Stuðlabergsslysið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Stuðlabergsslysið er sjóslys sem varð að kvöldi 17. febrúar eða aðfaranótt 18. febrúar 1962. Síldarbátur frá Seyðisfirði Stuðlaberg NS 102 með 11 manna áhöfn fórst þá út af Stafnesi að talið er og rak brak úr bátnum á fjörur milli Garðskaga og Sandgerðis. Meðal þess sem rak á land var bjarghringur með nafni bátsins sem fannst hjá Þóroddstöðum. Stuðlaberg var á síldveiðum fyrir Suðurlandi. Síðast heyrðist í bátnum þar sem hann var staddur út af Selvogi á leið til Keflavíkur til löndunar og voru mörg skip á þeirri siglingaleið. Stuðlaberg kom hins vegar aldrei til Keflavíkur og var talið þar að báturinn hefði haldið til Hafnarfjarðar þar sem hann hafði áður landað. Vegna þessa varð bátsins ekki saknað fyrr en 21. febrúar er Slysavarnafélagi Íslands var gert viðvart. Eins og áður segir rak talsvert brak úr bátnum á fjörur milli Hafna og Garðskaga og fannst lík eins skipverja rekið undan bænum Fuglavík. Stuðlaberg NS 102 var 152 lesta stálbátur sem gerður var út frá Suðurnesjum.

Þeir sem fórust með Stuðlabergi voru:

  • Jón Hildiberg Jörundsson, skipstjóri, Keflavík
  • Pétur Þorfinnsson, stýrimaður, Reykjavík
  • Kristján Jörundsson, 1. vélstjóri, Ytri-Njarðvík
  • Karl Jónsson, 2. vélstjóri, Reykjavík
  • Birgir Guðmundsson, Matsveinn, Reykjavík
  • Stefán Elíasson, háseti, Hafnarfirði
  • Guðmundur Ólason, háseti, Reykjavík
  • Gunnar Valsberg Laxfoss Hávarðsson, háseti, Keflavík
  • Örn Ólafsson, háseti, Hafnarfirði
  • Kristmundur Benjamínsson, háseti, Keflavík
  • Ingimundur Sigmarsson, háseti, Seyðisfirði

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]