Skólaölmusa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Skólaölmusa eða ölmusa var námsstyrkur sem veittur var fyrr á öldum efnilegum skólasveinum við skólana í Skálholti og á Hólum og arftaka þeirra, Hólavallarskóla, Bessastaðaskóla og Lærða skólann í Reykjavík.

Lengst af var ölmusan ekki í formi peninga, heldur skyldu skólapiltar fá ókeypis fæði, húsnæði, ljós, þjónustu og að einhverju leyti fatnað. Ölmususveinar á Hólum voru 16 hverju sinni en 24 í Skálholtsskóla, eða alls 40. Tilgangur ölmusunnar var að gefa efnalitlum piltum kost á að mennta sig. Þeir sem teknir voru í skólann en fengu ekki ölmusu urðu sjálfir að greiða fyrir uppihald sitt og fátækir piltar sem misstu ölmusuna af því að þeir stóðu sig ekki nægilega vel urðu yfirleitt að hætta námi.

Á 18. öld var farið að skipta hluta af ölmusunum þannig að hluti nemenda fékk fulla ölmusu en aðrir hálfa og þurftu því að greiða hluta kostnaðarins sjálfir en á móti kom að sjálfsögðu að fleiri fengu námsstyrk. Margir gátu líka náð endum saman með sumarvinnu. Konráð Gíslason, sem var kominn af fátæku bændafólki sem lítið gat styrkt hann til náms, var til dæmis á hálfri ölmusu á meðan hann var í Bessastaðaskóla en stundaði sjósókn, túnaslátt og önnur störf á Álftanesi á sumrin.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Ölmusur við Lærða skólann. Baldur, 14. tölublað 1868“.
  • „Umsókn um skólaölmusu fyrir Jónas Hallgrímsson. Af www.skjaladagur.is“.