Snorkstelpan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Snorkstelpan í skemmtigarðinum, Múmínheimur í Naantali, Finnlandi

Snorkstelpan (s. Snorkfröken f. Niiskuneiti) er persóna í Múmínálfunum eftir finnlandssænska rithöfundinn og teiknarann Tove Jansson.

Hún er ekki múmínálfur heldur Snorkur og systir Snorksins. Snorkar líkjast múmínálfum í öllu nema að þeir geta skipt litum í geðshræringu þótt þeir séu oftast hvítir eins og Múmínálfarnir. En aðeins er minnst á það í tvem bókum, stuttlega í Halastjarnan og í Pípuhattur galdrakarlsinns. Eins eru þau systkinin bæði með hártopp og er Snorkstelpan mjög hrifin af og upptekin af sínum gula hártoppi. Hún elskar að skreyta hann með blómum og oftar en ekki í sama lit og hún sjálf er þá stundina. Hún er best þekkt sem kærasta Múmínsnáðans þótt samband þeirra sé mjög saklaust og um ökklann er hún með gullhring sem Múmínsnáðinn gaf henni. Hún er mjög tilfinningarík, elskuleg og vill öllum vel.

Snorkstelpan og bróðir hennar koma fyrst fram í sjötta kafla bókarinnar Halastjarnan og í næstu köflum þar á eftir þar sem þau slást í för með Múmínálfunum á ferð þeirra aftur til Múmíndals eftir að Múmínsnáðinn bjargar henni frá eitruðum runna. Snorkstelpan og Snorkurinn koma einnig fyrir í næstu bók þar á eftir, Pípuhattur galdrakarlsinns, en þau koma ekki við sögu í þarnæstu bók, Minningar Múmínpabba sem er alfarið helguð Múmínfjölskyldunni og þeim Snúði og Snabba.

Snorkstelpan kemur næst við sögu, en án bróður síns, í bókinni Örlaganóttin þar sem Múmínsnáðinn og hún eru mest alla bókina aðskilin frá öðrum í Múmínfjölskyldunni og rata í sín eigin ævintýri. Hún kemur einnig fyrir í tvem sögum í Ósýnilega barnið og aðrar sögur, þeirri fjórðu, Síðasti drekinn í heiminum og þeirri níundu og síðustu, Þinurinn. En eftir það kemur hún ekkert við sögu í næstu bókum, þótt lítilega sé minnst á hana er ekki sagt afhverju hún er farinn né hvert.

Í bæði japönsku teiknimyndunum sem og Pólsku brúðumyndunum sem framleiddar hafa verið, byggðar á bókunum um Múmínálfana, er hlutur hennar mikið mun meiri en hún kemur við sögu í flestum þeirra.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]