íraska byltingin, einnig kölluð 14. júlí byltingin, var herforingjabylting í Írak 14. júlí 1958 sem steypti af stóli konunginum, Faisal 2. og ríkisstjórn Nuri al-Saids. Byltingin leiddi til falls Hasjemítakonunganna og upphafs lýðveldisins Íraks. Byltingin var framkvæmd af hópum sem aðhylltust arabíska þjóðernisstefnu sem höfðu vaxið eftir egypsku byltinguna 1952. Þeir tóku undir stefnu Nassers og efldust mikið við Súesdeiluna, þar sem stjórn al-Saids var höll undir Vesturveldin.

Tækifærið til að gera byltingu kom þegar Írak og Jórdanía mynduðu hið skammlífa Arabískt sambandsríki Íraks og Jórdaníu 1958 sem svar við Sameinaða arabíska lýðveldinu sem Egyptaland og Sýrland höfðu myndað skömmu áður. Í júlí voru tvö írösk stórfylki send til Jórdaníu eftir leið sem lá framhjá Bagdad. Herdeildirnar, sem voru undir stjórn Abdul Salam Arif ofursta og stórfylkisforingjans Abdul Karim Qasim lögðu höfuðborgina undir sig og tóku konungsfjölskylduna af lífi. Uppþot urðu víða um borgina og nokkrir útlendingar sem gistu á Hótel Bagdad voru drepnir. Al-Said slapp en var gripinn og skotinn daginn eftir.

Eftir byltinguna var lýðveldi stofnað undir stjórn byltingarráðs með fulltrúum helstu trúarhreyfinga og stjórnmálahreyfinga landsins. Quasim varð forsætisráðherra.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.