Fara í innihald

Árni Þórðarson hirðstjóri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Árni Þórðarson (131518. júní 1361) var íslenskur hirðstjóri á 14. öld og var líflátinn vegna þess að hann hafði sjálfur látið taka heila fjölskyldu af lífi.

Ætt Árna er mjög óviss en faðir hans hefur stundum verið talinn Þórður Kolbeinsson bóndi í Haukadal (d. 4. apríl 1331), sem aftur hefur ýmist verið talinn sonur Kolbeins sonar Þórðar kakala eða sonur Kolbeins Bjarnasonar Auðkýlings, riddara á Auðkúlu. Kona hans er ekki þekkt heldur en dóttir hans var Ingileif, kona Jóns Hákonarsonar bónda í Víðidalstungu.

Árni sigldi til Noregs 1356 ásamt Jóni skráveifu og Þorsteini Eyjólfssyni og fengu þeir, ásamt Andrési Gíslasyni, sem siglt hafði út árinu áður, sameiginlega hirðstjórn yfir landinu til þriggja ára. Þeir sigldu heimleiðis sumarið 1357 en skipin sem þeir voru á hröktust til Hjaltlands og þurftu þeir að hafa þar vetursetu. Þeir komu því ekki heim fyrr en sumarið 1358 og tóku þá við hirðstjórn. Árni og Andrés höfðu Sunnlendinga- og Austfirðingafjórðung saman.

Árið 1360 gerðist það að maður að nafni Markús barkaður fór að manni sem Ormur hét og bjó á Krossi í Austur-Landeyjum og veitti honum mikla áverka. Var kona Markúsar og tveir synir með í för. Þessi atburður kallast Krossreið hin fyrri. Voru þau öll dæmd til dauða og lét Árni hirðstjóri höggva þau í Lambey sama ár. Árni lenti líka í deilum við Jón skráveifu og börðust menn þeirra á Alþingi þetta sumar. Þegar Smiður Andrésson tók við hirðstjórn fór í fyrstu vel á með þeim Árna en það breyttist fljótt og hefur þess verið getið til að Jón skráveifa hafi þar átt hlut að máli. Í júnímánuði 1361 tók Smiður Árna höndum og lét aflífa hann í Lambey fyrir aftöku Markúsar og fjölskyldu hans.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Ívar Vigfússon hólmur
Hirðstjóri
með Andrési Gíslasyni, Jóni Guttormssyni og Þorsteini Eyjólfssyni
(13571360)
Eftirmaður:
Smiður Andrésson