Vesturbæjarvíðir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vesturbæjarvíðir er víðitegund sem gróðursett var milli 1910 og 1940 tíma í görðum í vesturbæ Reykjavíkur. Þessi tegund er talin blendingur af körfuvíði, Salix viminalis L., selju S. capraea L. og gráselju S. cinerea L. Vesturbæjarvíðir barst upphaflega til landins sem efni í tágakörfum. Jón Eyvindsson kaupmaður flutti inn grænar stofuplöntur frá Þýskalandi um 1910. Á þeim tíma var algengt að flytja vörur í fléttuðum tágakörfum og að í kringum fangelsi erlendis væri plantað mikið af víði sem svo fangar fléttuðu slíkar körfur. Ísleifur sonur Jóns tók eftir grænum sprotum og rótarmyndun á teinungum sem höfðu blotnað. Hann gróðursetti þá fyrst í pott og síðan út í garð á Stýrimannastíg 9. Það reyndist auðvelt að fjölga þessum víði og var hann gróðursettur í nærliggjandi húsum.

Á árum seinni heimstyrjaldarinnar var mikið ræktað annað afbrigði af körfuvíði sem kallaður var þingvíðir því hann var upphaflega í Alþingisgarðinum og var hann miklu harðgerari og glæsilegri en Vesturbæjarvíðirinn og því farið að rækta hann í stórum stíl eftir 1940 og þá datt alveg niður ræktun vesturbæjarvíðis. Vesturbæjarvíðir er því mjög sjaldan í görðum sem gerðir voru eftir seinni heimsstyrjöld. Þingvíðirinn dó í vorhretinu 1963 en vesturbæjarvíðirinn lifði það af. Vesturbæjarvíðir er ættaður frá suðlægari slóðum og fór seinna á stað um vorið og lifði því af hretið.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  • Saga Veturbæjarvíðisins Morgunblaðið 2. september 2001