Snið:Menningargátt valin grein

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lofsöngur er sálmur eftir Matthías Jochumsson við lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar samið fyrir þjóðhátíð í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874. Lag og ljóð voru frumflutt af blönduðum kór við hátíðarguðsþjónustu sem hófst klukkan 10:30 í Dómkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 2. ágúst 1874 sem Lofsöngur í minningu Íslands þúsund ára og var konungur Danmerkur (og þar með konungur Íslands), Kristján IX, viðstaddur þá athöfn.

Ljóðið öðlaðist í kjölfar þess vinsældir meðal almennings sem þjóðsöngur og var flutt sem slíkt við fullveldistökuna 1918, sú staða ljóðs og lags var svo fest í „lög um þjóðsöng Íslendinga“,[1] sem voru samþykkt á Alþingi 8. mars 1983 og tóku gildi 25. mars sama ár. Áður var vísan Eldgamla Ísafold eftir Bjarna Thorarensen við lagið God Save the Queen oft sungin sem einhvers konar þjóðsöngur, en það þótti ekki hæfa að notast við sama lag og aðrar þjóðir nota við þjóðsöng sinn.

Lofsöngurinn gengur oftast undir heitinu Ó, Guð vors lands, sem er fyrsta ljóðlína hans og er það meðal annars notað sem heiti ljóðsins í lögum um þjóðsönginn, en er þó skrifað þar án kommu á eftir ó-inu.

  1. „7/1983: Lög um þjóðsöng Íslendinga“. Alþingi.