Snorri Þorfinnsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Snorri Þorfinnsson (f. um 1004) var bóndi í Glaumbæ í Skagafirði á 11. öld. Hann var fæddur á Vínlandi og er talinn fyrsta barnið af evrópskum uppruna sem fæddist í Ameríku.

Foreldrar Snorra voru Þorfinnur karlsefni Þórðarson frá Glaumbæ og kona hans, Guðríður Þorbjarnardóttir. Þau fóru til Vínlands og ætluðu að setjast þar að. Þar voru þau í þrjá vetur og á fyrsta ári þeirra þar fæddist Snorri, líklega 1004. Þau hurfu þó frá landnámi, einkum vegna átaka við innfædda, og settust að í Glaumbæ, þar sem Snorri ólst upp. Þegar Þorfinnur lést bjó Guðríður áfram í Glaumbæ með sonum sínum, Snorra og Þorbirni, en þegar Snorri kvæntist og tók einn við búi hélt Guðríður í suðurgöngu til Rómar. Á meðan hún var í pílagrímsferðinni reisti Snorri kirkju, hina fyrstu í Glaumbæ.

Kona Snorra hét Yngvildur en ætt hennar er óþekkt. Dóttir þeirra var Hallfríður, móðir Þorláks Runólfssonar biskups í Skálholti, en sonur þeirra var Þorgeir, faðir Yngvildar, móður Brands Sæmundssonar biskups í Skálholti. Þorbjörn bróðir Snorra var svo afi Björns Gilssonar Hólabiskups.