Spánverjavígin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Spánverjavígin er heiti sem haft er um þá atburði sem urðu á Vestfjörðum haustið 1615, þegar allmargir baskneskir skipbrotsmenn voru drepnir í átökum milli þeirra og Íslendinga.

Aðdragandi[breyta | breyta frumkóða]

Basknesku hvalveiðimennirnir komu frá bæði spænska og franska hluta Baskalands. Þeir fóru að venja komur sínar á Íslandsmið snemma á 17. öld, eftir að hafa verið hraktir frá Nýfundnalandsmiðum. Sumarið 1615 héldu þrjú hvalveiðiskip til við Strandir og höfðu aðstöðu í Reykjarfirði, þar sem hvalurinn var bræddur, og höfðu þeir því töluverð samskipti við landsmenn og versluðu við þá með ýmsan varning. Á Alþingi um sumarið var lesið upp konungsbréf þar sem allar hvalveiðar útlendinga við landið voru bannaðar og munu Baskarnir hafa haft spurnir af því og voru eftir það sérlega varir um sig. Skipstjórarnir á skipunum þremur hétu Martín de Villafranca, Esteban de Telleria og Pedro de Aguirre.

Um haustið fóru þeir að huga að heimferð en þann 21. september skall á illviðri og brotnuðu öll skipin. 83 menn komust í land en þrír drukknuðu. Þeim tókst næstum engu að bjarga nema nokkrum árabátum og voru því bjargarlausir. Sumir heimamanna höfðu samúð með þeim og vildu taka þá til dvalar en aðrir töldu Baskana á að þeim væri best að skipta sér upp í hópa og dreifa sér um Vestfirði. Þeim var líka sagt frá haffærri skútu sem til væri á Dynjanda í Leirufirði en hún hefði að vísu aldrei dugað þeim til siglingar yfir hafið. Þeir héldu því á bátum sínum norður fyrir Hornstrandir og reru inn á Ísafjarðardjúp.

Eftir að hafa rænt skútunni í Leirufirði skiptu þeir sér í hópa. Þeir sem verið höfðu á skipum de Telleria og de Aguirre, 51 að tölu, tóku skútuna og sigldu á henni suður með Vestfjörðum. Menn de Villafranca skipstjóra skiptust í tvo hópa og fór hann sjálfur með 17 menn í Æðey en hinir 14 reru fyrst til Bolungarvíkur og síðan til Dýrafjarðar. Þar rændu þeir salti og skreið úr kaupmannshúsum á Þingeyri og bjuggu svo um sig í sjóbúðum á Fjallaskaga, yst á nesinu norðan fjarðarins. Dýrfirðingar drógu þegar saman lið, fóru að þeim aðfaranótt 5. október og drápu þá þar sem þeir sváfu, nema einn unglingur gat falið sig. Voru líkin svo afklædd og þeim varpað í sjóinn. Unglingurinn sem slapp gat gert löndum sínum á skútunni vart við sig þegar þeir sigldu hjá og björguðu þeir honum. Þegar þeir fréttu hvað gerst hafði sigldu þeir suður á Patreksfjörð, þar sem þeir brutu upp dönsku verslunarhúsin á Vatneyri og bjuggust þar til vetursetu.

Vígin[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Ari Magnússon sýslumaður í Ögri frétti af atburðum í Dýrafirði byrjaði hann á að kveða upp dóm þar sem Baskarnir voru dæmdir réttdræpir óbótamenn svo allt væri nú löglegt. Hann safnaði síðan liði og hafði fimmtíu manna flokk. Var sagt að ekki hefðu allir verið þar af fúsum og frjálsum vilja. Vegna illviðris var það ekki fyrr en 14. október sem liðið fór út í Æðey og voru þá aðeins fimm Baskar þar fyrir, hinir höfðu náð að veiða hval og voru að skera hann á Sandeyri á Snæfjallaströnd. Drápu Ari og menn hans Baskana í Æðey og héldu síðan til Sandeyrar. Var de Villafranca skipstjóra lofað griðum ef þeir afhentu vopn sín og gerðu þeir það en þó var höggvið til de Villafranca um leið og hann kom út. Hljóp hann þá út í sjó og synti um en var eltur uppi á bát, dreginn í land, afklæddur og drepinn á hroðalegan hátt.

Menn de Villafranca börðust í örvæntingu fyrir lífi sínu og gekk illa að vinna þá þar til Magnús, sextán ára sonur Ara, gat fellt þá einn af öðrum með byssuskotum. Voru líkin svo afklædd og vanvirt á ýmsan hátt.

Þeir sem höfðu verið á skútunni og búið um sig á Vatneyri beittu ýmsum ráðum til að sjá fyrir sér, reru til fiskjar og fóru um sveitir og leituðu sér matar þótt lítið væri að hafa. Þeir áttu ýmis samskipti við fólk þar í grenndinni og ekki öll óvinsamleg. Meðal annars er sagt að Ragnheiður Eggertsdóttir, móðir Ara í Ögri, hafi gert vel við þá. Ari fór í janúar 1616 með hundrað manna lið og ætlaði sér að ná þeim en hitti einhverja fyrir í Tálknafirði. Honum tókst að drepa einn og særa annan með byssuskoti en aðrir sluppu. Sökum veðurs og ófærðar treysti Ari sér ekki til að fara að þeim á Vatneyri. Þar dvöldust Baskarnir um veturinn en um vorið, þegar fyrsta enska fiskiskipið sást, reru þeir og hertóku það. Sigldu Baskarnir burt og spurðist ekki meir til þeirra.

Seinni tíma umfjöllun[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2015 var 400 ára afmæli Spánverjavíganna minnst. Í tilefni áfangans dró Jónas Guðmundsson, sýslumaður á Vestfjörðum, formlega til baka tilskipun Ara Magnússonar um að Baskar væru réttdræpir á landinu.[1][2]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Bask­ar ekki leng­ur rétt­dræp­ir á Vest­fjörðum“. mbl.is. 27. apríl 2015. Sótt 30. mars 2019.
  2. „Jónas sýslumaður afturkallaði tilskipun forvera síns“. Reykhólavefurinn. 26. apríl 2015. Sótt 30. mars 2019.