Sigurhjörtur Jóhannesson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sigurhjörtur Jóhannesson (fæddur 1855 á Grýtu í Höfðahverfi, d. 1926 á Urðum) var bóndi á Urðum í Svarfaðardal. Faðir hans var Jóhannes Halldórsson bóndi á Urðum, ættaður frá Grýtubakka í Höfðahverfi. Móðir hans var Anna Guðlaugsdóttir hreppstjóra og bónda í Svínárnesi á Látraströnd.

Æviferill[breyta | breyta frumkóða]

Sigurhjörtur kom barnungur í Urðir með foreldrum sínum þegar þau keyptu jörðina árið 1863. Sigurhjörtur hóf búskap sinn á Urðum upp úr 1880 og mun hafa byrjað búskapinn með heldur litlum efnum. Þá var harðæri í landi eitt hið mesta er frásagnir greina. Hann átti jörðina fyrst í stað með móður sinni en eignaðist hana að síðar að fullu. „Á hans búskaparárum verða Urðir aftur að nafnkenndum stað og mannmörgu myndarheimili“ segir Runólfur í Dal í eftirmælum sínum um Sigurhjört.[1]

Urðakirkja sem Sigurhjörtur Jóhannesson lét reisa eftir að gamla kirkjan fauk í kirkjurokinu mikla árið 1900.

Urðir eru kirkjustaður og voru lengi annexía frá Tjörn. Kirkjan þar var bændakirkja um aldir. Jóhannes Halldórsson eignaðist því kirkjuna þegar hann keypti jörðina með gögnum og gæðum 1863. Sigurhjörtur eignaðist hana síðan. Í Kirkjurokinu mikla 20. september árið 1900 fauk kirkjan af grunni og brotnaði í spón. Sigurhjörtur lét gera nýja kirkju á staðnum og stendur hún þar enn. Hún var vígð 1902. Altaristaflan í gömlu kirkjunni var forláta málverk sem Sigurhjörtur hafði fengið sveitunga sinnArngrím málara til að gera. Taflan skemmdist mikið í rokinu, umgjörðin eyðilagðist og myndin rifnaði. Sigurhjörtur lét gera við töfluna og er hún enn í Urðakirkju. [2] Sigurhjörtur stóð fyrir búi sínu á Urðum til 1916 en þá tók Elín dóttir hans við búinu með manni sínum Ármanni Sigurðssyni. Sigurhjörtur dvaldi á Urðum til æviloka og annaðist þá m.a. símavörslu, en á Urðum var fyrsta landsímastöðin í Svarfaðardal.

Fyrri kona Sigurhjartar var Soffía Jónsdóttir (1854-1894) frá Litlulaugum í Þingeyjarsýslu. Runólfur í Dal lýsir henni þannig: „... fyrir því hefi eg fulla vissu, að hún þótti hér í Svarfaðardal, um fríðleika og kvenlegan þokka í fremstu röð og eftirsóttur kvenkostur.“ Dætur þeirra voru: Þorbjörg 1882-1969, Arnfríður Anna 1884, Elín 1886-1936, Sigrún 1888-1959, Þórunn 1890-1930.

Til er nafnavísa um Urðasystur eftir Hólmfríði Benediktsdóttur þar sem þær eru taldar upp í aldursröð:

Þorbjörg, Anna Arnfríður
Elín, Sigrún, Þórunn.
Hópur svanna sjálegur
sést í ranni fjörugur.

Seinni kona Sigurhjartar var Friðrika Sigríður Sigurðardóttir (1858-1914) frá Draflastöðum í Fnjóskadal. Friðrika þótti hagsýn og stjórnsöm húsmóðir, heilsteypt í skoðunum og smekkvís. [3] Börn þeirra voru Soffía 1899 og Sigfús 1902. Sigurhjörtur var jarðaður í gamla kirkjugarðinum á Urðum, en ekki er vitað nákvæmlega, hinsvegar er minningarsteinn um hann staðsettur í garðinum

Nokkrir afkomendur[breyta | breyta frumkóða]

Mikil ætt, Urðamenn, er komin út af Sigurhirti og konum hans, þeim Soffíu og Friðriku. Meðal afkomenda þeirra eru: Kristján Eldjárn, forseti, Hjörtur E. Þórarinsson, bóndi, Gísli Jónsson, íslenslufræðingur, Adda Bára Sigfúsdóttir, veðurfræðingur, Þórarinn Eldjárn, skáld, Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, Sigrún Eldjárn, myndlistarmaður, Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlafræðingur og fréttamaður, Ingibjörg Hjartardóttir, rithöfundur, Sigríður Pálmadóttir tónlistarkennari, Kolbeinn Bjarnason, flautuleikari, Sigurður Flosason, saxófónleikari, Kristján Andri Stefánsson, sendiherra, Stefán Hallur Stefánsson, leikari, Hallfríður Þórarinsdóttir, mannfræðingur, Pálmi Sigurhjartarson, píanóleikari, Jörundur Ragnarsson, leikari, Ari Eldjárn, uppistandari, Hugleikur Dagsson, rithöfundur, Þrándur Þórarinsson, málari, Ása Helga Hjörleifsdóttir, kvikmyndaleikstjóri.


Um nafnið Sigurhjörtur[breyta | breyta frumkóða]

Gísli Jónsson íslenskufræðingur hefur bent á að Sigurhjörtur á Urðum bar fyrstur manna þetta nafn. [4] Móðir hans, Anna Guðlaugsdóttir frá Svínárnesi, var greind kona og um sumt sérstæð, segir Gísli og bætir því við að hann hafi traustar heimildir fyrir því að hún hafi búið til nafnið Sigurhjörtur á son sinn. „Þótti henni það glæsilegt. Nafnliðurinn sigur var henni hugstæður, sbr. dætranöfnin Sigurlaug og Sigurlína, hjörturinn prýðilegt dýr og tákn Krists að fornu ...“ Í manntalinu 1855 heitir enginn Sigurhjörtur nema sonur Önnu. Í manntalinu 1910 eru einungis fimm Sigurhirtir og þar er Sigurhjörtur á Urðum langelstur en hinir fjórir allir fæddir í Urðasókn í Svarfaðardal. Nafnið er fátítt enn í dag, í þjóðskrá árið 2014 eru fimm Sigurhirtir.


Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Björn R. Árnason 1960. Sterkir stofnar. Þættir af Norðlendingum. Kvöldvökuútgáfan Akureyri
  2. Kristján Eldjárn 1983. Arngrímur málari. Iðunn, Reykjavík
  3. Stefán Aðalsteinsson 1978. Svarfdælingar. Annað bindi. Iðunn, Reykjavík
  4. Gísli Jónsson 1997. Íslenskt mál. Þáttur 885. Morgunblaðið 25. Jan. 1997