Ástríður Helgadóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ástríður Helgadóttir (f. 20. febrúar 1825, d. 14. júní 1897) var íslenskur tónlistarkennari. Hennar er aðallega minnst fyrir að hafa verið ein af frumkvöðlum í píanókennslu á Íslandi eftir miðja 19. öldina og fyrir samband hennar á unga aldri við Gísla Brynjúlfsson, skáld. Mörg af ástar- og saknaðarljóðum Gísla voru ort til Ástríðar.

Ætt og uppruni[breyta | breyta frumkóða]

Ástríður Helgadóttir hét fullu nafni Ástríður Melsteð Helgadóttir Thordersen. Thordersen nafnið var ættarnafn sem hún fékk frá föður sínum, Helga Guðmundssyni Thordersen, dómkirkjupresti í Reykjavík, síðar biskup Íslands, f. 8.4.1794, d. 4.12. 1867. Nafnið Melsteð fékk hún frá manni sínum, Sigurði Pálssyni Melsteð, guðfræðingi og forstöðumanni Prestaskólans í Reykjavík, f. 12.12. 1819, d. 20.5. 1895. Móðir Ástríðar var Ragnheiður Stefánsdóttir Stephensen, dóttir Stefáns Ólafssonar Stephensen, varalögmanns norðan og vestan, varadómara við landsyfirdóminn, síðar amtmanns í Vesturamtinu, f. 27.12. 1767, d. 20.12 1820.

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Ástríður ólst upp með foreldrum sínum í Landakoti í Reykjavík, en faðir hennar keypti jörðina árið 1837 og byggði þar timburhús sem kallað var gamla prestshúsið í Landakoti.[1] Sumarið 1843, þegar Ástríður var átján ára, kom hún til Reykjavíkur eftir þriggja ára nám og dvöl í Kaupmannahöfn. Árið 1844 skrifaði Gísli Brynjúlfsson Grími Thomsen bréf, þar sem hann lýsir ást sinni á Ástríði, dóttur dómkirkjuprestsins í Landakoti. Guðrún Stefánsdóttir, móðir Gísla Brynjúlfssonar, bjó í gamla Landakotsbænum á þeim tíma sem Gísli hóf nám við Latínuskólann í Reykjavík. Þau fluttu til Reykjavíkur 1835. Þau Ástríður voru því nágrannar og hittust oft til að tala saman og lesa fagurbókmenntir. Gísli orti ljóð til hennar og þýddi önnur eftir enska skáldið Byron, og flutti henni á síðkvöldum, en Ástríður spilaði undir á gítar.[2] Þegar foreldrar Ástríðar komust að sambandi þeirra, bönnuðu þau henni að hitta Gísla, en þau héldu þó áfram að hittast leynilega. Helgi biskup og kona hans komust að lokum að þeirri niðurstöðu að ekki þýddi að setja sig upp á móti þessu sambandi, því dóttur þeirra virtist vera alvara. Foreldrarnir munu hafa samþykkt að þau trúlofuðust. Gísli fór til Kaupmannahafnar til náms við háskólann þar vorið 1845.

Sem dæmi um ljóð sem Gísli orti til Ástríðar er þetta frá 1846. Tilefni ljóðsins er að Helgi G. Thordersen fór til Kaupmannahafnar til að vígjast bískup Íslands. Ástríður var með í þeirri ferð. Gísli Brynjúlfsson fór til að kveðja þau við skipshlið er þau snéru aftur til Íslands, en þetta var 30. júlí 1846.


Til Ástríðar.


Ei skalt gráta Ástríður!

ei skalt tárast lengur,

skipið burtu skjótt líður,

skúm að brjóstum gengur.


Betra á sá, er burtu fer

og báran svala flytur,

heldur en sá, sem eftir er

og með trega situr.[3]


Gísli sleit trúlofun þeirra Ástríðar árið 1847 í næstu íslandsferð sinni.[4]

Björn Th. Björnsson segir í bók sinni Minningarmörk úr Hólavallagarði um þetta ástarsamband Gísla og Ástríðar, að samkvæmt rómantísku stefnunni geti hamingjusamur maður ekki verið skáld. Gísli hafi því orðið að segja stúlkunni upp til að geta saknað hennar og harmað örlögin. Þetta hafi með öðrum orðum veitt honum þann skáldlegan innblástur sem hann þarfnaðist.

Ástríður giftist seinna Sigurði Pálssyni Melsteð, f. 12.12. 1819, d. 20.5. 1895, en hann var guðfræðingur og lektor við Prestaskólann í Reykjavík. Þar varð hann seinna forstöðumaður (skólastjóri). Þau Ástríður og Sigurður áttu tvo syni. Fyrsta barn þeirra var Helgi, f. 15.10. 1849, d. 5.1. 1872, 23 ára að aldri. Helgi Melsted var alla tíð heilsutæpur, en hann dó úr lungnaveiki eftir að hafa verið mjög veikur allt árið 1871.[5] Annar sonur þeirra, Páll Guðbrandur, dó aðeins nokkurra daga gamall árið 1851.

Ástríður var lengi einn þekktasti píanókennarinn í Reykjavík, og ein af fyrstu "slaghörpum" landsins kom á heimili hennar. Þekktastur nemandi hennar var Sveinbjörn Sveinbjörnsson, tónskáld, en hann hóf tónlistar- og hljóðfæraleikaranám sitt hjá Ástríði. Sveinbjörn og Ástríður voru fjórmenningar að skyldleika. Nemendur hennar voru margir. Ástríður var ein af fáum konum sem lögðu hljóðfæraleik fyrir sig, en slíkt var fágætt á 19. öldinni. Hún er því í flokki brautryðjenda þar.[6]

Talsvert starfaði Ástríður Helgadóttir að góðgerðar- og mannúðarmálum um dagana. Hún var í litlum hópi heldri kvenna Reykjavíkur sem stóð að peninga- og matarsöfnunum til hjálpar fátæku fólki og einstæðingum.[7][8][9] Á heimssýningunni í Chicago 1893 var meðal annars sýnd hvít bandhespa sem Ástríður Melsteð hafði spunnið, en hespan var hluti íslenska sýningarbássins um prjónles og tóvinnu íslenskra kvenna.[10]Á iðnaðarsýningunni í Reykjavík 1883 hlaut Ástríður verðlaun í fyrsta flokki fyrir málverk sem hún hafði málað. Verðlaunin voru minnispeningur úr silfri.[11] Hún var, eins og reyndar flestar vinkonur hennar, mikil tóvinnukona.[12]

Ýmislegt[breyta | breyta frumkóða]

Ástríður Helgadóttir var betur þekkt undir nafninu Ástríður Melsteð, stundum skrifað "Melsted." Einnig var hún stundum nefnd Ástríður Thordersen.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Úr sögu Landakots“.
 2. Björn Th. Björnsson (1988). Minningarmörk í Hólavallagarði. Mál og Menning Reykjavík. bls. 134-137.
 3. Aðalgeir Kristjánsson. „Áður manstu unni ég mey“.
 4. Aðalgeir Kristjánsson. „Tvö bréf til móður“.
 5. „Í jóla-leyfinu“.
 6. „Íslenskar konur í tónlist“.
 7. „Með samskotum sem nokkrar góðar konur“.
 8. „Póstskipið Laura“.
 9. „Landskjálftasamskot 1896“.
 10. „Chicago 4. desember 1893“.
 11. „Nafnaskrá þeirra er verðlaun hafa unnið við iðnaðarsýninguna í Reykjavik sumarið 1883“.
 12. „Auglýsing“.