Svalbarði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Svalbard
Fáni Noregs Skjaldarmerki Svalbarða
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Kongesangen
Staðsetning Svalbarða
Höfuðborg Longyearbyen
Opinbert tungumál norska
Stjórnarfar Noregsstjórn

Konungur Haraldur 5.
Sýslumaður Lars Fause
Landsvæði í Noregi
 • Svalbarðasamningurinn 9. febrúar 1920 
 • Svalbarðalögin 17. júlí 1925 
Flatarmál
 • Samtals

61.022 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar

2.939
0,04/km²
Gjaldmiðill norsk króna (NOK)
Tímabelti UTC+1 (+2 á sumrin)
Þjóðarlén .no
Landsnúmer +47

Svalbarði (norska: Svalbard) er eyjaklasi í Norður-Íshafi, um það bil miðja vegu milli meginlands Evrópu og Norðurpólsins. Eyjarnar eru milli 74. og 81. breiddargráðu norður og 10. til 35. lengdargráðu austur. Spitsbergen er stærsta eyjan, en þar á eftir koma Norðausturlandið og Edge-eyja. Stærsta byggðin á eyjunum er Longyearbyen.[1]

Eyjarnar voru fyrst notaðar sem veiðistöð af hvalveiðimönnum sem sigldu langt norður í höf á 17. og 18. öld, en sem yfirgáfu þær síðar. Kolanám hófst þar í upphafi 20. aldar og nokkrar varanlegar byggðir voru stofnaðar. Svalbarðasamningurinn frá 1920 kveður á um yfirráð Noregs yfir eyjunum og með Svalbarðalögunum 1925 lýstu Norðmenn Svalbarða hluta af norska konungsríkinu. Svalbarði var gerður að fríverslunarsvæði og herlausu svæði. Norska fyrirtækið Store Norske Spitsbergen Kulkompani og rússneska fyrirtækið Arktikugol eru einu námafyrirtækin sem enn starfa á eyjunum, en rannsóknarstarfsemi og ferðaþjónusta hafa í seinni tíð orðið mikilvægari. Háskólamiðstöðin á Svalbarða (UNIS) og Fræbankinn á Svalbarða leika lykilhlutverk í efnahagslífi eyjanna. Fyrir utan Longyearbyen eru helstu byggðir á eyjunum rússneski námabærinn Barentsburg, rannsóknarstöðin Ny-Ålesund og námabærinn Sveagruva. Aðrar byggðir eru norðar en eina fólkið sem þar býr eru hópar vísindamanna sem dvelja þar tímabundið. Engir vegir liggja milli byggðanna. Snjósleðar, flugvélar og bátar eru helstu samgöngutækin. Svalbarðaflugvöllur í Longyearbyen er aðalsamgöngumiðstöð eyjanna.[2]

Um 60% af eyjunum eru þakin jöklum og þar eru mörg fjöll og firðir. Þar ríkir íshafsloftslag þótt hitastig sé mun hærra en annars staðar á sömu breiddargráðum. Flóra Svalbarða nýtir sér miðnætursólina til að bæta upp fyrir skammdegið á veturnar. Margar tegundir sjófugla verpa á Svalbarða og þar er að finna tófu, hreindýr og ísbirni, auk sjávarspendýra. Á Svalbarða eru sjö þjóðgarðar og 22 friðlönd sem ná yfir 2/3 hluta af landi eyjanna.[3]

Noregur fer með yfirráð á Svalbarða samkvæmt Svalbarðasamningnum frá 1920, en eyjarnar eru ekki stjórnsýslulegur hluti Noregs og falla ekki undir neitt norskt fylki. Þess í stað fer ríkisstjórn Noregs með stjórn eyjanna beint í gegnum skipaðan sýslumann. Svalbarði er utan við Schengen-svæðið, Evrópska efnahagssvæðið og Norræna vegabréfasambandið. Svalbarði og Jan Mayen eiga saman ISO 3166-1-landakóðann SJ þótt stjórn þeirra sé alveg aðskilin. Í Svalbarðasamningnum er kveðið á um að allir aðilar (nú yfir 40 talsins) skuli hafa rétt til að nýta auðlindir Svalbarða og að allar eyjarnar skuli vera herlaust svæði. Nú á dögum eru það eingöngu Rússar sem nýta sér þetta ákvæði og stunda kolanám á Svalbarða. Einnig hafa íslensk stjórnvöld vísað í þetta ákvæði varðandi fiskveiðar íslenskra skipa í grennd við Svalbarða. Svalbarði er nyrsta svæði í heimi þar sem er föst búseta.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Nafnið Svalbarði kemur fyrir í fyrsta kafla Landnámabókar þar sem segir að frá Langanesi á Íslandi sé fjögurra dægra sigling norður til Svalbarða. Í Konungsannál frá 14. öld er sagt frá „Svalbarðsfundi“ árið 1194.[4] Nafnið merkir „köld strönd“ og gæti hafa átt við eitthvað annað land, til dæmis Jan Mayen eða Grænland. Með Svalbarðalögunum 1925 var ákveðið að láta eyjaklasann heita þessu norræna nafni, fremur en Spitsbergen. Það var hluti af því að staðfesta yfirráð Norðmanna.[5]

Nafnið Spitsbergen kemur frá hollenska landkönnuðinum Willem Barents sem sá hvassa fjallstinda (spitse bergen) á vesturströnd aðaleyjunnar. Barents vissi ekki að um eyjaklasa væri að ræða og nafnið Spitsbergen hefur því verið notað bæði um eyjaklasann og aðaleyjuna.[6]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Landkönnun[breyta | breyta frumkóða]

Kort af Norðurslóðum eftir þriðja leiðangur Barents 1596 þar sem Svalbarði er nefndur Het nieuwe land („nýja landið“).

Elsta heimildin sem minnist á Svalbarða er Landnámabók frá 12. öld sem segir að frá Langanesi sé fjögurra dægra sigling til Svalbarða „í hafsbotn“.[7] Í Konungsannál frá 14. öld stendur við árið 1194 „Svalbarðsfundur“.[4] Nafnið merkir einfaldlega „köld strönd“ og gæti átt við eitthvað annað land en það sem kallað er Svalbarði í dag. Rússar hafa haldið því fram að Pómorar sem búa við strendur Hvítahafs hafi uppgötvað Svalbarða á 16. öld eða fyrr, en heimildir skortir fyrir þeirri staðhæfingu og engar minjar hafa fundist sem staðfesta veru norrænna manna eða Pómora á Svalbarða fyrir lok 16. aldar þótt það sé umdeilt.[8]

Fyrsti landkönnuðurinn sem sá Svalbarða svo vitað sé með vissu var Willem Barents sem kom auga á Svalbarða í síðasta leiðangri hans til Novaja Semlja í júní árið 1596. Hann gaf eyjunum, sem hann taldi vera eitt land, nafnið Spitsbergen („hvöss fjöll“ á hollensku). Eyjarnar voru merktar á kort sem fylgdi frásögn af leiðangrinum og urðu brátt hluti af almennum landakortum. Árið 1607 kom Henry Hudson til eyjanna og kannaði þær. Hann sagði frá því að þar væru miklar hvalavöður, sem dró að hvalveiðiskip.

Hvalveiðar[breyta | breyta frumkóða]

Hvalveiðiskip við strönd Svalbarða á málverki eftir Abraham Storck frá 1690.

Þegar árið 1604 hélt leiðangur í veiðiferð til Bjarnareyjar undir stjórn enska selfangarans Steven Bennet á vegum Moskvufélagsins. Þeir sáu þúsundir rostunga, en náðu aðeins að drepa nokkra vegna lítillar reynslu af slíkum veiðum. Veiðin gekk betur árið eftir og næstu ár kom hann þangað árlega þar til rostungsstofninum hafði verið útrýmt á eyjunni.

Jonas Poole sem var í ferðum á vegum félagsins sagði frá miklum hvalavöðum við Svalbarða og Moskvufélagið sendi brátt hvalveiðiskip þangað til að veiða norðhvali fyrir verðmætt lýsið. Félagið reyndi að hrekja hollensk og spænsk hvalveiðiskip þaðan og gera tilkall til einkaréttar á veiðinni, sem leiddi til átaka. Það flækti enn málin að Kristján 4. gerði tilkall til eyjanna fyrir hönd Danaveldis vegna yfirráða yfir Noregi og Grænlandi. Árið 1614 ákváðu hollensku og ensku skipin að skipta aðaleyjunni á milli sín. Sama ár var hvalveiðifélagið Noordsche Compagnie stofnað í Hollandi. Allar þjóðirnar notuðust í fyrstu við baskneska hvalveiðimenn, en þegar leið á dró úr því. Þegar Moskvufélagið lenti í fjárhagsörðugleikum nokkrum árum síðar náðu Hollendingar yfirhöndinni. Þeir stofnuðu hvalveiðibæinn Smeerenburg á Amsterdameyju árið 1619.

Eftir miðja 17. öld tók hvölum að fækka við strönd Svalbarða og hvalveiðiskipin færðu sig utar. Með stærri skipum var hægt að flensa hvalina við skipshlið og flytja spikið til meginlandsins til bræðslu. Á 18. öld minnkuðu hvalveiðar Hollendinga og Bretar tóku við, en eftir aldamótin 1800 var norðhvalur nær horfinn af miðunum við Svalbarða. Um 1830 var hvalveiðum hætt.

Pómorar[breyta | breyta frumkóða]

Teikning af Pómorakrossi á Svalbarða eftir Auguste Mayer úr leiðangri Paul Gaimard til Norðurslóða 1838.

Fræðimenn greinir á um það hvenær Pómorar frá ströndum Hvítahafs tóku fyrst að stunda skinnaveiðar á Svalbarða. Á 7. áratug 20. aldar framkvæmdi sovéski fornleifafræðingurinn Vadím F. Starkov fjölda rannsókna á veiðistöðvum Pómora og notaði aldursgreiningu á viðarleifum til að rökstyðja að þeir hefðu komið þar fyrir miðja 16. öld.[9] Þetta var notað til að styðja við tilkall Sovétríkjanna til auðlindanýtingar á Svalbarða. Niðurstaðan hefur verið gagnrýnd á þeim forsendum að aldur timbursins segi ekki til um aldur stöðvarinnar. Gagnrýnendur benda líka á að engar frásagnir um Pómora sé að finna í ritheimildum frá 17. öld, sem Starkov útskýrði með því að þá hefði veiði þeirra hnignað.[10]

Flestir viðurkenna þó að frá lokum 17. aldar, eftir að landvinnslu hvalfangara lauk, hafi Pómorar byrjað að fara reglulega í veiðiferðir til Svalbarða, þar sem þeir veiddu rostunga, seli, hreindýr, refi og ísbirni. Þeir reistu veiðikofa og einkennandi og áberandi viðarkrossa, og höfðust þar við yfir vetrartímann. Flestir urðu þeir undir lok 18. aldar þegar 100 til 150 Pómorar héldu sig á Svalbarða yfir veturinn. Veiðar Pómora gengu ekki jafnhart gegn dýrastofnum og hvalveiðarnar höfðu gert og héldust því í jafnvægi.[11] Síðustu heimildir um vetrardvöl Pómora eru frá vetrinum 1851 til 1852. Eftir það lögðust veiðarnar af meðal annars vegna minnkandi rostungsstofna.

Norðmenn kynntust Svalbarða gegnum Pómoraverslunina í Norður-Noregi á 18. öld. Fyrstu Norðmennirnir sem vitað er að fóru til Svalbarða voru Samar sem fengnir voru með í rússneskan leiðangur þangað 1795 frá höfninni í Hammerfest.[12] Ári áður höfðu norskir veiðimenn haldið til veiða á Bjarnarey. Frá 3. áratug 19. aldar hófu Norðmenn reglulegar veiðar á Svalbarða, en Tromsø tók við af Hammerfest sem helsta höfnin. Á síðari hluta 19. aldar sigldu 27 norsk skip til Svalbarða að meðaltali. Veturinn 1872 til 1873 létust 17 norskir selveiðimenn úr blýeitrun í veiðikofa sem nefndist Svenskhuset á Svalbarða.[13]

Rannsóknarleiðangrar[breyta | breyta frumkóða]

Loftbelgsstöð sem leiðangur Andrées reisti á Danska eyja 1897.

Á síðari hluta 18. aldar héldu nokkrir stórir rannsóknarleiðangrar til Svalbarða ýmist til að kortleggja Norðurslóðir eða freista þess að finna Norðausturleiðina. Árið 1773 leiddi Constantine Phipps leiðangur á vegum breska flotans til Svalbarða þar sem skip hans, Carcass og Racehorse festust í ísnum við Sjöeyjar, en náðu að losa sig og komast heilu og höldnu til baka.[14] Árið 1827 kom norski jarðfræðingurinn Baltazar Mathias Keilhau til Svalbarða og rannsakaði landið innan við ströndina.[15] Veturinn 1838-1839 kom Norðurslóðaleiðangur Paul Gaimard á skipinu La Recherche til Svalbarða og fékkst þar við margvíslegar rannsóknir.[16]

Svíar hófu að sýna Svalbarða mikinn áhuga um miðja 19. öld. Sænski náttúrufræðingurinn Otto Martin Torell rannsakaði jökla á eyjunum á 6. áratug 19. aldar. Adolf Erik Nordenskiöld tók þátt í þremur af þessum leiðöngrum Torells og leiddi eftir það frekari rannsóknir á Norðurslóðum á 7. og 8. áratugnum. Breski náttúrufræðingurinn og kortagerðamaðurinn Martin Conway gerði fyrsta kortið af landslagi eyjanna eftir leiðangur veturinn 1896-1897.[17]

Svalbarði var upphafsstaður fyrir nokkrar tilraunir manna til að ná norðurpólnum í loftfari. Loftbelgsleiðangur Andrées, þar sem allir leiðangursmenn týndu lífinu, lagði upp frá stöð sem reist var á Dönsku eyju 1897. Fjórar slíkar tilraunir voru gerðar út frá Ny-Ålesund á milli 1925 og 1928, þar á meðal fyrsta tilraun Roald Amundsen til að komast á norðurpólinn með flugbát. Floyd Bennett og Richard E. Byrd héldu því fram að þeim hefði tekist það 1926, en því hefur síðan verið hafnað.[18] Loftskipið Norge er nú talið hafa verið fyrst til að ná pólnum. Loftskip Umberto Nobile, Italia, hrapaði árið 1928 sem leiddi til umfangsmikillar leitar og björgunaraðgerða, þar sem Amundsen er talinn hafa farist.[18]

Námavinnsla og yfirtaka Norðmanna[breyta | breyta frumkóða]

Longyear City árið 1908.

Kolavinnsla á Svalbarða hafði lengi verið stunduð í smáum stíl áður en iðnaðarvinnsla hófst árið 1899. Einn af þátttakendum í leiðöngrum Nordenskiölds, Alfred Gabriel Nathorst, reyndi fyrstur að stofna varanlega byggð við Ísfjörð á Svalbarða og hugðist vinna þar fosfórít en ekkert varð úr þeim fyrirætlunum. Søren Zachariassen frá Tromsø stofnaði fyrsta námafyrirtækið og gerði tilkall til nokkurra staða umhverfis Ísfjörð en skorti fjármagn til að hefja þar uppbyggingu.

Fyrsta námafyrirtækið sem náði að komast á legg var Arctic Coal Company í eigu bandaríska athafnamannsins John Munroe Longyear sem keypti tilkall Norðmanna og stofnaði Longyear City árið 1906. Um 200 manns störfuðu þar árið 1910. Norska námafyrirtækið Store Norske Spitsbergen Kulkompani var stofnað til að kaupa fyrirtæki Longyears árið 1916. Pyramiden og Sveagruva voru námabækistöðvar sem sænsk fyrirtæki stofnuðu á sama tíma, og hollenskir fjárfestar stofnuðu Barentsburg árið 1920. Norskir fjárfestar stofnuðu Kings Bay Kull Compani árið 1916 í kringum kolavinnslu í Konungsfirði.

Áhugi Norðmanna á auðlindum á Norðurslóðum fór vaxandi undir lok 19. aldar á sama tíma og upp kom þörf fyrir einhvers konar stjórn á námavinnslu á Svalbarða. Engin yfirvöld voru á eyjunum og námafyrirtækin áttu erfitt með að staðfesta tilkall sitt til ákveðinna staða. Árið 1907 átti Noregur frumkvæði að viðræðum milli hinna ýmsu landa sem gerðu tilkall til eyjanna. Norska ríkisstjórnin var treg til að taka að sér yfirstjórnina vegna hás kostnaðar, en það breyttist smám saman eftir því sem kolavinnslan jókst. Á Friðarráðstefnunni í París 1919 var ákveðið að Noregur fengi yfirráð yfir Svalbarða. Spitsbergensamningurinn (eins og hann hét þá) var undirritaður 9. febrúar 1920 með þeim skilyrðum að nýting auðlinda væri öllum samningsaðilum frjáls og að eyjarnar mætti ekki nota í hernaðarlegum tilgangi. Eftir nokkra umræðu um fyrirkomulag stjórnar á eyjunum voru Svalbarðalögin sett í Noregi árið 1925 þar sem ákveðið var að eyjarnar hétu Svalbarði (en ekki Spitsbergen) og að þeim skyldi stjórnað af sérstökum sýslumanni sem skipaður væri af Noregskonungi.[19]

Á 3. áratug 20. aldar hnignaði námavinnslunni og margar bækistöðvar voru yfirgefnar. Á endanum voru aðeins eftir Store Norske Spitsbergen Kulkompani og sovéska námafyrirtækið Arktikugol sem tók yfir nokkrar fyrrverandi námabyggðir á eyjunum. Kolaframleiðslan náði hátindi fyrir stríð árið 1936 þegar 786.000 tonn af kolum voru unnin þar. Á 4. áratugnum hófust þorskveiðar í smáum stíl við eyjarnar og reglulegar ferjusiglingar frá Noregi.

Síðari heimsstyrjöld[breyta | breyta frumkóða]

Fyrst eftir að Þjóðverjar réðust inn í Noreg 1940 hélt kolavinnslan á Svalbarða áfram eins og ekkert hefði í skorist. Það var ekki fyrr en Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin 1941 að bandamenn ákváðu að flytja allt fólk þaðan og eyðileggja kolabirgðir við námurnar í Gauntlet-aðgerðinni. Á þeim tíma hófust ferðir skipalesta með hergögn og hjálpargögn til Sovétríkjanna um Norðurhöf. Í fyrstu höfðu Þjóðverjar aðallega áhuga á að koma upp veðurstöðvum á Svalbarða og komu sér upp mannaðri veðurstöð í Aðventufirði 1941.

Vorið 1942 var Fritham-aðgerðinni hrint í framkvæmd, þar sem tvö norsk selveiðiskip sigldu með mannafla frá norsku útlagastjórninni til Svalbarða til að taka kolanámurnar yfir. Um sumarið sendu Þjóðverjar tvö herskip þangað í Zitronella-aðgerðinni og lögðu Longyearbyen og Barentsburg í rúst með stórskotaárás frá skipunum Tirpitz og Scharnhorst. Sex Norðmenn létu lífið og yfir 30 voru sendir í fangabúðir. Aðgerðin náði þó ekki að tryggja yfirráð Þjóðverja yfir Svalbarða. Með Gearbox-aðgerðinni og Gearbox II-aðgerðinni sumarið 1942 tryggðu bandamenn sér aðstöðu á Svalbarða til að verja skipalestirnar um Norðurhöf. Þjóðverjar héldu þó áfram tilraunum til að koma upp veðurstöðvum á Svalbarða til að styðja við kafbátahernaðinn, eins og í Haudegen-aðgerðinni 1944. Síðasta hersveit Þjóðverja sem gafst upp fyrir bandamönnum í Evrópu voru starfsmenn veðurstöðvarinnar í Haudegen sem gáfust upp fyrir norsku selveiðiskipi 6. september 1945.[20]

Samtímasaga[breyta | breyta frumkóða]

Yfirgefinn kláfur til að flytja kol.

Eftir styrjöldina hóf Noregur aftur starfsemi í Longyearbyen og Ny-Ålesund,[21] en Sovétríkin hófu á ný námastarfsemi í Barentsburg, Pyramiden og Grumant.[22] Í námunni í Ny-Ålesund biðu 71 bana í slysum frá 1945 til 1954 og 1960 til 1963. Kings Bay-málið þar sem 21 verkamaður lét lífið, leiddi til afsagnar þriðju ríkisstjórnar Geirhardsens.[23][24] Kolavinnslan var lengi rekin með tapi og norska ríkið lagði milljarða króna í að halda starfsemi og samfélagi þar úti.[25][26]

Frá 1964 varð Ny-Ålesund að rannsóknarmiðstöð og aðstöðu fyrir Geimrannsóknastofnun Evrópu.[27] Prufuboranir í leit að olíu hófust árið 1963 og héldu áfram til 1984, en engar olíulindir fundust.[28] Frá 1960 hófust reglulegar flugferðir til Hotellneset;[29] og árið 1975 var Svalbarðaflugvöllur opnaður í Longyearbyen með heilsársþjónustu.[30] Nokkrar deilur urðu um fjölda Aeroflot-starfsmanna sem Sovétmenn vildu að störfuðu á vellinum.[31]

Í kalda stríðinu voru íbúar Sovétríkjanna tveir þriðju af íbúum eyjanna (Norðmenn voru þá einn þriðji) og heildaríbúafjöldinn rétt innan við 4000.[32][22] Starfsemi Rússa hefur minnkað umtalsvert síðan þá og aðeins 450 Rússar voru á Svalbarða 2010.[33][34] Námabyggðinni Grumant var lokað eftir að náman var þurrausin árið 1962.[22] Pyramiden var lokað árið 1998.[35] Útflutningur á kolum frá Barentsburg stöðvaðist 2006 vegna eldsvoða,[36] en hélt áfram eftir 2010.[37] Rússar lentu í tveimur flugslysum: 141 fórust með Vnukovo Airlines flugi 2801 1996[38] og þrír létust í þyrluslysinu á Heerodden 2008.[39]

Árið 1971 var Svalbarðaráðið stofnað sem samráðsvettvangur íbúa, en það hafði engin raunveruleg völd og krafan um sveitarstjórn varð háværari eftir því sem leið að lokum 20. aldar.[40] Longyearbyen var fyrirtækisbær til 1989 þegar stofnunin Svalbard Samfundsdrift var stofnuð utan um opinbera þjónustu, menningu og menntun.[41] Árið 1993 var stofnunin seld ríkinu og Háskólamiðstöð Svalbarða stofnuð í staðinn, rekin sameiginlega af fjórum háskólum í Noregi.[42][43][44] Á 10. áratug 20. aldar jókst ferðamennska á Svalbarða og efnahagur Longyearbyen varð óháður námafyrirtækinu.[45][46] Longyearbyen fékk sveitarstjórn árið 2002.[41]

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Sól með hjásólir (gíl og úlf) yfir Svalbarða.
Hæðakort af Svalbarða.

Svalbarðasamningurinn skilgreinir Svalbarða sem allar eyjar og sker milli 74. og 81. breiddargráðu norður, og 10. til 35. lengdargráðu austur.[47][48] Landsvæðið er 61.022 km2 að stærð. Þrjár stærstu eyjar Svalbarða eru Spitsbergen (37.673 km2), Nordaustlandet (14.443 km2) og Edgeøya (5.074 km2).[49] Öll þorpin á Svalbarða eru á Spitsbergen, fyrir utan veðurstöðvar á Bjarnarey og Hopen.[50] Norska ríkið lagði allt land á Svalbarða undir sig, sem aðrir höfðu ekki gert tilkall til, eða 95,2% af eyjaklasanum þegar Svalbarðasamningurinn gekk í gildi. Norska námafyrirtækið Store Norske á 4% og rússneska námafyrirtækið Arktikugol 0,4%. Aðrir einkaaðilar eiga 0,4% landsins.

Svalbarði er norðan norðurheimskautsbaugs og þar er miðnætursól í 99 daga á sumrin og heimskautanótt í 84 daga á veturnar.[51] Í Longyearbyen er bjart frá 20. apríl til 23. ágúst, og dimmt frá 26. október til 15. febrúar.[47] Á veturnar er oft tunglbjart og snjóþekja magnar birtuna upp.[51] Á Svalbarða eru ljósaskiptin löng. Fyrsta og síðasta dag skammdegisins stendur rökkrið í sjö og hálfan tíma og samfelld birta stendur tveimur vikum lengur en miðnætursólin.[52][53] Á sumarsólstöðum fer sólin neðst í 12° yfir sjóndeildarhring á miðnætti.[54]

Um 60% af Svalbarða eru þakin jökli, 30% er berg og 10% eru klædd gróðri.[55] Stærsti jökullinn er Austfonna, 8.412 km2, á Nordaustlandet, og þar á eftir koma Olav V Land og Vestfonna. Á sumrin er hægt að fara á skíðum frá Sørkapp syðst á Spitsbergen að norðurströndinni, á næstum samfelldum ís. 99,3% af eyjunni Kvitøya eru þakin ís.[56]

Svalbarði hefur mótast af ísaldarjöklinum sem hefur skorið firði, dali og fjöll inn í þessa fyrrum hásléttu.[55] Hæsti tindurinn er Newtontoppen sem er 1.717 metra hár, og þar á eftir koma Perriertoppen (1.712 metrar), Ceresfjellet (1.675 metrar), Chadwickryggen (1.640 metrar) og Galileotoppen (1.637 metrar). Lengsti fjörðurinn er Wijdefjorden, 108 km að lengd, og þar á eftir koma Isfjorden (107 km), Van Mijenfjorden (83 km), Woodfjorden (64 km) og Wahlenbergfjorden (46 km).[57] Svalbarði er hluti af Heimskautaflæðibasaltinu[58] og þar reið yfir öflugasti jarðskjálfti Noregs 6. mars 2009, 6,5 að stærð.[59]

Helstu landspendýr eru heimskautarefur, ísbjörn og hreindýr. Sjávarspendýr eru meðal annars hvalir, höfrungar, selir og rostungar. 165 plöntutegundir hafa fundist á Svalbarða. Ísbirnir hafa orðið 6 manns að bana síðan 1971. [60]

Eyjar[breyta | breyta frumkóða]

Eyjar á Svalbarða í röð eftir stærð:

  1. Spitsbergen (37.673 km²)
  2. Nordaustlandet (14.443 km²)
  3. Edge-eyja (5074 km²)
  4. Barentseyja (1250 km²)
  5. Hvítey (682 km²)
  6. Prins Karls Forland (615 km²)
  7. Bjarnarey (178 km²)
  8. Danska Eyja
  9. Amsterdameyja

Efnahagslíf[breyta | breyta frumkóða]

Helstu atvinnugreinar eru kolavinnsla, ferðaþjónusta og rannsóknir. Svalbarði er ekki hluti af Schengen eða Evrópska efnahagssvæðinu.

Íbúar[breyta | breyta frumkóða]

Þrjár af eyjum Svalbarða eru byggðar: Spitsbergen, Bjørnøya og Hopen. Árið 2020 bjuggu tæplega 3000 manns á Svalbarða, meira en helmingur af norskum uppruna. Stærstu hópar á eyjunni sem ekki hafa norskt ríkisfang eru frá Rússlandi, Úkraínu, Póllandi, Þýskalandi, Svíþjóð, Danmörku og Taílandi.[34]

Stærsti bærinn í eyjaklasanum er Longyearbyen. Þar er sjúkrahús, grunnskóli og menntaskóli og Háskólasetur Svalbarða, íþróttamiðstöð með sundlaug, bókasafn, menningarmiðstöð og kvikmyndahús,[36] almenningsvagnar, hótel, banki[61] og nokkur söfn.[62] Vikulega kemur út dagblaðið Svalbardposten[63]. Engin námavinnsla er eftir í Longyearbyen. Starfsemi var hætt í kolanámum í Sveagruva og Luckerfjellet árið 2017 og þeim var lokað 2020.[64][65]

Ny-Ålesund er varanleg rannsóknarstöð á norðvesturströnd Spitsbergen og nyrsta varanlega byggð heims. Ny-Ålesund var áður námabær og er enn rekinn af norska ríkisfyrirtækinu Kings Bay. Þar er ferðaþjónusta takmörkuð til að draga úr áhrifum hennar á vísindastarf.[36] Íbúar í Ny-Ålesund eru 35 á veturnar og um 180 á sumrin.[66] Norska veðurstofan rekur veðurstöðvar á Bjørnøya og Hopen, með 10 og 4 starfsmenn. Báðar stöðvarnar hýsa líka rannsóknarteymi tímabundið.[36] Pólska heimskautamiðstöðin er rekin af pólska ríkinu í Hornsund með 10 starfsmenn árið um kring.[36]

Yfirgefni sovéski námabærinn Pyramiden.

Sovéski námabærinn Pyramiden var yfirgefinn árið 1998. Eftir það var Barentsburg eina varanlega rússneska byggðin á Svalbarða. Barentsburg er í eigu fyrirtækisins Arktikugol sem rekur þar kolanámu. Til viðbótar við námavinnsluna hefur fyrirtækið opnað hótel og minjagripaverslun fyrir ferðamenn sem koma þangað frá Longyearbyen.[36] Í þorpinu eru skóli, bókasafn, íþróttamiðstöð, tómstundamiðstöð, sundlaug, býli og gróðurhús. Svipuð aðstaða er í Pyramiden. Í báðum þorpunum er að finna dæmigerðan sovéskan eftirstríðsáraarkitektúr. Þar er að finna tvær nyrstu styttur af Lenín í heimi, auk annarra listaverka.[55] Árið 2013 voru nokkrir starfsmenn í Pyramiden til að halda byggingunum við og reka þar lítið hótel.

Menning[breyta | breyta frumkóða]

North Pole Expedition Museum í Longyearbyen.

Menning á Svalbarða hefur tekið miklum breytingum eftir að námavinnslu lauk. Miklar minjar eru um námavinnsluna og heilu námabæirnir standa enn, þótt þeir séu að mestu mannlausir. Námavinnsla Sovétríkjanna hafði þann tilgang fyrst og fremst að viðhalda stöðu þeirra á Norðurslóðum, því kolavinnslan sjálf stóð aldrei undir sér. Pyramiden átti að vera eins konar „fyrirmyndarbær“ til að sýna umheiminum fram á yfirburði sovéskra lifnaðarhátta í kalda stríðinu. Á Svalbarða er líka að finna eldri minjar um hvalveiðar. Síðustu ár hefur náttúruferðamennska farið vaxandi sem leggur áherslu á ósnortna náttúru og víðerni. Þannig verður umdeilt hvort líta eigi á leifar af 20. aldar iðnaði á svæðinu sem „minjar“ til að varðveita eða „rusl“ til að fjarlægja.[67] Minjar sem eru eldri en frá 1945 eru varðveittar með lögum.[68] Nokkrum námum og hluta námabæjanna hefur verið breytt í söfn og gististaði fyrir ferðafólk.

Rannsóknarstarf, einkum loftslagsrannsóknir, hefur farið vaxandi á Svalbarða. Á milli 2003 og 2006 var rannsóknarsetrið Svalbard Forskningspark reist yfir starfsemi nokkurra rannsóknarstofnana í Longyearbyen. Þar er Minjasafn Svalbarða til húsa. Í Longyearbyen eru líka North Pole Expedition Museum og Gruve 3-náman sem er opin ferðamönnum. Þá eru minjasöfn um námavinnslu og minjar frá Pómorum bæði í Barentsburg og Pyramiden.

Ýmsar árlegar hátíðir eru haldnar á Svalbarða, flestar stofnaðar síðustu ár. Meðal þeirra eru „sólarhátíð“ (Solfestuka) til að fagna endurkomu sólarinnar í mars. Tónlistarhátíðir, bókmenntahátíð og matarhátíðir eru líka haldnar árlega.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Dickie, Gloria (1.6.2021). „The World's Northernmost Town Is Changing Dramatically“ (Original title: "The Polar Crucible"). Scientific American. 324 (6): 44–53.
  2. „Svalbarði: Ný samgöngumiðstöð á Norðurslóðum?“. Þjóðviljinn. 39 (80): 12. 21.5.1974.
  3. „The national parks on Svalbard“. Norwegian national parks.
  4. 4,0 4,1 „Konungsannáll“. Heimskringla.no. Sótt 12.10.2023.
  5. Berg, Roald (desember 2013). „From "Spitsbergen" to "Svalbard". Norwegianization in Norway and in the "Norwegian Sea", 1820–1925“. Acta Borealia. 30 (2): 154–173. doi:10.1080/08003831.2013.843322. S2CID 145567480.
  6. In Search of Het Behouden Huys: A Survey of the Remains of the House of Willem Barentsz on Novaya Zemlya, LOUWRENS HACQUEBORD, p. 250 Geymt 27 mars 2009 í Wayback Machine.
  7. „1. kafli“. Landnámabók (Sturlubók).
  8. Hultgreen, T. (2002). „When did the Pomors come to Svalbard?“. Acta Borealia. 19 (2): 125–145.
  9. Tora Hultgreen (2002). „When Did the Pomors Come to Svalbard?“. 19 (2): 125–145. doi:10.1080/080038302321117551.
  10. Albrethsen, S. E.; Arlov, T. B. (1988). „The Discovery of Svalbard - A Problem Reconsidered“ (PDF). Fennoscandia archaeologica. Archaeological Society of Finland. 5.
  11. Arlov, Thor B. (1994). A short history of Svalbard. Oslo: Norwegian Polar Institute. ISBN 82-90307-55-1.
  12. Carlheim-Gyllensköld, V. (1900). På åttionda breddgraden. En bok om den svensk-ryska gradmätningen på Spetsbergen; den förberedande expeitionen sommaren 1898, dess färd rundt spetsbergens kuster, äfventyr i båtar och på isen; ryssars och skandinavers forna färder; m.m., m.m. Stockholm: Albert Bonniers förlag.
  13. Goll, Sven (19. september 2008). „Arctic mystery resolved after 135 years“. Aftenposten. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. júní 2011.
  14. Fjågesund, P. (2008). „When Science Came to the Arctic: Constantine Phipps's Expedition to Spitsbergen in 1773“ (PDF). Journal of Northern Studies (2): 77–91.
  15. Keilhau B. M. (1831). Reise i øst- og vest-finmarken samt til beeren-eiland og spitsbergen i aarene 1827 og 1828. Christiania: Johan Krohn.
  16. Paul Gaimard (1842-1855). Voyage en Scandinavie, en Laponie, au Spitzberg et aux Feröe pendant les années 1838-1840 sur la corvette La Recherche, commandée par M. Fabvre. Publiés par ordre du Roi sous la direction de M. Paul Gaimard. Paris: A. Bertrand.
  17. Ørvoll, Oddveig Øien. „The history of place names in the Arctic“. Norwegian Polar Institute. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. apríl 2012. Sótt 19. apríl 2012.
  18. 18,0 18,1 Hisdal (1998): 103
  19. Berg, R. (2013). „From "Spitsbergen" to "Svalbard". Norwegianization in Norway and in the "Norwegian Sea", 1820–1925“. Acta Borealia. 30 (2): 154–173.
  20. Barr, W. (1986). „Wettertrupp Haudegen: the last German Arctic weather station of World War II. Part 1“. Polar Record. 23 (143): 143–158.
  21. Torkildsen T. & Barr S. (1984). Svalbard: Vårt nordligste Norge. Det Norske Svalbardselskap.: 206
  22. 22,0 22,1 22,2 Torkildsen (1984): 202
  23. „Kings Bay“ (norska). Afrit af upprunalegu geymt þann 3. nóvember 2006. Sótt 24. mars 2010.
  24. „Kings Bay-saken“ (norska). Afrit af upprunalegu geymt þann 9. nóvember 2006. Sótt 24. mars 2010.
  25. Gísli Kristjánsson (1999). „Ísbirnir vilja ekki fólk“. Dagblaðið Vísir. 25 (116): 28.
  26. Reynir Traustason (1995). „Berum ekki beinin hérna“. Dagblaðið Vísir. 21 (122): 10.
  27. Arlov, Thor B. (1996). Svalbards historie: 1596-1996 (norska). Oslo: Aschehoug. ISBN 82-03-22171-8. Sótt 22. maí 2021.: 412
  28. Torkildsen (1984): 261
  29. Tjomsland, Audun & Wilsberg, Kjell (1995). Braathens SAFE 50 år: Mot alle odds. Oslo. ISBN 82-990400-1-9.: 163
  30. Tjomsland and Wilsberg (1995): 162–164
  31. Gísli Sveinn Loftsson (1976). „Tilraunir rússa til að sölsa undir sig Svalbarða“. Vísir. 66 (28): 8–9.
  32. „Sambýlið á Svalbarða“. Morgunblaðið. 1986.
  33. „Persons in settlements 1 January. 1990–2005“. Statistics Norway. Afrit af uppruna á 14. nóvember 2011. Sótt 24. mars 2010.
  34. 34,0 34,1 „Non-Norwegian population in Longyearbyen, by nationality. Per 1 January. 2004 and 2005. Number of persons“. Statistics Norway. Afrit af uppruna á 23. maí 2010. Sótt 24. mars 2010.
  35. Fløgstad (2007): 127
  36. 36,0 36,1 36,2 36,3 36,4 36,5 „10 Longyearbyen og øvrige lokalsamfunn“. St.meld. nr. 22 (2008–2009): Svalbard. Norwegian Ministry of Justice and the Police. 17. apríl 2009. Afrit af uppruna á 11. október 2012. Sótt 24. mars 2010.
  37. Staalesen, Atle (8. nóvember 2010). „Russians restarted coal mining at Svalbard“. Barents Observer. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. nóvember 2010. Sótt 26. janúar 2010.
  38. „29 Aug 1996“. Aviation Safety Network. Afrit af uppruna á 17. apríl 2010. Sótt 24. mars 2010.
  39. Eisenträger, Stian & Per Øyvind Fange (30. mars 2008). „- Kraftig vindkast trolig årsaken“. Verdens Gang. Afrit af uppruna á 10. júní 2011. Sótt 24. mars 2010.
  40. Urður Gunnarsdóttir (1998). „Á hjara veraldar“. Morgunblaðið. 86 (213): B 6-7.
  41. 41,0 41,1 Arlov and Holm (2001): 49
  42. „Arctic science for global challenges“. University Centre in Svalbard. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. febrúar 2012. Sótt 24. mars 2010.
  43. Hrafnhildur Hannesdóttir (2002). „Dagurinn myrkur sem nótt“. Morgunblaðið. 90 (175): 14–15.
  44. Hörður Kristjánsson (2002). „Á veraldarhjara“. DV. 92 (112): 46–47.
  45. Páll Þórhallsson (1995). „Þar sem engin tré festa rætur“. Morgunblaðið. 83 (130): B 16-17.
  46. „9 Næringsvirksomhet“. St.meld. nr. 22 (2008–2009): Svalbard. Norwegian Ministry of Justice and the Police. 17. apríl 2009. Afrit af uppruna á 25. ágúst 2011. Sótt 24. mars 2010.
  47. 47,0 47,1 „Svalbard“. Norwegian Polar Institute. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. apríl 2012. Sótt 24. mars 2010.
  48. „Svalbard Treaty“. Wikisource. 9. febrúar 1920. Afrit af uppruna á 24. mars 2010. Sótt 24. mars 2010.
  49. „Hvort er stærra Ísland eða Svalbarði?“. Vísindavefurinn.
  50. „Svalbard“. World Fact Book. Central Intelligence Agency. 15. janúar 2010. Sótt 24. mars 2010.
  51. 51,0 51,1 Torkilsen (1984): 96–97
  52. „Sunrise and sunset in Longyearbyen October 2019“. Timeanddate.com. Sótt 29. október 2019.
  53. „Sunrise and sunset in Longyearbyen April 2019“. Timeanddate.com. Sótt 29. október 2019.
  54. „Sunrise and sunset in Longyearbyen June“. Timeanddate.com. Sótt 29. október 2019.
  55. 55,0 55,1 55,2 Umbreit, Andreas (2005). Spitsbergen: Svalbard, Franz Josef, Jan Mayen (3rd. útgáfa). Chalfont St. Peter, Bucks: Bradt Travel Guides. ISBN 978-1-84162-092-3. Sótt 21. maí 2021.
  56. Torkildsen (1984): 102–104
  57. „Geographical survey. Fjords and mountains“. Statistics Norway. 22. október 2009. Afrit af uppruna á 14. nóvember 2011. Sótt 24. mars 2010.
  58. Maher, Harmon D. Jr. (nóvember 1999). „Research Project on the manifestation of the High Arctic Large Igneous Province (HALIP) on Svalbard“. University of Nebraska at Omaha. Afrit af uppruna á 28. júní 2010. Sótt 24. mars 2010.
  59. „Svalbard hit by major earthquake“. The Norway Post. Norwegian Broadcasting Corporation. 7. mars 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. mars 2012. Sótt 24. mars 2010.
  60. Ísbjörn drap mann á Svalbarða Vísir.is, skoðað 29. ágúst 2020
  61. „Shops/services“. Svalbard Reiseliv. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. apríl 2010. Sótt 24. mars 2010.
  62. „Attractions“. Svalbard Reiseliv. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. janúar 2010. Sótt 24. mars 2010.
  63. http://www.svalbardposten.no
  64. Stange, Rolf (15. febrúar 2019). „Lunckefjellet: the end of an arctic coal mine“. Spitsbergen | Svalbard (bandarísk enska). Sótt 28. janúar 2020.
  65. Stange, Rolf (26. febrúar 2020). „Svea Nord is history“. Spitsbergen | Svalbard (bandarísk enska). Sótt 19. október 2020.
  66. „Ny-Ålesund“. Kings Bay. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. mars 2009. Sótt 24. mars 2010.
  67. Kotašková, E. (2022). „From mining tool to tourist attraction: Cultural heritage as a materialised form of transformation in Svalbard society“. Polar Record. 58. doi:10.1017/S0032247422000092.
  68. Kristin Prestvold (2008). „Svalbard's cultural remains - traces of history in an Arctic landscape“. Norsk polarinstitutt.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]