Ástríkur og Gotarnir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ástríkur og Gotarnir (franska: Astérix chez les Goths ) er frönsk teiknimyndasaga og þriðja bókin í bókaflokknum um Ástrík gallvaska. Hún kom út árið 1963, en birtist áður sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Pilote frá 1961-62. Höfundur hennar var René Goscinny en Albert Uderzo teiknaði. Bókin var gefin út á íslensku árið 1977.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Ástríkur og Steinríkur fylgja Sjóðríki á seiðkarlaráðstefnu þar sem hann vinnur til verðlauna fyrir kjarnadrykkinn. Hópur Gota mætir á svæðið staðráðinn í að ræna sigurvegara keppninnar til að nýta krafta hans til að gera Gota að stórveldi. Þeim tekst að handsama Sjóðrík og halda með hann til Germaníu, ekki hvað síst vegna þess að rómverski herinn er upptekinn við að elta Ástrík og Steinrík í misgripum fyrir gotneska herflokkinn.

Gotahöfðinginn Vondurr hefur Sjóðrík í haldi og reynir að fá hann til brugga töfraseyðið. Á meðan slást Ástríkur og Steinríkur í herlið Gota í von um að hafa upp á vini sínum. Þeir enda í dýflissu og deila klefa með Vonlausum, undirförlum túlki Vondurrs sem getur bent þeim á hvar Sjóðríkur sé niðurkominn. Þeir eru handteknir á nýjan leik og Vondurr hyggst láta ótemjur slíta fangana í sundur. Þeir aumka sig yfir Vonlausan og gefa honum töfradrykk sem veldur því að hann getur slitið sig lausan, steypt Vondum af sessi og krýnt sjálfan sig keisara. Í kjölfarið gera þeir sér það að gefa hinum og þessum Gotum sopa af kjarnadrykknum með þeim afleiðingum að hver um sig hyggst verða keisari og kemur sér upp herliði. Í kjölfarið brýst út algjör ringulreið og borgarastyrjöld í landinu þar sem smákóngar keppast við að berja hver á öðrum. Gallversku félagarnir halda aftur heim á leið þar sem þeim er vel fangað.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Andþýsk viðhorf eru áberandi í sögunni og þar er dregin upp mynd af Gotunum eða Þjóðverjunum sem heimskum og árásargjörnum. Höfundarnir áttu síðar eftir að iðrast þessa og í seinni bókum í sagnaflokknum eru Gotar sýndir í jákvæðara ljósi.
  • Einn seiðkarlanna í samkeppninni er sýndur steikja Franskar kartöflur berhentur í sjóðandi feiti. Síðar í sagnaflokknum, í bókinni Ástríkur í Belgíu eru franskar kartöflur hins vegar fundnar upp, auk þess sem kartöflur voru enn ekki komnar til Evrópu frá Nýja heiminum.
  • Hakakrossar koma fyrir á stöku stað í bókinni, m.a. í talblöðrum sem sýna blótsyrði Gotanna.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Ástríkur og Gotarnir hafa tvívegis komið út á íslensku. Fyrst hjá Fjölvaútgáfunni árið 1977 í íslenskri þýðingu Þorbjarnar Magnússonar og aftur árið 2017 hjá Froski útgáfu í nýrri þýðingu Hildar Bjarnason og Anítu K. Jónsson.