Sjómannasamband Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sjómannasamband Íslands er landssamtök íslenskra sjómanna. Sambandið er aðili að Alþýðusambandi Íslands. Formaður er Valmundur Valmundsson og framkvæmdastjóri er Hólmgeir Jónsson. Hlutverk félagsins er að gæta hagsmuna sjómanna og standa að gerð kjarasamninga við íslenska ríkið.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Sjómannasamband Íslands var stofnað 24. febrúar árið 1957. Stjórnendur Sjómannafélags Reykjavíkur voru aðalhvatamenn að stofnun sambandsins, sérstaklega með það fyrir augum að styrkja aðstöðu sjómannastéttarinnar við samninga um kaup og kjör, svo og til aukinna áhrifa á ríkisstjórn og löggjafavald varðandi hin ýmsu mál, er hún varð að sækja eða vera á verði um á þeim vettvangi.

Stofnfundurinn var haldinn dagana 23. og 24. febrúar 1957. Á fundinum síðari daginn var samþykkt að stofna sambandið, lög fyrir það samþykkt og bráðabirgðastjórn kosin til framhaldsstofnfundar, er haldinn skyldi um haustið. Í fyrstu stjórn voru kosnir Jón Sigurðsson og Hilmar Jónsson frá Sjómannafélagi Reykjavíkur og Magnús Guðmundsson frá Matsveinafélaginu, en þau tvö félög voru fyrstu stofnendurnir. Framhaldsstofnfundur var haldinn um haustið 19. og 20. október það sama ár. Þá voru gerðar smávægilegar breytingar á lögum sambandsins og kosin 5 manna stjórn, eins og lögin gerðu ráð fyrir. Þessir voru kosnir: Jón Sigurðsson, Reykjavík, formaður, og meðstjórnendur þeir: Magnús Guðmundsson, Garðahreppi, Hilmar Jónsson, Reykjavík, Ólafur Björnsson, Keflavík og Ragnar Magnússon, Grindavík. Svo litla trú hafði þáverandi forysta Alþýðusambands Íslands á tiltækinu, að hún sendi ekki færri en þrjú mótmælabréf gegn þessu til sjómannafélagana, þar sem forystumennirnir óttuðust mjög, að við þessa breytingu myndu sjómannafélögin ganga úr Alþýðusambandinu. Einn af stofnendum Sjómannasambandsins og fyrsti formaður, Jón Sigurðsson, var fyrrum fyrsti erindreki og framkvæmdastjóri ASÍ, sem allan sinn starfstíma hjá Alþýðusambandinu hafði unnið að því hörðum höndum að koma hverju nýstofnuðu verkalýðsfélagi þangað inn. Forysta ASÍ þekkti því þennan fyrrum starfsmann sinn ærið illa, ef þeir héldu, að hann myndi ekki gera gangskör að því, að Sjómannasambandið og aðildarfélög þess yrðu innan vébanda ASÍ, enda leið ekki langur tími, áður en hann sendi forystu ASÍ bréf þess efnis, að Sjómannasambandið æskti þess að vera aðili að ASÍ, þó að það fengi ekki upptöku í ASÍ fyrr en á þingi þess í nóvembermánuði 1960. Jón Sigurðsson gegndi formennsku í Sjómannasambandinu til 1976. Þá tók Óskar Vigfússon 1976 en hann lést árið 2006 en þá tók Sævar við af honum, og var kjörinn formaður sambandsins árið 2006, en hætti árið 2014. Í hans stað var Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum kosinn formaður sambandsins.

Aðildarfélög[breyta | breyta frumkóða]

Í dag eiga 23 sjómanna- og verkalýðsfélög aðild að sambandinu. Um áramótin 2007 sameinuðust Sjómannafélag Reykjavíkur og Matsveinafélag Íslands undir nafninu Sjómannafélag Íslands og sögðu sig úr Sjómannasambandinu.

Aðildarfélög
  • Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis
  • Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis
  • Verkalýðs- og sjómannafélagið Boðinn
  • Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar
  • Verkalýðsfélag Snæfellsbæjar
  • Verkalýðsfélagið Stjarnan
  • Verkalýðsfélag Stykkishólms
  • Verkalýðsfélag Vestfirðinga
  • Verkalýðsfélag Þórshafnar
  • Verkalýðsfélagið Vaka
  • Vökull Stéttarfélag

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  • Vinnan - Alþýðusamband Íslands 50 ára - 1916-1966.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]