Ásta Magnúsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Ásta Magnúsdóttir (fædd 27. febrúar 1888, dáin 26. maí 1962) varð ein fyrst kvenna sem skipuð var í opinbert embætti á Íslandi er hún var skipuð ríkisféhirðir árið 1933. Hún gegndi embættinu til ársins 1958 er hún fór á eftirlaun.[1]

Foreldrar hennar voru hjónin Magnús Ólafsson ljósmyndari á Akranesi og síðar í Reykjavík og Guðrún Jónsdóttir. Ásta ólst upp á Akranesi til 13 ára aldurs en þá fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur. Ásta gekk um skeið í Landakotsskóla og stundaði einnig píanóleik „og varð svo fær í þeirri grein að hún gat leikið undir á opinberum tónleikum.“ [2] Ásta var ógift og barnlaus.[3]

Þegar hún var skipuð ríkisféhirðir árið 1933 hafði hún unnið í tengslum við embættið í 23 ár eða frá árinu 1910 er hún hóf störf sem skrifari hjá Valgarð Claessen landsféhirði en síðar varð hún fulltrúi við embættið. Í viðtali við Ástu sem birtist í tímaritinu 19. júní árið 1952 nefndi hún að afskipti kvennasamtaka hefðu ráðið miklu um að hún var skipuð í embættið en nokkur kvenfélög sendu ríkisstjórninni skriflega áskorun um að veita Ástu starfið.[4]

Ásta mun hafa verið fyrsta íslenska konan sem steig um borð í flugvél árið 1919.[2]

Árið 1946 var Ásta sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu og stórriddarakrossi sömu orðu árið 1958.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Erla Hulda Halldórsdóttir; Guðrún Dís Jónatansdóttir (1998). „Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna“
  2. 2,0 2,1 Alexander Jóhannesson, „Ásta Magnúsdóttir fyrrv. ríkisféhirðir“, Morgunblaðið, 30. maí 1962 (skoðað 2. júlí 2019)
  3. Páll Eggert Ólafsson o.fl., „Íslenskar æviskrár“ 6. bindi bls. 42
  4. Snjólaug Sigurðardóttir Bruun, „Konur í opinberri þjónustu“, 19. júní, 2. árg, 1. tbl. 1952