Talfólgin athöfn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Talfólgin athöfn er málgjörð sem jafngildir því að fullyrða, spyrja, skipa, lofa og svo framvegis. Hún er athöfn sem er framkvæmd með því að segja eitthvað, til aðgreiningar frá talgjörð, þeirri athöfn segja eitthvað, segðinni.

Talfólgið inntak[breyta | breyta frumkóða]

Talfólgið inntak er í grófum dráttum íbyggna ástandið sem liggur að baki talfólgnu athöfninni sem mælandinn framkvæmir, þ.m.t. efnislegt inntak yrðingarinnar og forsendurnar sem gengið er út frá.

Stundum er ekki augljóst hvert talfólgna inntakið er: Ef einhver segir „Það er svo sannarlega kalt hérna“ veltur afleiðing fullyrðingarinnar á samhenginu. Það gæti verið að viðkomandi sé einungis að lýsa herberginu og þá er talfólgna inntakið lýsing á hitastigi herbergisins. En ef mögulegt er að breyta aðstæðunum, til dæmis með því að hækka hitann eða loka glugganum, þá getur verið að viðkomandi ætli sér að fá einhvern annan til að gera eitthvað í málinu og þá væri talfólgna inntakið athöfn hinnar manneskjunnar.

Þetta er andstætt talvaldandi áhrifum, sem eru fólgin í þeim áhrifum sem yrðing hefur á aðra í heiminum.

Vísbendingar um talfólgið inntak[breyta | breyta frumkóða]

Vísbendingar um talfólgið inntak gefa til kynna hvernig taka beri staðhæfingu, hvert talfólgna inntakið í yrðingunni á að vera, eða hvaða talfólgnu athöfn mælandinn er að framkvæma. Meðal dæma á íslensku eru orðaröð, áhersla, ítónun, háttur sagnarinnar, framkvæmdaryrðingar og samhengi. Á íslensku er vísbendingar um talfólgið inntak ekki alltaf til staðar eða geta verið misvísandi eða óræðar. Stundum eru þær faldar í djúpgerð setningar.

Talfólgnar neitanir[breyta | breyta frumkóða]

Talfólgna neitun má greina að frá staðhæfingarlegri neitun með því að huga að greinarmuninum á „Ég lofa ekki að koma“ og „Ég lofa að koma ekki“. Fyrri fullyrðingin er talfólgin neitun - neitunin ‚ekki‘ neitar loforðinu. Síðari fullyrðingin er staðhæfingarleg neitun. Talfólgnar neitanir breyta venjulega talfólgnu athöfninni.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]