Stagsegl

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Franska skonnortan La Recouvrance er hér með fjögur stagsegl uppi, auk tveggja gaffalsegla, eins gaffaltopps og tveggja rásegla.

Stagsegl er segl sem er fest á eitthvert stag í seglabúnaði seglskips. Yfirleitt er seglið fest á stagið eftir endilöngum framfaldinum. Flest stagsegl eru þríhyrnd en geta þó stundum verið ferhyrnd. Segl eru fest þannig á framstögin sem ná frá framsiglustefni eða bugspjóti. Þannig stagsegl eru algengustu framsegl seglskipa ásamt belgseglum. Stagsegl eru líka fest á stög sem ná milli mastra á fjölmastra skipum.

Það framstagsegl sem næst er framsiglunni heitir alltaf fokka eða genúafokka eftir því hvort það nær aftur fyrir framsigluna eða ekki. Næstu tvö segl þar fyrir framan heita klýfir og jagar, en oft eru öll framstagsegl kölluð „fokka“. Stagsegl milli mastra draga heiti sín af þeim stöðum þar sem þau eru fest, t.d. messanstagsegl milli messansiglu og næstu siglu, krusbramstagsegl milli bramseglanna á krusmastrinu (aftursiglunni) og næsta masturs, o.s.frv..