Xue Long

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd tekin af þilfari Xue Long af mönnum á rekís

Xue Long (kínverska: 雪龙, „Snjódreki“) er ísbrjótur og rannsóknarskip í eigu Kínverska alþýðulýðveldisins með heimahöfn í Sjanghæ. Skipið var smíðað árið 1993 í Kershon í Úkraínu. Það er 167 metra langt og 22,6 metra breitt og er knúið einni átta strokka 17.700 hestafla díselvél. Skipið er með 34 manna áhöfn og getur tekið 128 farþega. Það er búið þyrlupalli og þyrlu og er með sjálfvirkan kafbát.

Skipinu er aðallega ætlað að styðja við rannsóknir Kínverja og tilkall til landsvæðis á Suðurskautslandinu. Það hefur farið í fimm leiðangra um Norður-Íshafið gegnum Beringssund árin 1999, 2003, 2008, 2010 og 2012. Í ferðinni 2010 setti skipið met í nyrstu siglingu kínversks skips þegar það skráði stöðuna 88,22°N 177,20°V. Þegar skipið sigldi til baka frá Íslandi sumarið 2012 stóð til að sigla því á Norðurpólinn en því tókst ekki að sigla gegnum ísinn og fór því austur fyrir, líklega án þess að ná fyrra meti.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]