Ska

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Saga stefnunnar[breyta | breyta frumkóða]

Upptök tónlistarstefnunnar ska komu frá Jamaíku á 6. áratug síðustu aldar. Sagt er að tónlistarstefnan hafi komið til þegar íbúar Jamaíku hlustuðu á útvörpin sín og heyrðu þar R&B tónlist frá New Orleans og reyndu svo að líkja eftir því sem þeir heyrðu, en bættu líka við hljóðum. Stefnan var fyrirrennari reggí-tónlistar og rocksteady. Ska sameinast af ýmsum hljóðum og sameinar nokkra mismunandi stíla, svo sem amerískan djass, calypso og svo má vel heyra karabísk áhrif. Á 7. áratugnum var ska einstaklega vinsælt í Jamaíku sem og hjá breskum ungmennum.[1][2] Tónlistarmenn hins nýja ska einbeittu sér að því að uppgötva nýjan ryþma í stað þess að herma algjörlega eftir þeim R&B hljóðum og takti sem þeir heyrðu. Þeir fundu upp sérkennandi ryþma sem þróaðist svo í reggí tónlist sem tröllreið heiminum öllum og er ennþá gríðarlega vinsæl tónlistarstefna í dag. Ska náði miklum vinsældum í Bretlandi og tóku ungmenni þar í landi upp á því að spila ska með því að blanda við það pönki. Ska tónlistarstefnunni hefur oft verið skipt niður í 3 hluta: Fyrsta bylgjan; Uppruni ska í Jamaíku (7. áratugurinn, kallað „traditional“). „traditional“, sem mætti þýða sem upprunalegt, kom fyrst fram á sjónarsviðið á seinnihluta 6. áratugarins sem danstónlist frá Jamaíku sem varð fljótt vinsæl. Önnur bylgjan; hin enska 2-Tone stefna sem myndaðist í Englandi, var endurlífgun ska (8. áratugurinn). Sú stefna er kölluð 2-Tone vegna þess að á þeim áratugi komu saman bæði hvítir menn og svartir og mynduðu hljómsveitir og spiluðu saman. Þriðja bylgjan, ska hreyfing 9. áratugarins. Þriðja bylgjan markar þau tímamót er ska náði vinsældum í Bandaríkjunum á seinni hluta 9. áratugarins. Þá blandaðist smá af pönki við ska.[3]

Uppruni orðsins[breyta | breyta frumkóða]

Margir hafa lengi vel velt því fyrir sér hvaðan nafn tónlistarstefnunnar kemur, en Ernest Rangling taldi að orðið hljómaði eins og þegar slegið er á gítarstreng. Aðrar og ekki síðri kenningar hafa einnig litið dagsins ljós. Til dæmis þegar Cluett Johnson sagði í stúdíó tíma árið 1959 við gítarleikarann Ranglin að hann „ætti að spila líkt og ska, ska, ska.“ Tónlistarmaðurinn Derrick Morgan sagði að með gítar og píanói mætti gera hljóð sem hljómar eins og ska. Allt eru þetta kenningar sem gætu verið réttar en sennilega er aldrei hægt að sýna fram á hver þeirra sé réttust.

Uppruni stefnunnar[breyta | breyta frumkóða]

Líkt og með uppruna orðsins ska, er deilt um uppruna stefnunnar sjálfrar. Ein kenninganna er sú að Prince Buster hafi búið ska til þegar hann var að taka upp plötu fyrir fyrirtækið Wild Bells. Duke Reid var maðurinn sem fjármagnaði upptökurnar en hann átti svo að fá helminginn af lögunum til að gefa út. Í lögum Prince Buster var gítarinn nýttur til áherslu á öðrum og fjórða takti í línunni en þannig var þessum nýja og spennandi takti lyft upp. Trommurnar voru eins og hinar hefðbundnu trommur frá Jamaíku.

Fyrstu upptökur[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu upptökur ska tónlistarinnar voru gerðar hjá Studio One og WIRL Records í Kingston í Jamaíku. Þar voru helstu framleiðendurnir Dodd, Prince Buster og Edward Seaga. Það mátti greinilega heyra gleði landsmanna í tónlistinni sem þeir sköpuðu en árið 1962 hlaut Jamaíka sjálfstæði. Á þeim tíma voru gefin út lög á borð við Forward March eftir Derrick Morgan og Freedom Sound eftir hljómsveitina The Skatalites. Margar hljómsveitir áttu það til að taka fjöldan allan af lögum frá Bandaríkjunum og Bretlandi og setja þau í nýjan búning,eins konar ska búning. Þar má nefna lög eftir Bítlana, hljómsveit Bobs Marley, The Wailers og ýmsa sálartónlist frá Motown. Höfundaréttur var ekki vandamál þar sem Jamaíka staðfesti aldrei skilmála Berne Convention for the Protection of Literary and Artistic Works, en það er alþjóðleg samband sem stýra til dæmis virðingu höfundaréttar.[4]

Hljóðið[breyta | breyta frumkóða]

Ska tónlist var gerð til að dansa. Tónlistin er með áhersluléttum takti, hröð og spennandi. Það má þekkja ska taktinn með trommuslætti á 2. og 4. takti (fjórir fjórðu taktur) og með gítar á 2, 3, og 4. takti. Upprunalegar ska hljómsveitir innihalda bassa, trommur, gítara, hljómborð og blásturshljóðfæri, þá algengust saxafónn, básúna og trompet.[5]

Ska Explotion[breyta | breyta frumkóða]

Þann 23. mars árið 1989 var haldin ein stærsta Ska hátíð allra tíma í London, en þar spilaði aðal Ska hljómsveit þessa tíma Astoria. Hátíðin var til þess eins að fagna arfsgjöf Ska tónlistar í Bretlandi síðustu tvo áratugi. Á hátíðinni komu fram aðal sveitir 9. áratugarins sem spiluðu nútíma ska en vissulega voru líka nokkrir gamalreyndir skatónlistarmenn sem voru vel kunnugir tónlistarstefnunni. Kynnir hátíðarinnar var Judge Dread en hann spilaði einnig. Samkvæmt áhorfendum hátíðarinnar var andrúmslofið rafmagnað og stemningin varð betri og betri með hverri hljómsveitinni sem spilaði. Nokkrar af þeim hljómsveitum sem komu fram voru The Skadows með lögin Stir It Up og Low Rider, The Hot Knives með lögin Crying og Don't Go Away og svo Judge Dread með lögin Big Six, Undertaker og Skankenstein. Einnig má nefna hljómsveitirnar Laurel Aitken, Potato 5, The Deltones og The Trojans.[6]

Tónlistarmenn og hljómsveitir[breyta | breyta frumkóða]

Hér er má sjá lítið brot af öllum þeim tónlistarmönnum og hljómsveitum sem gerðu ska tónlist

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Ska Bio:“. Sótt 6. mars 2013.
  2. „Raggae and Caribbean Music Bio:“. Sótt 7. mars 2013.
  3. „Ska Bio:“. Sótt 6. mars 2013.
  4. „Ska Bio:“. Sótt 11. mars 2013.
  5. „Ska Music Basics Bio:“. Sótt 9. mars 2013.
  6. „Ska Explosion @ The Astoria in London on March 23, 1989 Bio:“. Sótt 9. mars 2013.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]