Skógræktarfélag Eyfirðinga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Skógræktarfélag Eyfirðinga var stofnað 11. maí 1930 en stofnheiti þess var Skógræktarfélag Íslands. Stofnendum þess var ekki kunnugt að stuttu síðar yrði það félag stofnað á Þingvöllum sama sumar, en eftir það breyttu þeir um nafn og tóku upp núverandi heiti félagsins. Helsti hvatamaður að stofnun félagsins var Jón Rögnvaldsson, sem var á stofnfundi kjörinn formaður félagsins og gegndi því starfi fyrstu 12 árin. Meðal þrekvirkja félagsins var að vernda síðustu leifar birkiskógar syðst í Eyjafjarðardal; Leyningshólaskóg.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Skógræktarfélag Eyfirðinga er elsta skógræktarfélag á Íslandi, stofnað þann 11. maí 1930.

Fundarboðari stofnfundar var Jón Rögnvaldsson sem jafnan var kenndur við Fífilgerði og stýrði hann stofnfundinum. Skýrði hann áform sín um stofnun félags sem hefði það eitt að markmiði að vinna að framgangi skógræktar í landinu, enda ætlun hans að félagið næði yfir landið allt. Fundarmenn samþykktu síðan samhljóða að stofna félag sem héti Skógræktarfélag Íslands. Lög félagsins hafa tekið ýmsum breytingum í tímans rás. í fyrstu lögum félagsins sem samþykkt voru á stofnfundi segir að tilgangur félagsins sé að vinna að verndun þeirra skógarleifa sem til væru og að rækta nýja skóga. Eitt af því sem félagið hugðist gera til þess að ná markmiðum sínum var að koma upp fullkomnum skógræktarstöðvum.

Fyrstu stjórn félagsins skipuðu þeir Jón Rögnvaldsson, Jónas Þór og Bergsteinn Kolbeinsson. Jón var formaður félagsins fyrstu árin.

Þann 27. júní 1930, nokkrum vikum eftir að skógræktarfélagið var stofnað, var á Alþingishátíðinni á Þingvöllum stofnað annað félag sem einnig fékk nafnið Skógræktarfélag Íslands. Tveimur árum síðar, árið 1932, var á aðalfundi eyfirska félagsins samþykkt að breyta nafni þess í Skógræktarfélag Eyfirðinga og einblína á Eyjafjarðarsýslu sem héraðsskógræktarfélag. Félagið gerðist sama ár fyrsta aðildarfélag Skógræktarfélags Íslands og er það enn í dag.

Fyrstu starfsárin voru aðalverkefni félagsins að friða skógarleifar í héraðinu, gróðursetningar, söfnun og sáning á trjáfræi og umsóknir til ýmissa aðila um fjárstuðning. Var víða leitað fanga um fjárstuðning en árangur var æði misjafn. Fyrstu áratugina komu styrkir einkum frá Akureyrarbæ, Sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu, Búnaðarsambandi Eyjafjarðar og ríkissjóði í gegn um Skógræktarfélag Íslands.

Strax eftir stofnun félagsins tók það að beita sér fyrir friðun skógarleifa í héraðinu og varð þar verulega ágengt. Nokkru var safnað af birkifræi, einkum í Vaglaskógi, og sáð í þessa friðuðu reiti en árangur mun hafa verið takmarkaður.

  • Á árinu 1931 fékk félagið til umráða og afnotarétt af landspildu við Garsárgil, þar sem skógarleifar voru í gilbarminum. Var þessi spilda girt sama ár. Þótti þetta hæfilegt byrjunarverkefni og tóku skógarleifarnar vel við sér við friðunina og hefur girðingin nú verið stækkuð oftar en einu sinni.
  • Tveimur árum síðar, 1933, fékkst leyfi ríkisins sem var eigandi jarðarinnar Vagla á Þelamörk, til þess að girða þar nokkra hektara lands, þar sem fundist höfðu smávaxnar birkiplöntur í lyngrjóðri. Þessar plöntur þóttu einnig taka mjög vel við sér eftir friðunina.
  • Árið 1936 var gerður samningur við bændur á Veigastöðum, Varðgjá og Halllandi um að afhenda landræmu til skógræktar meðfram sjónum austan við Akureyrarpoll, svonefndan Vaðlareit. Var þetta land girt um sumarið og lagði Ólafur Thorarensen, bankaútibússtjóri og lengi stjórnarmaður í skógræktarfélaginu, fram eitt þúsund krónur til verksins.
  • Árin 1936 til 1938 girti félagið mestan hluta skógarleifa í Leyningshólum, en ungmennafélögin í Eyjafirði höfðu árum saman barist fyrir því að ríkið girti þetta svæði, enda einu skógarleifarnar í Eyjafirði sem orð var á gerandi og og hægt var að tala um sem samfelldan skóg.
  • Þá gerðist það næst að 1941 var girt land að Kóngsstöðum í Skíðadal.
  • Árið 1942 fékk félagið til umráða Akureyrarbrekkurnar neðan Eyrarlandsvegar á Akureyri, en þar höfðu þá þegar nokkrir áhugamenn unnið að trjáplöntun.
  • Skógræktarfélagið fékk einnig árið 1942 umráðarétt yfir Miðhálsstöðum í Öxnadal og Skógrækt ríkisins hóf þá friðun þar en Skógræktarfélag Eyfirðinga tók við landinu aftur um 1950.
  • Þann 12. maí 1951 var valinn staður fyrir skógarreit ti minningar um Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðing, í landi Steinsstaða í Öxnadal og voru 40 þátttakendur í fyrstu gróðursetningu þann 16. júní. Lundurinn var afhentur Öxndælingum árið 1958 og þá var komið þar upp útsýnisskífu.
  • Minningarlundi um Þorstein Þorsteinsson var komið upp innan girðingar á Miðhálsstöðum árið 1953 og er hann nefndur Þorsteinslundur.
  • Fyrsta gróðursetning í reit Lárusar Rist að Botni í Eyjafirði var 18. júní 1951.
  • Skógræktarfélagið tók þátt í stofnun minningarlundar við Menntaskólann á Akureyri um Stefán Stefánsson skólameistara árið 1953.

Helstu umsjónarskógar félagsins[breyta | breyta frumkóða]

Kjarnaskógur[breyta | breyta frumkóða]

Naustaborgir[breyta | breyta frumkóða]

Garðsárreitur[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu framkvæmdir Skógræktarfélags Eyfirðinga í Garðsárreit voru að friða gilið og umhverfi þess til að freista þess að leyfa birkinu, sem í gilinu var, að sá sér út. Birkikjarr hafði þá verið í gilinu frá ómunatíð, enda illkleift mönnum og skepnum, eins og Aðalsteinn Svanur Sigfússon segir frá í grein sinni um reitinn í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar (2000). Reiturinn var fyrst girtur af árið 1931 til að vernda þessar skógarleifar.

Meðal annarra tegunda í skóginum, fyrir utan bæði plantað birki og sjálfsáð, má nefna alaskaösp en ein þeirra er hæsta tré skógarreitsins og mældist 18 m í júlí 2020 en talið er að hún hafi verið gróðursett um 1950. Mest áberandi eru þó rauðgrenitré sem stóðu snjóaveturinn 2020 vel af sér, sem víða olli miklu tjóni. Þarna má einnig finna sitkagreni, skógarfuru, lerki, bergfuru, blágreni og reynivið svo eitthvað sé nefnt.

Eitt af því sem gaman er að skoða í reitnum eru melarnir sem áður voru í skóginum. Við friðunina hafa þeir gróið smám saman upp og þegar trén fóru að bera fræ sáðu þau sér á melana svo nú eru þeir óðum að klæðast trjágróðri. Meðal þess sem finna má eru stafafurur, rússalerki, alaskaösp og ilmbjörk auk víðitegunda.

Hánefsstaðaskógur[breyta | breyta frumkóða]

Upphafsmaður skógræktar að Hánefsstöðum var Eiríkur Hjartarson rafmagnsverkfræðingur en hann keypti jörðina um 1940 og hóf skógrækt 1946. Eiríkur var fæddur árið 1885 að Uppsölum og ólst þar upp, en Uppsalir eru beint fyrir ofan Hánefsstaði.

Ungur fór Eiríkur til Ameríku og nam þar rafmagnsverkfræði. Þar kynntist hann konu sinni, Valgerði Halldórsdóttur, en hún var fædd í Norður-Dakóta og var af íslenskum ættum. Heim flutti Eiríkur árið 1918.

Í Laugardalnum í Reykjavík byggði hann sér íbúðarhús ásamt gróðurhúsi og ræktunarbeðum þar sem nú er Grasagarðurinn. Gerði hann tilraunir með tegundir sem ekki höfðu verið reyndar hér á landi.

Girðing var reist í kringum reitinn á árunum 1945–1946 og var það mikið mannvirki sem stendur enn að nokkru leyti. Staurar þurftu að vera með stuttu millibili því snjóþungt er í Svarfaðardal.

Gróðursetning hófst af krafti árið 1946 og mætti Eiríkur að minnsta kosti næstu tíu árin á hverju vori með fullhlaðna jeppakerru af trjáplöntum norður í Svarfaðardal. Í dagbókum lýsir hann þessum ferðum sem ekki voru allar auðveldar. Með Eiríki voru jafnan Valgerður kona hans, Hjörtur sonur þeirra og Una systir Eiríks. Höfðu þau til afnota efstu hæðina að Hánefsstöðum. Ýmsir nágrannar voru fengnir til að gróðursetja og halda við girðingum. Eiríkur útbjó tjörn nyrst í skóginum og sleppti þar silungum sem svo dóu á frosthörðum vetri er tjörnin botnfraus.

Árið 1965 ánafnaði Eiríkur Skógræktarfélagi Eyfirðinga jörðina Hánefsstaði ásamt skógarreitnum. Jörðin var í eigu skógræktarfélagsins fram yfir 1980 en var þá seld að undanskildum skógarreitnum og andvirði varið til að byggja upp og þróa plöntuframleiðslu. Eiríkur lést árið 1981 og reisti fjölskyldan minnisvarða um hann í reitnum árið 1998.

Skógræktarfélagið tók við umhirðu reitsins árið 1965 og hafði þá um nokkurt skeið séð um útplöntun. Reiturinn var endurgirtur árið 1992 en á árunum í kringum 1980 var átak gert í að grisja reitinn og planta inn í eyður. Miklu hafði verið plantað af skógarfuru sem féll að mestu í lúsafaraldri.

Árið 1999 var gerður samningur við Dalvíkurbyggð um að Hánefsstaðaskógur yrði útivistarsvæði Dalvíkinga og Svarfdælinga. Í því fólst að komið yrði upp snyrtingum, leiktækjum, grillaðstöðu auk göngustíga.

Laugalandsskógur[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1979 sendi Skógræktarfélag Eyfirðinga fyrirspurn á landeigendur Laugalands á Þelamörk og  óskaði eftir því að sá hluti jarðarinnar sem stóð austan þjóðvegar yrði friðaður. Landeigandi svæðisins á þeim tíma var Legatssjóður Jóns Sigurðssonar. Erindi skógræktarfélagsins var vel tekið og í framhaldi var undirritaður samningur milli skógræktarfélagsins og þáverandi Sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu. Samningurinn gekk út á að félagið fengi land til skógræktar að Laugalandi. Framkvæmdir við friðun hófust árið 1980, á 50 ára afmælisári Skógræktarfélags Eyfirðinga, með girðingarvinnu og í kjölfarið hófust gróðursetningar. Á fyrstu 10 árunum voru gróðursettar á svæðinu tæplega 200.000 plöntur, mest megnis barrtré sem hugsuð voru sem jólatré framtíðarinnar. Á fyrstu árum gróðursetningar á Laugalandi skapaðist sú hefð að nýstúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri kæmu þangað í gróðursetningaferð að afloknu síðasta prófi að vori. Þessi hefði mun hafa haldist lengi, sem og sú hefði að júbílantar heimsæki lundina sína í tengslum við júbílantahátíðir í júní á hverju ári.

Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem skráð var 1712, segir um Laugaland á Þelamörk að skógur væri þar víða til eldiviðar en lítið til kolagerðar. Reynslan hefur sýnt að víðast hvar á svæðinu þar sem land er friðað er náttúrulegt birki að finna. Skógrækt á Laugalandi hefur gengið ágætlega og eru aðstæður þar ákjósanlegar til ræktunar flestra trjátegunda. Svæðið er fremur snjólétt og hentar vel til skógræktar almennt.

Í dag er flatarmál skógarins um 100 ha og helstu trjátegundir í skóginum eru stafafura, lerki, birki og rauðgreni, en auk þess má finna ýmsar aðrar tegundir. Búið er að merkja margar þeirra. Um árabil hefur verið höggvið nokkurt magn af stafafuru og hún seld sem jólatré. Auk þess hefur fólki verið boðið að koma í skóginn og höggva sitt eigið tré í desember. Margar norðlenskar fjölskyldur hafa fundið draumajólatréð sitt í Laugalandsskógi.

Skógurinn er svokallaður „Opinn skógur“ en í því felst að lögð hefur verið áhersla á að bæta aðgengi fyrir alla um skóginn, miðla upplýsingnum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu og gera skóginn eftirsóknarverðan til áningar, útivistar og heilsubótar. Í skóginum eru góð berja- og sveppasvæði.

Leyningshólaskógur[breyta | breyta frumkóða]

Innarlega í Eyjafjarðardal í landi jarðanna Villingadals og Leynings er frumskógurinn í Leyningshólum, frumskógur í þeirri merkingu að þar eru einu upprunalegu skógarleifarnar í Eyjafirði sem mynda samfelldan skóg. Á upphafsárum Skógræktarfélags Eyfirðinga áttu þessar skógarleifar undir högg að sækja sökum ágangs búfjár og uppblásturs. Skógræktarfélagið réðst því í það stórvirki að girða Leyningshóla á árunum 1936-1937 eftir að hafa gert samning við landeigendur og náði þannig að bjarga mestum hluta skógarleifanna frá gjöreyðingu.

Trjágróðri innan girðingar fór mikið fram í kjölfarið miðað við trjágróður utan girðingar og má enn í dag sjá þennan mun. Á 6. og 7. áratug síðustu aldar var talsvert gróðursett af barrtrjám í Leyningshólum þannig má finna nokkuð stálpað rauðgreni, sitkagreni, broddgreni og starafuru þar í dag en árangur var kannski ekki eins og vonir stóðu til með þessar tegundir. Öðru máli gegnir hvað varðar lerki sem gróðursett var á tímabilinu 1956-1961 í norðanverðum skóginum. Þremur mimsunandi kvæmum var plantað og hafa þau þrifist mjög vel, óvíða má finna jafn beinvaxið og þróttmikið lerki og Raivolalerkið í Leyningshólum.

Síðustu þrjátíu árin hefur áhersla skógræktarfélagsins miðað við að viðhalda Leyningshólum og birkiskóginum sem náttúruminjum og því innfluttar trjátegundir ekki verið gróðursettar síðan á 9. áratugnum. Því mun meira hefur verið lagt í að leggja og viðhalda vegarslóðum og göngustígum um skóginn enda býður svæðið upp á skemmtilegar og fjölbreyttar gönguleiðir þó snarbrattar brekkur geri sumsstaðar erfitt um vik.

Af mörgum perlum eyfirskra skóga eru Leyningshólar ein sú dýrmætasta og ómetanlegt það framtak frumherja Skógræktarfélagsins og landeigenda að bjarga skóginum frá eyðingu.

Miðálsstaðaskógur[breyta | breyta frumkóða]

Saga skógarins á Miðhálsstöðum í Öxnadal er all sérstæð. Skógræktarfélag Eyfirðinga fékk umráðarétt yfir eyðibýlinu Miðhálsstöðum árið 1942 en gekk ekki í digra sjóði það árið og treysti sér ekki til að girða landið. Skógrækt ríkisins var þá fengin að borðinu og hafði með Miðhálsstaði að gera til 1950. Þá var gert samkomulag um að Skógræktarfélag Eyfirðinga tæki við landinu að nýju og það var loks girt á árunum 1950 - 1951, alls um 50 ha lands. 1972 var síðan girðingin stækkuð og er nú 70 ha.

Frá upphafi var vitað um birkileifar í smáum stíl á Miðhálsstöðum og gerðu menn sér vonir um sjálfgræðslu birkiskógar eftir friðun. Fljótlega kom þó í ljós að þær vonir gengu ekki eftir, enda landið þurrt og hrjóstrugt að mestu leyti.

Gróðursett var af kappi í landið frá 1952 -1965 og voru sjálfboðaliðar atkvæðamiklir þar eins og í mörgum öðrum reitum félagsins. Eftir stækkun girðingarinnar 1972 kom aftur nokkur kippur í gróðursetningar og svo enn á árunum milli 1988 og 1998. Alls hafa verið gróðursettar rúmlega 350.000 plöntur á Miðhálsstöðum. Margar algengustu trjátegundir í íslenskri skógrækt má finna á Miðhálsstöðum. Mest áberandi tegundir skógarins eru birki, rússalerki og stafafura. Auk þess sem talsvert er um blágreni, broddgreni og mýrarlerki en ef tilnefna ætti merkilegustu tré skógarins er helst að nefna evrópulerki frá Graubunden sem var gróðursett 1963. Gróðursettar voru 7.000 plöntur sem mynda dálítin reit í norðvestur horni skógarins og er hann áberandi í október lok þegar hann stendur fagurgrænn en öll önnur lerki hafa haustað sig og fellt barrið. Önnur merkileg gróðursetning á Miðhálsstöðum er sunnarlega í skóginum og er það Kúrileyjalerki, gróðursetning frá 1954 af fræi sem kom frá Mustila í Finnlandi. Þessi tré eru all sérstæð í vaxtarlagi og sjaldgæf á Íslandi. Móðurtrén í Mustila eru af dáríulerki frá kúrileyjum en um faðernið er ekkert hægt að fullyrða þar sem í Mustila ægir saman lerki frá öllum heimsálfum og óvíst um hvaða leið frjókornin berast með vindi milli trjáa.

Skógrækt á Miðhálsstöðum hefur heilt yfir gengið vel og þar er nú upp sprottinn hin fegursti skógur með stórum og digrum trjám. Í skjóli trjánna er gott að vera enda alltaf gott veður og fuglasöngur. Ef fólk er á ferðinni seinnipart sumars og fram á haust þá er talsvert af hrútaberjum í skóginum og eftir hæfilegar rigningar er hægt að finna þar mikið af bæði lerkisvepp og furusvepp.

Í gegnum skóginn liggur vegslóði sem er sæmilega fær fyrir 4x4 bíla og gangandi. Ekki er um aðra gönguslóða að ræða í skóginum en fólk er þó hvatt til að njóta skógarins utan sem innan slóða allan ársins hring.

Vaðlaskógur[breyta | breyta frumkóða]

Vaðlaskógur.

Árið 1936 gerði Skógræktarfélag Eyfirðinga samning við eigendur jarðanna Varðgjár, Veigastaða og Halllands um að tiltekin landspilda úr landi jarðanna yrði afhent skógræktarfélaginu til skógræktar. Sá samningur er enn í fullu gildi og hófst gróðursetning sama ár. Landspilda þessi liggur í sjó fram á um tveggja kílómetra svæði. Landslag og gróðurfar er þar fjölbreytt en var algerlega skóglaust þegar félagið fékk landið til skógræktar. Hið fjölbreytta land, mýrar, móar, melar og klappir býður því heim að rækta fjölbreyttan skóg. Má með sanni segja að það hafi tekist býsna vel. Segja má að að fullu hafi verið plantað í landið árið 1970. Eftir það hefur verið plantað fágætari tegundum til skrauts í skóginn. Þriðja febrúar 1991 féll fjöldi trjáa í miklu roki í skóginum. Einkum féll þá lerki í reit sem nýlega hafði verið grisjaður. Þetta gaf félaginu upplagt tækifæri til að gróðursetja fágæt skógartré í gott skjól. Þar má meðal annars sjá glæsilegan síberíuþin, garðahlyn, álm, hvítþin, ask og fleira.

Mest hefur verið gróðursett af birki í reitnum en því var einnig sáð í rásir. Birkið er einkum af tvennum uppruna. Annars vegar frá Vöglum en hins vegar úr Bæjarstað. Mikill munur sést á þessum kvæmum, einkum á haustin þegar norðanbirkið fer fyrr í haustliti. Næst mest var gróðursett af skógarfuru en eins og víðast hvar um landið drapst mikið af henni af völdum furulúsar. Enn má þó finna stæðilegar skógarfurur í skóginum og fyrstu sjálfsánu skógarfurur á landinu fundust þar árið 1990.

Meðal annarra tegunda sem þarna má finna eru ýmsar grenitegundir, stafafura, lindifura og bergfura, fjallaþinur, reynir, ýmsar víðitegundir og er þó ekki allt upp talið.

Ýmsar tegundir hafa bætt við ríki sitt í Vaðlareit. Sitkagreni, stafafura og lindifura hafa sáð sér töluvert. Einnig birkið og reynirinn. Blæöspin myndar ekki fræ en skríður þeim mun meira. Íslensku víðitegundirnar loðvíðir, gulvíðir og fjallavíðir (grávíðir) eru víða áberandi og í skógarbotninum má finna blágresi, elftingu, hrútaber og fleira. Þar má einnig sjá væna breiðu af bláfíflum sem annars teljast almennt til garðjurta á Íslandi.

Einn lundur í landinu hefur valdið miklum heilabrotum. Það er lundur af blæösp neðan við þjóðveginn. Ekkert er í gerðarbókum félagsins um að henni hafi verið plantað þarna en verður það þó að teljast líklegt. Um tíma flutti félagið inn trjáplöntur frá Noregi til að planta í reitinn og má vera að blæöspin hafi komið þaðan. Annars vex blæösp villt á Íslandi á fáeinum stöðum og því er ekki hægt að útiloka að hún hafi leynst þarna frá ómunatíð en farið að vaxa þegar reiturinn var friðaður á sínum tíma.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Ásýnd Eyjafjarðar - Skógar að fornu og nýju - Útg. 2000
  • Heimasíða Skógræktarfélags Eyfirðinga, www.kjarnaskogur.is[1]
  1. „Forsíða“. kjarnaskogur.is (enska). Sótt 26. mars 2022.