Svörtuloft

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Svörtuloft (Snæfellsnesi))
Svörtuloft og vitinn.

Svörtuloft eru um 4 km langt belti sjávarhamra vestast á Snæfellsnesi, sunnan við Öndverðarnes.[1] Þar hefur hraun runnið í sjó og brimið síðan brotið framan af þeim svo að hamrarnir standa þverhníptir eftir. Örnefnið er víðar til og oftast haft um sjávarhamra eða klettabelti.[2]

Mörg skip og bátar hafa farist undir Svörtuloftum og yfirleitt með allri áhöfn því að þar er hvergi skjól og nær engar aðstæður til að bjarga mönnum. Nafnið er aðeins notað af sjó en á landi heita björgin Nesbjarg, næst Öndverðarnesi, og síðan Saxhólsbjarg. Svörtuloftaviti var fyrst reistur ofan við hamrana árið 1914. Núverandi viti er frá 1931.

Örnefnið hefur oft verið notað í líkingum og þá venjulega til að tákna eitthvað drungalegt eða neikvætt: „Grútargræðgin hefir leitt þá svo langt að nú eru þeir fallnir fyrir Svörtuloft stjómmálanna og þar munu þeir beinin bera í urð illverka sinna við íslenzkt þjóðarsjálfstæði.“[3]. Hús Seðlabanka Íslands er einnig oft nefnt Svörtuloft.

Spennusaga Arnaldar Indriðasonar frá 2009 heitir Svörtuloft. Davíð Stefánsson orti kvæði sem nefnist „Undir Svörtuloftum“ og Bragi Sigurjónsson gaf út ljóðabók með sama nafni.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Hvar eru Svörtuloft?“. Vísindavefurinn.
  2. „Örnefnastofnun. Örnefni mánaðarins, desember 2009“.
  3. „Mjölnir, 7.1. 1914“.