Teiknimynd

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Teiknimyndir)
Teiknimynd af hesti.

Teiknimynd er kvikmynd sem gerð er með því að röð teiknaðra mynda eru sýndar með stuttu millibili sem veldur því að þær virðast vera hreyfimynd. Hefðbundnar teiknimyndir voru unnar á glærar filmur og ljósmyndaðar á kvikmyndafilmu. Í dag eru teiknimyndir yfirleitt tölvuteiknimyndir gerðar með tölvugrafík. Teiknimyndagerð er sérstök listgrein innan kvikmyndagerðar, ásamt öðrum aðferðum til hreyfimyndagerðar, eins og stopmotion-hreyfimyndum með leirbrúðum og skuggaleikhúsi, sem dæmi.

Yfirleitt eru sýndir 10 til 12 rammar á sekúndu í teiknimynd, en í venjulegri leikinni kvikmynd er venjan 24 rammar á sekúndu. Yfirleitt nægir að notast við 12 ramma (sem nefnast „á tveimur“) til að láta mynd virðast á samfelldri hreyfingu, en ef þarf að sýna snöggar hreyfingar er stundum notast við 24 ramma („á einum“). Fyrir hægari hreyfingar og ódýrari framleiðslu er stundum notast við átta ramma á sekúndu („á þremur“).[1]

Ýmsir hafa gert tilraunir með að blanda saman teiknimyndum og leiknum myndum frá fyrstu tíð. Með tölvugrafík og raunsæjum þrívíddarteikningum er hægt að setja saman teiknaða mynd og tekna mynd þannig að ekki sjáist munur á til að skapa tæknibrellur.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Snúningsskífa úr Phénakistiscope frá 1833.

Fyrir tíma kvikmyndanna höfðu menn notast við ýmis brögð til að láta hluti og myndir virðast hreyfast af sjálfsdáðum, með brúðuleikhúsi, skuggaleikhúsi, ýmsum útgáfum af töfralukt, og öðrum aðferðum.[2]

Eiginlegar teiknimyndir, þar sem röð samtengdra mynda er sýnd hratt þannig að myndin virðist hreyfast, komu til sögunnar með snúningsskífum eins og Phénakisticope (1833), Zoetrope (1866), flettibókum (1868) og Praxinoscope (1877). Franski uppfinningamaðurinn Charles-Émile Reynaud þróaði Praxinoscope-vélina þannig að hægt var að varpa lengri myndaröðum á tjald. Árið 1888 fékk hann einkaleyfi á vél sem hann notaði fyrir sýningar sem hann nefndi Théâtre Optique og sýndi allt að 700 handmálaðar myndir í röð. Hreyfimyndin var gerð á glærur og bakgrunnurinn aðskilinn.

Þöglu myndirnar[breyta | breyta frumkóða]

Þegar eiginleg kvikmyndagerð hófst undir lok 19. aldar voru teiknaðar myndir í fyrstu ekki álitnar henta nýja miðlinum sem átti að sýna raunsæjar lifandi myndir. J. Stuart Blackton hóf að nota stop-motion tækni til að blanda teiknimyndum saman við leiknar kvikmyndir. Kvikmyndin The Haunted Hotel frá 1907 varð vinsæl og lengi talin fyrsta teiknimyndin.[3] Franski skopmyndateiknarinn Émile Cohl gerði svo fyrstu hreinræktuðu teiknimyndina, Fantasmagorie, árið 1908. Cohl teiknaði myndirnar beint á kvikmyndafilmuna. Bandaríski myndasöguhöfundurinn Winsor McCay gerði líka tilraunir með teiknimyndagerð þar sem hann teiknaði hverja mynd fyrir sig á blað í Nemó litli (1911) og Gertie the Dinosaur (1914).[4]

Á 2. áratug 20. aldar varð teiknimyndagerð að iðnaði í Bandaríkjunum.[5] Framleiðandinn John Randolph Bray og kvikarinn Earl Hurd þróuðu persónuna Bobby Bumps fyrir röð stuttra gamanmynda. Þeir fengu einkaleyfi á því sem varð hin hefðbundna framleiðsluaðferð teiknimynda, að teikna hreyfimyndirnar á glærur.[6][7] Fyrsta teiknimyndafígúran sem náði vinsældum í Bandaríkjunum var Kötturinn Felix eftir Pat Sullivan og Otto Messmer árið 1919.[8] Árið 1917 fékk Max Fleischer einkaleyfi[9] á aðferð við gerð teiknimynda sem hann nefndi Rotoscope, þar sem leikinni kvikmynd er varpað á blað og teiknarinn teiknar eftir myndunum til að skapa raunsærri hreyfingar.

Árið 1917 gerði ítalsk-argentínski leikstjórinn Quirino Cristiani fyrstu teiknimyndina í fullri lengd, El Apóstol, sem náði miklum vinsældum, en er nú talin glötuð. Hann fylgdi henni eftir árið 1918 með Sin dejar rastros sem var gerð upptæk af stjórnvöldum daginn eftir frumsýninguna.[10] Elsta teiknimyndin í fullri lengd sem hefur varðveist er þýska myndin Die Abenteuer des Prinzen Achmed eftir Lotte Reiniger frá 1927.[11]

Gullöld bandarískra teiknimynda[breyta | breyta frumkóða]

Mína og Mikki Mús í myndinni Plane Crazy frá 1928.

Stuttmynd Walt Disney frá 1928, Steamboat Willie, markar upphaf gullaldar bandarískra teiknimynda með samhæfðri hljóðrás, sem stóð fram á 7. áratug 20. aldar. Persónurnar Mikki Mús og Mína Mús birtust fyrst í þeirri teiknimynd. Disney stofnaði kvikmyndaverið Walt Disney Animation Studios árið 1923, ásamt bróður sínum, Roy O. Disney. Disney hafði mjög mikil áhrif á teiknimyndagerð um allan heim næstu áratugi, þótt framleiðslan hafi ekki verið stór hluti af heimsframleiðslunni.[12]

Frá því um 1930 til um 1970 sendu bandarísku teiknimyndaverin frá sér mikið magn stuttmynda með teiknimyndafígúrum með hljóði og í lit. Í fyrstu voru þessar myndir sýndar á undan leiknum kvikmyndum í kvikmyndahúsum. Þetta voru meðal annars myndir frá Disney Animation Studios (Guffi 1932 og Andrés Önd 1934), Fleischer Studios/Famous Studios (Betty Boop 1930, Stjáni blái 1933, og Draugurinn Kasper 1945), Warner Bros. Cartoon Studios/Looney Tunes (Porky Pig 1935, Daffy Duck 1937, Bugs Bunny 1938–1940 og Tweety 1942), og Metro-Goldwyn-Mayer (Tommi og Jenni 1940). Árið 1937 kom svo út fyrsta teiknimyndin í fullri lengd og í lit, Mjallhvít og dvergarnir sjö. Disney notaðist við Rotoscope-tækni Fleischers við gerð myndarinnar.[13] Fleischer Studios fylgdi því eftir með Ferðum Gúllívers 1939.

Eftir að síðari heimsstyrjöld braust út lokaðist fyrir erlenda markaði svo næstu myndum gekk illa í kvikmyndahúsum. Að lokum voru það aðeins Disney Animation Studios sem fengust við að gera teiknimyndir í fullri lengd. Þaðan komu til dæmis myndirnar Fantasía og Gosi árið 1940. Teiknimyndir voru notaðar í áróður í stríðinu, bæði af Bandaríkjunum (til dæmis Der Fuehrer's Face frá Disney og Private Snafu frá Warner Bros.), Japan (Momotarō: Umi no Shimpei) og Kína (Tiě shàn gōngzhǔ).

Sjónvarpið[breyta | breyta frumkóða]

Steinaldarmennirnir (The Flintstones) voru fyrsta teiknimyndaþáttaröðin sem var sýnd á besta tíma og ætluð öllum aldurshópum.

Með tilkomu sjónvarpsins fengu stuttar teiknimyndir nýjan miðil. Áður höfðu teiknimyndir verið framleiddar fyrir ótilgreindan áhorfendahóp í kvikmyndahúsum og innihéldu oft ofbeldi og kynferðislegar tilvísanir. Í sjónvarpi voru teiknimyndir fyrst og fremst ætlaðar börnum, eins og teiknimyndasyrpur sem voru sýndar á laugardagsmorgnum. Undir lok 6. áratugarins komu fram nýjar þáttaraðir sem voru þróaðar fyrir sjónvarpið, eins og teiknimyndir Hanna-Barbera Productions (The Flintstones 1960 og Scooby-Doo 1969).

Árið 1960 kom ljósritun til sögunnar og dró töluvert úr framleiðslukostnaði hefðbundinna teiknimynda. Mörg ný framleiðslufyrirtæki hófu teiknimyndagerð fyrir sjónvarp í Bandaríkjunum. Total Television gerði teiknimyndaþætti í tengslum við sölu morgunkorns frá General Mills. Myndasögur sem höfðu notið vinsælda í blöðum, eins og Dick Tracy og Smáfólkið, voru gerð að teiknimyndaþáttum eða sérþáttum fyrir hátíðardagskrár sjónvarpsstöðvanna. Filmation gerði sjónvarpsþætti með ofurhetjum DC Comics 1962 og Grantray-Lawrence Animation gerði það sama með persónur frá Marvel Comics 1966. Vinsælar hljómsveitir urðu að teiknimyndapersónum, eins og Bítlarnir (The Beatles 1965-1966) og The Jackson 5 (Jackson 5ive 1971-1972).

Utan Bandaríkjanna þróaðist hreyfimyndagerð fyrir börn með brúðumyndum og klippimyndum sem voru framleiddar innanlands og voru ódýrari í framleiðslu. Talsettar bandarískar teiknimyndir heyrðu til undantekninga. Dæmi um evrópskar teiknimyndir fyrir sjónvarp voru þættirnir Ævintýri Tinna (Les Aventures de Tintin, d'après Hergé, Belvision 1957), Strumparnir (Les Schtroumpfs, TVA Dupuis 1961), Bolek i Lolek (Studio Filmów Rysunkowych 1962), Litla moldvarpan (Krtek, Zdeněk Miler 1962) og Bangsi, heimsins sterkasti björn (SVT 1966). Í Sovétríkjunum var teiknimyndaverið Sojúsmúltfilm stofnað árið 1936 innan ríkisrekna kvikmyndafyrirtækisins Goskino. Sojúsmúltfilm framleiddi margar þáttaraðir sem í dag eru álitnar klassískar rússneskar teiknimyndir, eins og Весёлая карусель og Ну, погоди! (1969). Teiknimyndagerð stóð með nokkrum blóma í Tékklandi, Póllandi (Studio Filmów Rysunkowych) og Ungverjalandi (Pannónia Filmstúdió) á 7. og 8. áratugnum, en framleiðslan var margfalt minni en í Bandaríkjunum á sama tíma.

Fyrsta anime-þáttaröðin, Otogi Manga Calendar, hóf göngu sína árið 1961 og næstu ár var uppgangur í teiknimyndagerð í Japan. Evrópsk og japönsk fyrirtæki áttu í samstarfi um framleiðslu á þáttum sem byggðust á vinsælum evrópskum barnabókum, eins og með Barbapabba (1973-1977), Heiðu (1974), Maju býflugu (1975) og Einu sinni var... (1978).

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Johnny Chew (17.3.2020). „What are Ones, Twos, and Threes in Animation?“. Lifewire.
  2. „How Modern Animation Originated from Live and Stage Performances - studio9“. studio9.ie. Sótt 18. febrúar 2024.
  3. Buccaneer: James Stuart Blackton and the Birth of American Movies, p. 87. Rowman & Littlefield. 2016. ISBN 978-1-4422-4258-6.
  4. „Winsor McCay: American Animator“. Britannica (enska). 22. júlí 2023.
  5. Solomon 1989, bls. 28.
  6. Solomon 1989, bls. 24.
  7. Solomon 1989, bls. 34.
  8. Cart, Michael (31. mars 1991). „The Cat With the Killer Personality“. The New York Times (bandarísk enska). Afrit af uppruna á 11. apríl 2014. Sótt 30. desember 2022.
  9. „Method of producing moving-picture cartoons“.
  10. „animafest.hr“. www.animafest.hr. Sótt 18. febrúar 2024.
  11. Lewis, Maria (15. desember 2020). „The Lasting Legacy of Lotte Reiniger“. Australian Centre for the Moving Image. Sótt 8. ágúst 2023.
  12. Furniss, Maureen (2007). „Classical-era Disney Studio“. Art in Motion, Revised Edition (2014 print-on-demand ed., based on 2007 revised. útgáfa). New Barnet: John Libbey Publishing. bls. 107–132. doi:10.2307/j.ctt2005zgm.9. ISBN 9780861966639. JSTOR j.ctt2005zgm.9. OCLC 1224213919.
  13. Menache, Alberto (2000). Understanding Motion Capture for Computer Animation and Video Games (enska). Morgan Kaufmann. bls. 2. ISBN 978-0-12-490630-3. Sótt 14. desember 2022.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Solomon, Charles (1989). Enchanted Drawings: The History of Animation. New York: Random House, Inc. ISBN 978-0-394-54684-1.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.