Vébjörn Végeirsson Sygnakappi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vébjörn Végeirsson Sygnakappi var landnámsmaður við Ísafjarðardjúp. Í Landnámabók segir að hann hafi verið vígamaður mikill og sé saga mikil frá honum en hafi sú saga verið skráð er hún ekki varðveitt.

Vébjörn var úr Sogni í Noregi. Faðir hans hét Geir og „var kallaður Végeir, því að hann var blótmaður mikill“. Hann átti mörg börn og var Vébjörn elsti sonurinn en hinir hétu Vésteinn, Véþormur, Vémundur, Végestur, Véleifur og Véþorn, en Védís dóttir. Eftir andlát Végeirs gerðist það að íslenskur maður, Þorsteinn ógæfa, vó hirðmann Hákonar Grjótgarðssonar jarls og leitaði á náðir Vébjarnar. Hann treysti sér ekki til að halda manninn fyrir jarli og varð úr að systkinin fóru öll til Íslands. Hefur það líklega verið fremur seint á landnámsöld.

Grímólfsvötn er litlu vötnin í Mjóafirði vestanverðum fyrir neðan Grímshól

Þau lentu í löngum hrakningum á leiðinni, brutu skip sitt á Hornströndum í illviðri og komust naumlega í land. Atli, þræll Geirmundar heljarskinns, tók við þeim og bauð þeim vetursetu á búi því sem hann annaðist fyrir Geirmund í Fljóti. Geirmundur var fyrst ósáttur við að Atli hafði gert þetta í óleyfi en þegar þrællinn kvaðst hafa gert þetta til að sýna hve mikið göfugmenni Geirmundur væri gaf hann Atla frelsi og bú það, er hann hafði séð um í Fljóti og hét bærinn síðan Atlastaðir. Um vorið nam Vébjörn land „milli Skötufjarðar og Hestfjarðar, svo vítt sem hann gengi um á dag og því meir, sem hann kallaði Folafót“.


Vébjörn gifti Védísi systur sína Grímólfi í Unaðsdal, syni Ólafs jafnakolls, en samkvæmt Landnámu urðu þeir ósáttir og Vébjörn drap mág sinn hjá Grímólfsvötnum. Fyrir það var hann veginn á fjórðungsþingi á Þórsnesi (Hauksbók segir Þingeyrarþingi) og þrír menn aðrir.