Árni Jónsson (ábóti)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Árni Jónsson var skáld og ábóti í Munkaþverárklaustri á 14. öld, vígður 1370 eftir lát Hafliða ábóta. Hann fór utan 1379 og er ekkert um hann vitað eftir það; vafalaust hefur hann dáið erlendis skömmu síðar.

Árni var sagður gott skáld og er hann talinn hafa ort drápu um Guðmund góða Arason biskup, sem varðveist hefur. Einnig eru til tvær lausavísur eftir Árna. Eitt erindi Guðmundardrápu hljóðar svo:

Sá ríss upp með sigri og höppum
sæmdar maðr á nyrsta jaðri
ýta fróns, þar er Island heitir,
ungr og vænn, sem rós hjá klungrum;
skírður var, þegar tæddist fyrða
fríðr ættstuðull og nefndur síðan
Guðmundr er þá giftu hendi
gott að elska, en hafna spotti.

Þorgils nokkur er sagður orðinn ábóti á Munkaþverá þegar árið 1379 og gæti það bent til þess að Árni hafi annaðhvort sagt af sér embætti áður en hann fór utan eða dáið fljótlega.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Munkaþverár-klaustur. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
  • „Munkaþverárklaustur. Sunnudagsblaðið, 10. apríl 1966“.