Wikipedia:Grein mánaðarins/2015

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024

Janúar
Eldri gerð farsíma af framleidd af AEG á tíunda áratugnum.

Farsími er lítill þráðlaus handsími sem notast við farsímakerfi sem er ein tegund þráðlauss og langdrægs símkerfis. Helsti tilgangur farsíma er að hringja og senda smáskilaboð (SMS). Auk þessarar grunnvirkni gera nútímafarsímar manni kleift að gera margt fleira, til dæmis vafra á netinu, taka myndir, taka upp myndbönd, hlusta á tónlist, horfa á sjónvarpsefni og kvikmyndir, spila tölvuleiki og greiða fyrir vörur. Farsímar sem bjóða upp á slíka möguleika eru oft kallaðir snjallsímar. Slíkir símar eru oft með snertiskjá og/eða lyklaborð, hraðari örgjörva og meira geymluspláss fyrir margmiðlunarefni og öpp.


skoða - spjall - saga


Febrúar


Björgólfur Thor.

Björgólfur Thor Björgólfsson (f. 19. mars 1967) er íslenskur kaupsýslumaður. Hann var fyrsti Íslendingurinn sem komst á lista Forbes Magazine yfir 500 ríkustu einstaklinga heims. Í mars 2008 voru eignir hans metnar á 3,5 milljarða dollara, eða um 227 milljarða króna. Björgólfur Thor hefur mikið verið gagnrýndur í kjölfar bankahrunsins á Íslandi í október 2008, meðal annars fyrir að vera aðaleigandi Landsbankans í gegnum fjárfestingafélag sitt Samson ehf sem stóð fyrir hinum umdeildu Icesavereikningum. Landsbankinn var yfirtekinn af ríkinu í kjölfar bankahrunsins. Árið 2009 var Björgólfur metinn á um 1 milljarð dollara og var þá enn einn ríkasti maður Íslands.

Fyrri mánuðir: FarsímiHagfræðiPortúgal


skoða - spjall - saga


Mars


Luis Buñuel.

Luis Buñuel (22. febrúar 190029. júlí 1983) var frægur spænskur kvikmyndagerðarmaður, og af mörgum talinn einhver mikilvægasti leikstjóri kvikmyndasögunnar. Hann starfaði aðallega í Frakklandi og Mexíkó en einnig í heimalandi sínu og Bandaríkjunum. Buñuel giftist franskri konu, Jeanne Rucar í París árið 1934, þau voru gift fram á dauðadag Buñuels 1983, tæplega hálfri öld síðar. Þau eignuðust tvo syni Rafael og Juan Luis Buñuel.


skoða - spjall - saga


Apríl


Thor Jensen and Margrét Þorbjörg Kristjánsdóttir.

Thor Philip Axel Jensen (f. 3. desember 1863 í Danmörku, d. 12. september 1947) var danskur athafnamaður sem fluttist ungur til Íslands og varð þjóðþekktur fyrir umsvif sín á fyrri hluta 20. aldar. Útgerðarfélag hans Kveldúlfur hf. var það stærsta á Íslandi á millistríðsárunum. Synir hans urðu þjóðþekktir sömuleiðis, Ólafur Thors var forsætisráðherra Íslands og Thor Thors var fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Eiginkona Björgólfs Guðmundssonar, Þóra Hallgrímsson, er barnabarn Thors Jensens, rétt eins og Thor Vilhjálmsson rithöfundur. Thor er því langafi Guðmundar Andra Thorssonar, ritstjóra og rithöfundar og íslenska athafnamannsins Björgólfs Thors Björgólfssonar.


skoða - spjall - saga


Maí
Fínir japanskir „hashi“ matarprjónar að ofan auk einnota „waribashi“ prjóna fyrir neðan. Á waribashi prjónunm stendur „御割箸“ sem þýðir „owaribashi“ sem er afar kurteis útgáfa af orðinu „割箸“ sem aldrei er notuð í daglegu tali.

Matarprjónar eru pör af litlum aflöngum prjónum sem eru hefðbundin mataráhöld í Kína, Japan, Kóreu og Víetnam („Matarprjónalöndunum fjórum“). Þeir eru alla jafnan úr bambus þar sem það er bragðlaust, ódýrt og algengt efni sem auðvelt er að kljúfa auk þess sem það er hitaþolið, en einnig er algengt að þeir séu úr viði, málmi, beini, hornum dýra, agati, jaða, postulíni, kóral og á vorum dögum úr plasti.

Aðalgerðir matarprjóna eru þrjár: Kínverskir prjónar, sem eru langir viðarprjónar með ávala enda; japanskir, sem eru stuttir viðarprjónar, einnig með ávala enda og kóreskir, sem eru stuttir málmprjónar með þverskorna enda, þó viðarútgáfur séu einnig notaðar.



skoða - spjall - saga


Júní
Fáni Skotlands

Sjálfstæði Skotlands er ósk nokkurra stjórnmálaflokka, samtaka og einstaklinga eftir því að Skotland verði sjálfstætt land að nýju. Staðan í dag er sú að Skotland er þjóð innan hins sameinaða konungsríkis Bretlands, ásamt Englandi, Wales og Norður-Írlandi, sem nýtur ákveðinna rétta samkvæmt stjórndreifingarkerfi. Skotland hlaut núverandi stöðu sína við sambandslögin 1707.

Skotland hefur sjálfsstjórnarrétt á ákveðnum löggjafarsviðum, til dæmis menntun, heilbrigði og skattamálum. Skoska þingið var stofnað á ný árið 1999 þegar fyrstu kosningarnar voru haldnar. Þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands var haldin árið 2014, en þá kusu 55,3 % Skota að vera áfram meðlimir Bretlands, á móti 44,7 % þeirra sem græddu atkvæði fyrir sjálfstæði. 84,5 % kjósenda tóku þátt í atkvæðagreiðslunni.



skoða - spjall - saga


Júlí
SA-liðar hópast saman á Marienplatz-torginu í München við miklar óeirðir, þann 9. nóvember 1923, á meðan bjórkjallarauppreisninni stóð.

Bjórkjallarauppreisnin var misheppnuð valdaránstilraun Adolf Hitlers, foringja Nasistaflokksins, og Erich Ludendorffs hershöfðingja, í München í Bæjaralandi dagana 8. til 9. nóvember árið 1923, á tímum Weimar-lýðveldisins í Þýskalandi. Valdaránstilraunin átti sér stað í kjölfar mikilla efnahagslegra og pólitískra þrenginga í Þýskalandi sem fylgdu ósigrinum í fyrri heimsstyrjöldinni, en óðaverðbólga hafði geisað á árunum 1921-1923 og Frakkar höfðu hernumið Ruhrhérað þegar að stjórnvöld Weimar-lýðveldisins gátu ekki borgað þær stríðsskaðabætur sem Versalasamningurinn kvað á um. Hægri öfgamenn og þjóðernissinnar í Bæjaralandi, undir leiðsögn Hitlers og Ludendorffs, gripu tækifærið til að ná völdum í München, höfuðborg Bæjaralands, í þeim tilgangi að hleypa af stað þjóðbyltingu á landsvísu sem myndi binda enda á lýðræði og stjórn sósíaldemókrata í Þýskalandi, og leiða til stofnunar valdboðsríkis að hætti þjóðernissinna. Uppreisnin leystist upp í skotbardaga á Odeonplatz-torgi, og Hitler og Nasistaflokkurinn urðu fyrir miklum skakkaföllum.


skoða - spjall - saga


Ágúst
Höfuðstöðvar ESO í Garching

Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli er stærsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. ESO var stofnað árið 1962 og eru aðildarríkin orðin 15. ESO tryggir stjarnvísindamönnum rannsóknaaðstöðu á heimsmælikvarða á suðurhveli jarðar. Árlega leggja aðildarríki ESO um 163 milljónir evra til starfseminnar. Þar starfa um 700 manns.

ESO er þekkt fyrir að smíða og reka nokkra stærstu og þróuðustu stjörnusjónauka heims. Má þar nefna New Technology Telescope (NTT), þar sem virk sjóntæki voru prófuð í fyrsta sinn, og Very Large Telescope (VLT) sem samanstendur af fjórum 8,2 metra breiðum sjónaukum og fjórum 1,8 metra aukasjónaukum. ESO er þátttakandi í þróun og smíði Atacama Large Millimeter Array (ALMA) og European Extremely Large Telescope (E-ELT).


skoða - spjall - saga


September
Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kvenna kjörin forseti í lýðræðislegum kosningum árið 1980. Hér er hún á mynd sem var tekin 1985.

Kvenréttindi á Íslandi hafa verið breytileg í gegnum sögu landsins. Í dag er staða kvenna á Íslandi góð, þeim eru tryggð lagaleg réttindi til jafns við karla þó einhverju muni í jafnrétti milli kynjanna í launum fyrir sömu vinnu og eitthvað sé um kynbundið ofbeldi.

Íslendingar hafa verið framarlega í kvenfrelsisbaráttu í alþjóðlegu tilliti. Til marks um það var Ísland eitt af fyrstu löndunum til þess að veita konum kosningarétt til Alþingis árið 1915, kosning Vigdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands árið 1980 var fyrsta skiptið sem kona var kosinn þjóðhöfðingi og ágætur árangur náðist hjá framboði Kvennalistans til Alþingiskosninganna 1983.



skoða - spjall - saga


Október
Teikning af Hannibal tekin úr bók þýska fræðimannsins Theodor Mommsen.

Hannibal (247-183 eða 182 f.Kr.) var hershöfðingi frá Karþagó. Hann stjórnaði her Karþagómanna í öðru púnverska stríðinu og vann marga sigra á Rómverjum. Hannibal er af mörgum talinn einn mesti herforingi sögunnar. Hann lifði á tímum spennu í Miðjarðarhafinu þar sem Rómaveldi var rísandi norðan megin við Miðjarðarhafið á meðan Karþagó var rísandi sunnan megin við það. Bæði veldin börðust fyrir yfirráðum Miðjarðarhafsins. Í öðru púnverska stríðinu tók Hannibal her frá Íberíuskaganum yfir Pýreneafjöllin og Alpana, til Norður-Ítalíu.

Eftir frægustu orrustur hans, við Trebiu, Trasimene og Cannae, tók hann næst stærstu borg Ítalíu, Capua, en gat ekki ráðist á sjálfa Rómaborg því her hans var ekki nógu sterkur. Hann hafði her sinn í Ítalíu í áratug og Karþagómenn pirruðust yfir ákvörðun hans að ráðast ekki á Rómaborg. Rómversk innrás inn í Norður-Afríku neyddi Hannibal til að taka her sinn aftur til Karþagó þar sem hann var sigraður í orrustunni við Zama. Karþagómenn neyddust til að senda hann í útlegð. Eftir langa útlegð þar sem hann var ráðgjafi fáeinna manna, þar á meðal Antiokkosar þriðja, voru Rómverjarnir komnir á hæla hans og hann framdi sjálfsmorð frekar en að gefast upp fyrir Rómverjunum.


skoða - spjall - saga


Nóvember
Guðbrandur Þorláksson á málverki frá 17. öld.

Guðbrandur Þorláksson (1541(?) – 20. júlí 1627) var biskup á Hólum frá 8. apríl 1571 til dauðadags. Guðbrandur var sonur séra Þorláks Hallgrímssonar, prests á Mel í Miðfirði og víðar, og Helgu Jónsdóttur, sem var dóttir Jóns Sigmundssonar lögmanns og Bjargar Þorvaldsdóttur konu hans. Guðbrandur lærði í Hólaskóla á árunum 1553 til 1559 og fór svo í Kaupmannahafnarháskóla árið 1560 sem þá var óvenjulegt, þar sem flestir Íslendingar fóru í háskóla í Þýskalandi. Þar lagði hann stund á guðfræði og rökfræði. Eftir heimkomuna varð hann rektor í Skálholtsskóla 1564–1567 og síðan prestur á Breiðabólstað í Vesturhópi uns Friðrik 2. Danakonungur skipaði hann biskup á Hólum eftir meðmæli frá Sjálandsbiskupi, sem verið hafði kennari hans í háskólanum, þrátt fyrir að prestastefna á Íslandi hefði kjörið annan mann.


skoða - spjall - saga


Desember
Landsbókasafn Íslands að vetri til.

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn hefur það tvíþætta hlutverk að vera þjóðbókasafn Íslands sem safnar öllu prentuðu íslensku efni og auk þess háskólabókasafn en safnið á stærsta safn fræðirita á landinu. Safnið er bókasafn Háskóla Íslands og því er þjónusta þess við skólann skilgreind með sérstökum samningi. Þess utan er safnið öllum opið. Forstöðumaður safnsins hefur titilinn landsbókavörður.

Safnið var opnað 1. desember 1994 eftir sameiningu Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðunni sem stendur á Melunum í Vesturbæ Reykjavíkur nálægt Hringbraut.


skoða - spjall - saga


Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024