Stjörnufræði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Stjarnvísindi)
Paranal-stjörnuathugunarstöðin sendir leysileiðarstjörnu að miðju Vetrarbrautarinnar.
Ekki rugla saman við stjörnuspeki sem er almennt talin til hjáfræði.

Stjörnufræði (stundum kölluð stjarnvísindi) er náttúruvísindagrein sem fæst við rannsóknir á heiminum utan lofthjúps jarðar. Fólk sem leggur stund á greinina kallast stjörnufræðingar. Stjörnufræði rannsakar uppruna og þróun himintungla og annarra geimfyrirbæra sem hægt er að fylgjast með fyrir utan lofthjúp jarðar, með aðferðum stærðfræði, efnafræði og eðlisfræði. Stjörnufræði rannsakar meðal annars reikistjörnur, fylgihnetti, fastastjörnur, gasþokur, stjörnuþokur, reikisteina, loftsteina og halastjörnur. Stjörnufræðin skoðar líka geimfyrirbæri eins og sprengistjörnur, gammablossa, dulstirni, blasa, tifstjörnur og grunngeislun. Heimsfræði er undirgrein stjörnufræðinnar sem fæst við rannsóknir á alheiminum, sögu hans og eðli. Aðrar vísindagreinar sem eru nátengdar stjörnufræði eru stjarneðlisfræði og stjörnulíffræði.

Stjörnufræði er ein af elstu skipulegu fræðigreinum heims. Allt frá elstu siðmenningarsamfélögum jarðar skrifaði fólk niður athuganir sínar á næturhimninum. Forn-Egyptar, Babýloníumenn, Forn-Grikkir, Indverjar, Kínverjar og Majar, auk margra annarra þjóða, fengust við skipulega stjörnuskoðun og mælingar á stöðu stjarnanna. Stjörnufræði var notuð til að þróa tímatal og stjarnsiglingafræði.

Hægt er að skipta stjörnufræði gróflega í stjörnuathugun og kennilega stjörnufræði. Stjörnuathugun fæst við að safna gögnum um geimfyrirbæri með vettvangsathugun. Þessi gögn eru síðan greind úr frá grunnlögmálum eðlisfræðinnar. Kennileg stjörnufræði fæst við þróun greiningarlíkana til að skýra geimfyrirbæri sem koma fram í gögnum. Skýringarnar eru svo staðfestar með frekari athugunum.

Ólíkt mörgum öðrum vísindagreinum leikur áhugamennska hlutverk í stjörnufræði nútímans, aðallega við að uppgvöta og fylgjast með tímabundnum geimfyrirbærum. Áhugafólk um stjörnufræði hefur oft uppgötvað mikilvæg geimfyrirbæri, eins og halastjörnur.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]