Svæðisskipulag

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Svæðisskipulag er skipulagsáætlun tveggja eða fleiri sveitarfélaga þar sem sett er fram sameiginleg stefna þeirra um byggðaþróun og þá þætti landnotkunar sem þörf er talin á að samræma vegna sameiginlegra hagsmuna hlutaðeigandi sveitarfélaga. Staðbundnar ákvarðanir um landnotkun skulu eingöngu teknar í svæðisskipulagi að því marki sem nauðsyn þykir til að tryggja sameiginlega hagsmuni hlutaðeigandi sveitarfélaga, til að útfæra landsskipulagsstefnu á hlutaðeigandi svæði eða vegna nauðsynlegrar samræmingar landnotkunar í fleiri en einu sveitarfélagi.[1]

Skilyrði og framsetning[breyta | breyta frumkóða]

Svæðisskipulag skal taka til svæðis sem myndar heild í landfræðilegu, hagrænu og félagslegu tilliti og getur þannig tekið til heilla landshluta eða annarra stærri heilda. Við gerð svæðisskipulags skal byggt á markmiðum laga þessara og landsskipulagsstefnu. Stefnumörkun svæðisskipulags skal taka til a.m.k. tólf ára tímabils.

Svæðisskipulag skal sett fram í skipulagsgreinargerð. Þar skal koma fram rökstudd stefna sveitarfélaganna varðandi byggðaþróun ásamt umhverfismati svæðisskipulagsins. Að því marki sem tilefni er til að marka stefnu um staðbundnar ákvarðanir í svæðisskipulagi skal svæðisskipulag jafnframt sett fram á þemauppdráttum með greinargerð og/eða sérstökum skipulagsuppdrætti.[1]

Í svæðisskipulagi skulu koma fram eftirfarandi atriði, eftir því sem við getur átt:

  1. sameiginleg stefna sveitarfélaganna um málefni sem undir svæðisskipulagið falla,
  2. hvernig svæðisskipulagið samrýmist markmiðum skipulagslaga,
  3. hvernig samræmis er gætt við landsskipulagsstefnu,
  4. hvernig svæðisskipulagið snertir aðrar skipulagsáætlanir eða áætlanagerð sveitarfélaganna,
  5. áfangar og tímasetningar við framfylgd stefnunnar.

Feli svæðisskipulagið í sér stefnu um landnotkun skal hún rökstudd með vísun í þróun undanfarinna ára og líklega þróun um landnotkun, eftir því sem við á. Gera skal grein fyrir forsendum stefnu, samræmi við önnur markmið svæðisskipulagsins og hvernig staðið verður að framfylgd þess í einstökum málaflokkum.[2]

Eingöngu ein svæðisskipulagsáætlun er áskilin en það er svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið.[3] Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins skal ávallt mörkuð stefna um byggðarþróun, verslunarmiðstöðvar, samgöngur og vegakerfi, veitur, útivistarsvæði, náttúru­verndar­svæði, vatnsverndarsvæði og annað sem sveitarfélögin telja ástæðu til að afmarka sameiginlega stefnu um eða samnýta, svo sem sorpvinnslustöðvar, sorpurð­unarsvæði, efnistöku- og efnislosunarsvæði, hafnir og samfélagsþjónustu.[4]

Svæðisskipulag í gildi[5][breyta | breyta frumkóða]

  • Svæðisskipulag Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar 2018-2030
  • Svæðisskipulag Snæfellsness 2014-2026
  • Svæðisskipulag Eyjafjarðar 2012-2024
  • Svæðisskipulag Suðurnesja 2008-2024
  • Svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Skipulagslög 123/2010, 21. gr. [1]
  2. Skipulagsreglugerð 90/2013, 3.3.1. gr. [2]
  3. Skipulagslög 123/2010, 22. gr. 2. mgr.
  4. Skipulagsreglugerð 90/2013, 3.3.2. gr.[3]
  5. Svæðisskipulag - Skipulagsstofnun