Sviss

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Schweiz)
Svissneska ríkjasambandið
Schweizerische
Eidgenossenschaft (þýska)
Confédération suisse (franska)
Confederazione Svizzera (ítalska)
Confederaziun svizra (rómanska)
Confoederatio Helvetica (latína)
Fáni Sviss Skjaldarmerki Sviss
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Unus pro omnibus, omnes pro uno (latína)
Einn fyrir alla, allir fyrir einn
Þjóðsöngur:
Schweizerpsalm
Staðsetning Sviss
Höfuðborg Það er engin skilgreind höfuðborg í Sviss, en þingið og stjórnin eru í Bern.
Opinbert tungumál Franska, ítalska, retórómanska, þýska
Stjórnarfar Sambandsríki með beint lýðræði

Meðlimir alríkisráðs Guy Parmelin (forseti)
Ignazio Cassis (varaforseti)
Alain Berset
Ueli Maurer
Simonetta Sommaruga
Viola Amherd
Karin Keller-Sutter
Sjálfstæði frá Heilaga rómverska ríkinu
 • skv. Rütlischwur 1291 
 • de facto 1499 
 • de jure 1648 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
135. sæti
41.285 km²
4,34
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar
99. sæti
8.570.146
207/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 584 millj. dala (38. sæti)
 • Á mann 67.557 dalir (9. sæti)
VÞL (2019) 0.955 (2. sæti)
Gjaldmiðill franki
Tímabelti UTC+1 (+2 á sumrin)
Þjóðarlén .ch
Landsnúmer ++41

Sviss er landlukt ríki í Mið-Evrópu og er í miðjum Alpafjöllum. Sviss er þekkt fyrir hlutleysisstefnu sína og hefur ekki tekið þátt í neinum stríðsátökum á 20. eða 21. öld. Sviss hefur talsverða sérstöðu á Vesturlöndum sökum mikils beins lýðræðis og þjóðaratkvæðagreiðslna. Sviss er ekki aðili að Evrópusambandinu en þar eru þó skrifstofur ýmissa alþjóðastofnanna, svo sem Sameinuðu þjóðanna.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Opinbert heiti landsins, Confoederatio Helvetica (Svissneska ríkjasambandið eða Eiðsambandið Sviss), er á latínu til þess að forðast að gera upp á milli hinna fjögurra tungumála landsins. Landið á sér einnig opinber heiti á öllum fjórum tungumálum sínum og eru þau þessi: Schweizerische Eidgenossenschaft (þýska); Confédération Suisse (franska); Confederazione Svizzera (ítalska); Confederaziun Svizra (rómanska). Confoederatio merkir samband eða bandalag. Helvetica er nefnt eftir gamla keltneska þjóðflokknum Helvetum sem bjó á svæðinu á tímum Rómverja.

Heitið Sviss er dregið af bæjarnafninu Schwyz, sem síðar gaf kantónunni Schwyz nafn, en hún var ein af héruðunum þremur sem mynduðu upprunalega bandalagið. Íbúar Schwyz voru þekktir fyrir að vera dugandi hermenn og gátu sér gott orð sem slíkir, ekki síst eftir orrustuna við Sempach 1386. Það var þó ekki fyrr en með Sigismundi keisara í upphafi 15. aldar að hugtakið Sviss náði almennri útbreiðslu.

Nafnið á þorpinu Schwyz er fyrst skrásett árið 972 og þá á forminu Svittes (Suittes). Líklegt má telja að þetta orð merki sveitir, það er að segja hersveitir. Menn frá Schwyz eru nefndir Schwyzer og með tíð og tíma var Schwyzerland notað yfir Sviss allt.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Tellsögnin[breyta | breyta frumkóða]

Opinbert innsigli Helvetíska lýðveldisins með myndefni úr Tellsögninni

Svæðið sem nú heitir Sviss tilheyrði heilaga rómverska ríkinu um aldir. Friðrik II. keisari gerði borgirnar Bern, Zürich, Schaffhausen og Freiburg að fríborgum til að tryggja sér aðgöngu að Alpaskörðunum og þjóðleiðunum til Ítalíu. Að öðru leyti réð Habsborgaraættin yfir svæðinu í kring. Vilhjálmur Tell er þjóðhetja Svisslendinga. Sagan segir að Tell hafi blöskrað yfirráð fógetans Gesslers, sem var á mála hjá Habsborgurum. Gessler setti til dæmis upp hatt sinn á stöng í borginni Altdorf í Uri og fyrirskipaði að allir ættu að hneigja sig fyrir honum. Tell hafi þó neitað þessu og gengið framhjá hattinum án þess að virða hann. Þá tók Gessler til bragðs að handtaka Tell og fyrirskipaði honum að skjóta epli af höfði syni sínum. Þegar honum tókst það, fékk Tell að halda frelsi sínu. En skömmu seinna sat Tell fyrir Gessler og skaut hann til bana með lásboga sínum. Þetta varð til þess að íbúar þriggja héraða hittust í fjalllendinu Rütli við Vierwaldstättersee og gerðu með sér bandalag gegn yfirráðum Habsborgara. Í dag er ekki vitað hvort sögnin af Tell er sönn en hún er skráð í ýmsum heimildum, þar á meðal í Þiðreks sögu sem rituð var á norrænu á miðöldum.

Eiðssambandið[breyta | breyta frumkóða]

Stofnskjal Sviss

Hvað sem Tellsögninni líður, hittust fulltrúar þriggja héraða (Uri, Schwyz og Nidwalden) árið 1291 og stofnuðu bandalag til varnar yfirgangi Habsborgara. Stofnskjalið er enn til og er geymt í skjalasafni í Schwyz. Á skjalinu eru fulltrúar Nidwalden mættir en þeir notuðu innsigli Obwalden. Nidwalden og Obwalden eru hálfkantónur og mynda saman kantónuna Unterwalden. Því má segja að fjórar kantónur hafi stofnað Sviss sem eiðssamband. Það var þó ekki fyrr en 1315 að Habsborgarar náðu að safna saman liði og gengu til orrustu við uppreisnarmenn í Sviss. Það var Leópold, bróður gagnkonungsins Friðriks frá Austurríki, sem leiddi liðið til orrustu. En Svisslendingar voru reiðubúnir og sátu fyrir herliðinu í þröngum dal við Morgarten á landamærum Uri og Schwyz. Þar beið Habsborgarherinn algjöran ósigur. Á næstu áratugum gengu fleiri héruð til liðs við svissneska sambandið. 1332 var það Luzern, 1351 Zürich, 1352 Glarus og Zug, og loks Bern 1353. Um miðja 14. öld var svissneska sambandið orðið að nokkuð sterku ríki, þrátt fyrir að Habsborgarar reyndu enn að þvinga héruðin til hlýðni og sameina þau undir yfirráð sín.

Orrustur og sjálfstæði[breyta | breyta frumkóða]

1386 réðust Habsborgarar á ný inn í Sviss. Það dró til orrustu sem háð var við Sempach. Orrusta þessi var hápunktur í baráttu Habsborgara við hina eiðsvörnu. Í henni sigruðu Svisslendingar og með þessum sigri var stórt skref stigið í átt að sjálfstæði landsins. Tveimur árum síðar voru Habsborgarar aftur á ferð. Í orrustunni við Näfels sigruðu Svisslendingar enn á ný en þetta var síðasta orrustan milli þessara tveggja aðila. Eftir tap Habsborgara sömdu þeir frið við hina eiðsvörnu, fyrst til sjö ára, en síðan til 20 ára. Þeir hættu öllu tilkalli til landa hinna eiðsvörnu og misstu þar með þjóðleiðirnar yfir Alpaskörðin. Sviss naut því friðar næstu aldir. 1474 fór svissneskur her að tilstuðlan keisarans Friedrichs III. til Búrgundar og eyddu því ríki. Svisslendingar þóttu nefnilega afbragðs hermenn og voru eftir þetta vinsælir málaliðar. Til dæmis eru varðmenn páfa eingöngu skipaðir Svisslendingum allt frá 1506. Eftir sigurinn á Búrgundum var Sviss orðið sterkt ríki í Mið-Evrópu. Það hélt að sama skapi áfram að vaxa. 1481 bættust Fribourg (Freiburg) og Solothurn við sem kantónur. Eftir Sváfastríðið 1499, sem Svisslendingar tóku þátt í, viðurkenndi Maximilian I. keisari Sviss sem sjálfstætt ríkjasamband fyrir hönd hins heilaga rómverska ríkis. Lögformlega séð var það þó enn hluti af því ríki allt til 1648, er friðarsamningarnir eftir 30 ára stríðið voru gerðir. 1501 bættust við Schaffhausen og Basel (sem seinna klofnaði í Basel-Stadt og Basel-Landschaft). Loks bættist Appenzell við 1513. Næstu kantónur bættust ekki við fyrr en tæpum 300 árum síðar.

Trúarumrót[breyta | breyta frumkóða]

Ulrich Zwingli hóf fyrstur manna siðbótina í Sviss

1515 töpuðu svissneskir málaliðar orrustunni við Marignano á Norður-Ítalíu gegn Frans I. Frakklandskonung. Þetta varð til þess að Sviss lýsti yfir hlutleysi og hefur það haldist æ síðan. Einn af þeim sem lifði orrustuna við Marignano af var Svisslendingurinn Ulrich Zwingli. Hann hóf síðan eigin siðbót á kristinni trú í heimaborg sinni Zürich, sem leiddi til þess að stofnuð var ný kirkja 1522 (Reformierte Kirche). Þetta var fimm árum eftir mótmæli Lúthers í Wittenberg, en þó áður en lútherska kirkjan varð til. Nýja kirkjan breiddist hratt út í Sviss, sérstaklega um norðanvert landið. Í austanverðu landinu var kaþólska kirkjan hins vegar enn alls ráðandi. Þetta leiddi til nokkurra innanríkisátaka (kölluð Kappeler-stríðin). Um miðja 16. öldina hóf Jean Cauvin (Jóhann Kalvín) siðbótarstarf sitt í borginni Genf (sem þá var ekki hluti ríkjasambandsins, en þó tengd því). Úr því varð einnig ný kirkja sem breiddist hratt út, ekki bara í Sviss, heldur víða í Evrópu. Kalvínisminn skaut sterkum rótum í Frakklandi, Englandi og Niðurlöndum en þaðan barst hann til Ameríku. Gagnsiðbót kaþólsku kirkjunnar seint á 16. öld tókst ekki að hindra útbreiðslu nýju kirknanna, en hún varð til þess að kantónan Appenzell klofnaði í tvennt 1597 í Appenzell Innerrhoden og Appenzell Ausserrhoden, sem tilheyrðu sitthvorri kirkjunni. Svissneskir meðlimir nýju kirknanna studdu Húgenotta í trúarstríðinu í Frakklandi af miklum dugnaði.

Napoleonstríðin[breyta | breyta frumkóða]

Sviss meðan Helvetíska lýðveldið var við lýði

1798 ruddust Frakkar inn í Sviss og hertóku landið. Að tilstuðlan Napóleons, sem þá var orðinn einvaldur, var Sviss breytt í lýðveldi sem fékk heitið Helvetíska lýðveldið. Frakkar höfðu einnig hertekið nærliggjandi landsvæði og stækkuðu lýðveldið talsvert. 1803 voru héruðin St. Gallen, Graubünden, Aargau, Thurgau, Ticino og Vaud sameinuð lýðveldinu en Genf var innlimað í Frakkland. Sviss var í raun leppríki Frakka á þessum tíma meðan Napóleons naut við. Eftir hrakfarir hans í Rússlandsleiðangrinum leystist Helvetíska lýðveldið upp og hið gamla ríkjasamband tók gildi á nýjan leik. Nokkurrar spennu gætti þó milli hinna gömlu og nýju kantóna þannig að lá við borgarastríði. Það var þó ekki fyrr en Vínarfundurinn úrskurðaði 1815 að nýju kantónurnar skyldu tilheyra ríkjasambandinu að friður komst á. Auk þess var Genf bætt við á ný, og sömuleiðis Valais og Neuchâtel. Hlutleysi landsins var auk þess alþjóðlega viðurkennt.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Þinghúsið í Bern

Með 19. öldinni þróaðist Sviss á öllum sviðum þjóðfélagsins. Byltingarkenndir straumar bárust þangað og leiddi þetta til þess að róttækar breytingar voru gerðar á innviðum þjóðfélagsins. 1847 var nútíma sambandsríkið stofnað, ári fyrir byltinguna miklu í Evrópu. Ákveðið var að kalla saman þing árlega í borginni Bern en að sama skapi var ákveðið að Bern yrði ekki höfuðborg, heldur sambandsborg (Bundesstadt). Ný stjórnarskrá tók gildi 1848. Kantónurnar viðhéldu stórum hluta sjálfstæðis síns og fengu að ráða yfir flestum málefnum sínum. Atkvæðagreiðslur innan hverrar kantónu urðu almennar, en sökum íhaldssemi í mörgum þeirra fóru breytingar fram hægt. Til dæmis var kosningaréttur kvenna ekki lögleiddur fyrr en 1971. Í heimsstyrjöldinni fyrri viðhélt Sviss hlutleysi sínu. Landið bauð þó stríðshrjáðum löndum líknaraðstoð, svo sem með því að taka að sér særða hermenn og flóttamenn. Einn þeirra var Lenín en hann bjó í Sviss milli 1914-17. Í stríðslok sótti vestasta hérað Austurríkis, Vorarlberg, um inngöngu í Sviss en var neitað. 1920 gekk Sviss í Þjóðabandalagið, sem hafði höfuðstöðvar sínar í Genf. Í heimsstyrjöldinni síðari viðhélt Sviss einnig hlutleysi sínu. Landið tók á ný við fjölda flóttamanna, sérstaklega Frökkum þegar nasistar réðust inn í Frakkland. Þrátt fyrir hlutleysið kom það mýmörgum sinnum fyrir að þýskar flugvélar eða flugvélar bandamanna rufu svissneska lofthelgi og í nokkur skipti urðu svissneskir bæir fyrir loftárásum af misgáningi. Alvarlegast var er borgin Schaffhausen varð fyrir loftárásum bandamanna 1. apríl 1944. Eftir stríð gekk Sviss hvorki í Sameinuðu þjóðirnar né í NATO. Á hinn bóginn var Sviss einn stofnmeðlima EFTA árið 1960 og landið gekk einnig í Evrópuráðið 1963. Enn í dag er Sviss ekki í Evrópusambandinu. Árið 1979 var síðast stofnuð kantóna í Svissneska sambandinu, Júra, sem áður var frönskumælandi partur Bernarkantónu. Það var ekki fyrr en árið 2002 að Sviss gekk til liðs við Sameinuðu þjóðirnar eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Hinir þrír meginhlutar Sviss. Brúnt merkir Alpana, gult merkir dalina og grænt merkir Júrafjöll.

Sviss er landlukt og á landamæri að Ítalíu fyrir sunnan, Frakklandi fyrir vestan, Þýskalandi fyrir norðan og Austurríki og Liechtenstein fyrir austan. Í grófum dráttum má skipta landinu í þrjá meginhluta. Alpana í suðri, dalina í norðri og vestri og svo Júrafjöll í norðvestri. Mikið af vötnum og ám er í landinu, sem langflest eru náttúruleg afurð Alpafjalla. Miklir fjalladalir skera Alpana þvers og kruss, og mynda nokkurs konar samgönguæðar um landið. Aðeins syðsti hluti kantónunnar Ticino (Tessin) nær suður fyrir Alpafjöll niður á norðurítalska láglendið. Litla svæðið Büsingen í Schaffhausen (við Rínarfljót), nyrst í Sviss, er eysvæði og tilheyrir Þýskalandi. Sömuleiðis er litla svæðið Campione við Luganovatn í suðri að öllu leyti innan Sviss en tilheyrir þó Ítalíu.

Landamæri[breyta | breyta frumkóða]

Land Lengd í km Ath.
Ítalía 734 Í suðri
Frakkland 571 Í vestri
Þýskaland 345 Í norðri
Austurríki 165 Í austri
Liechtenstein 41 Í austri

Borgir[breyta | breyta frumkóða]

Engar milljónaborgir eru í Sviss. Stærsta borgin er Zürich með tæplega 400 þúsund íbúa. Þó búa rúmlega 1,1 milljón manns á stórborgarsvæðinu. Nær allar stærstu borgir landsins eru í norðri og vestri, það er að segja í þýsku- og frönskumælandi hluta landsins. Stærstu borgir í Sviss:

Röð Borg Íbúar Kantóna Ath.
1 Zürich 382 þúsund Zürich
2 Genf 189 þúsund Genf (Geneve)
3 Basel 169 þúsund Basel-Stadt
4 Lausanne 122 þúsund Vaud (Wallis)
5 Bern 122 þúsund Bern Formleg höfuðborg Sviss
6 Winterthur 98 þúsund Zürich
7 Luzern 76 þúsund Luzern
8 St. Gallen 72 þúsund St. Gallen
9 Lugano 54 þúsund Ticino
10 Biel (Bienne) 50 þúsund Bern
11 Thun 42 þúsund Bern
12 Köniz 37 þúsund Bern
13 La Chaux-de-Fonds 37 þúsund Neuchâtel
14 Freiburg (Fribourg) 34 þúsund Freiburg (Fribourg)
15 Schaffhausen 34 þúsund Schaffhausen
16 Chur 32 þúsund Graubünden
17 Neuchâtel 32 þúsund Neuchâtel

Fjöll og fjallgarðar[breyta | breyta frumkóða]

Matterhorn er eitt þekktasta fjallið í Sviss

Tveir aðalfjallgarðar eru í Sviss. Sá stærri þeirra eru Alpafjöll, en þau ná yfir gjörvallt miðbik og suðurhluta landsins. Þau eru svo stór að þeim er skipt niður í margar minni einingar. Minni fjallgarðurinn er Júrafjöll fyrir norðvestan og mynda þau þar náttúruleg landamæri við Frakkland. Svisslendingar telja fjöll sín í tindum. Þannig teljast tveir tindar á sama fjalli til tveggja fjalla. Hæsti fjallgarður Alpanna í Sviss er Monte Rosa-fjöllin en hæsti tindur þeirra er Dufourtindurinn sem nær upp í 4.634 metra hæð. Matterhorn er trúlega þekktasta fjallið í landinu en það nær 4.478 metra hæð.

Ár og vötn[breyta | breyta frumkóða]

Vegna Alpafjallanna eru mýmargar ár í Sviss, sem flestar renna til norðurs og vesturs. Helsta áin í Sviss er Rín, en hún á upptök sín suðaustast í landinu. Lengstu ár innanlands í Sviss:

Röð Fljót Lengd innanlands í km Lengd alls í km Rennur í
1 Rín 375 1.324 Norðursjó
2 Aare 295 Rín
3 Rón 264 812 Miðjarðarhaf
4 Reuss 158 Aare
5 Linth/Limmat 140 Aare
6 Saane 128 Aare
7 Thur 125 Rín
8 Inn 104 517 Dóná

Sviss er mikið vatnaland. Þar eru nokkur af stærstu stöðuvötnum Mið-Evrópu, en þau eru í flestum tilfellum gömul jökulvötn frá ísaldartímanum. Stærstu vötn í Sviss:

Röð Stöðuvatn Stærð innanlands í km² Staðsetning Ath.
1 Genfarvatn 348 Genf, Vaud, Wallis Myndar landamæri að Frakklandi
2 Bodenvatn um 250 St. Gallen, Thurgau, Schaffhausen Myndar landamæri að Þýskalandi og Austurríki
3 Neuchâtelvatn 217 Bern, Fribourg, Neuchâtel, Vaud
4 Vierwaldstättersee 113 Luzern, Nid- og Obwalden, Schwyz, Uri Stofnhérað Sviss
5 Zürichvatn 88 St. Gallen, Schwyz, Zürich
6 Thunervatn 47 Bern
7 Lago Maggiore 42 Ticino Myndar landamæri að Ítalíu
8 Lac de Bienne 39 Bern, Neuchâtel

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnskipulag[breyta | breyta frumkóða]

Sviss er sambandsríki 26 kantóna sem hver fyrir sig er nokkuð sjálfstæð. Sérhver kantóna er með eigið þing og þar er kosið um allar meiri háttar ákvarðanir í íbúakosningum. Sambandsþingið situr í Bern. Þar er starfandi forseti en hann er frekar valdalítill. Þingið er í tveimur deildum, þjóðráðinu (Nationalrat) og kantónuráðinu (Ständerat). Í þjóðráðinu eru 200 þingmenn, kosnir af þjóðinni. Í kantónuráðinu eru 46 þingmenn, tveir úr hverri kantónu. Í flestum tilvikum er hér um aukastarf þingmanna að ræða. Sviss hefur þá sérstöðu að nota þjóðaratkvæðagreiðslur að miklu leyti til að útkljá mál, en frá 1848 hafa verið haldnar þar á sjötta hundrað þjóðaratkvæðagreiðslur. Hver og einn ríkisborgari getur stofnað til þjóðaratkvæðagreiðslu, sem getur fellt sett lög, nái hann að safna 50.000 undirskriftum því til stuðnings. Vegna þessa er sterk hefð fyrir þjóðstjórnum í landinu og allt frá árinu 1959 hafa fjórir helstu stjórnmálaflokkarnir nánast undantekningarlaust myndað ríkisstjórn landsins.[1]

Höfuðborg[breyta | breyta frumkóða]

Formlega (de jure) er engin höfuðborg í Sviss. 1848 var borgin Bern þó kosin sem sambandsborg (ekki höfuðborg) þar sem þingið hittist. Þingið sjálft hafði rökrætt málið lengi og komist að þeirri niðurstöðu að engin borg í Sviss ætti að kallast höfuðborg landsins. Því var heitið sambandsborg (Bundesstadt) valið. Tæknilega er Bern þó höfuðborg landsins.

Mynt[breyta | breyta frumkóða]

Gjaldmiðill Sviss er svissneskur franki. Fram að 1798 var mynt landsins á vegum hverrar kantónu fyrir sig. Þegar Napóleon stofnaði Helvetíska lýðveldið í landinu, var í fyrsta sinn farið að nota samræmda mynt sem kallaður var franki, enda notuðu Frakkar einnig franka. Eftir fall Napóleons notaði Sviss erlenda mynt, gull- og silfurmynt frá Frakklandi, Belgíu, Ítalíu og Grikklandi. Einnig voru notuð gyllini, eins og í Austurríki. Árið 1852 fór Sviss að gefa út eigin mynt, svissneska frankann, en allar útlendu myntirnar voru þó enn notaðar með um sinn. Smærri mynteiningin heitir Rappen og er einn franki 100 Rappen. Heitið Rappen kom frá Freiburg í Þýskalandi. Þar var slegin mynt með erni á 13. öld. En örninn var óskýr og menn fóru að kalla hann hrafn (Rabe á þýsku). Þaðan kom heitið Rappen.

Þjóðfáni og skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Þjóðfáni Sviss er hvítur jafnarma kross á rauðum ferningi. Hann er mjög líkur fána kantónunnar Schwyz og mótaður eftir honum. Herir hins unga bandalags byrjuðu mjög snemma að nota krossinn, fyrst í orrustunni við Laupen 1339 svo vitað sé. Skjaldarmerkið er nánast eins útlits en þó skjaldarlaga. Merkið var tekið upp 1889.

Kantónur[breyta | breyta frumkóða]

Yfirlit yfir kantónurnar 26

Ríkið Sviss mynda 26 kantónur, misstórar og misfjölmennar. Upphaflegu kantónurnar voru þrjár (Uri, Schwyz og Unterwalden) en þær mynduðu Sviss þegar árið 1291. Unterwalden er sett saman úr tveimur hálfkantónum (Nidwalden og Obwalden). Bern er stærsta kantónan, tæplega 6.000 km², en Baselborg er minnst, aðeins 37 km². Fjölmennust er Zürich með 1,2 milljón íbúa en í Appenzell Innerrhoden búa aðeins 17 þúsund manns. Þrátt fyrir þennan mun eru þingmenn kantónanna jafnmargir og jafnréttháir.

Íbúar[breyta | breyta frumkóða]

Tungumál[breyta | breyta frumkóða]

Kort af útbreiðslu tungumála í Sviss (2013). Rautt = þýska, fjólublátt = franska, grænt = ítalska og gult = rómanska.

Sviss er ekki land einnar þjóðar, heldur bandalag mismunandi héraða sem ákváðu að tengjast af pólitískum ástæðum. Upphaflegu kantónurnar voru þýskumælandi en eftir því sem fleiri héruð bættust við, bættust frönsku- og ítölskumælandi íbúar við. Af sömu ástæðu eru einnig fleiri en eitt tungumál talað í landinu. Þjóðtungurnar eru fjórar: þýska (svissnesk þýska) um allt miðbik landsins, franska í vestri, ítalska fyrir sunnan og rómanska fyrir austan. Síðastnefnda málið er minnst útbreitt af málum þessum og er sambland latínu og germönsku frá tímum Rómverja. Langflestir tala þó þýsku eða tæp 64%. Um 20% tala frönsku. Að mestu leyti eru málamörkin skýr, sérstaklega í sveitum. En í nokkrum borgum eru tvö mál töluð, til dæmis í Fribourg (Freiburg), Neuchâtel (Neuenburg) og Biel (Bienne), þar sem bæði er töluð þýska og franska.

Menntun[breyta | breyta frumkóða]

Fjórir mikilvægir svissneskir vísindamenn(réttsælis):
Leonhard Euler (stærðfræði)
Louis Agassiz (jöklafræði)
Auguste Piccard (flugvélaverkfræði)
Albert Einstein (eðlisfræði)

Menntun í Sviss er afar fjölbreytileg vegna þess að stjórnarskrá Sviss kveður á um að skólakerfið sé málefni kantónanna.[2] Bæði opinberir skólar og einkaskólar eru starfræktir í landinu, þar á meðal einkareknir alþjóðlegir skólar. Í nær öllum kantónum hefst skólagangan um sex ára aldur en flestar kantónur starfrækja einnig ókeypis „barnaskóla“ fyrir fjögurra og fimm ára börn.[3] Fyrsta erlenda málið sem börn lærðu var ávallt eitt af hinum tungumálum landsins (eftir því hvert fyrsta mál barnanna var) en undanfarið hefur enskan verið að ryðja sér til rúms í nokkrum kantónum sem fyrsta erlenda mál.

Í Sviss eru tólf háskólar en tíu þeirra eru kantónuskólar. Elsti háskólinn er Háskólinn í Basel en hann var stofnaður árið 1460.

Menning[breyta | breyta frumkóða]

Bókmenntir[breyta | breyta frumkóða]

Jean-Jacques Rousseau var rithöfundur og áhrifamikill heimspekingurá 18. öld. (Stytta af honum í Genf)

Þegar ríkið var stofnað árið 1291 voru langflestir Svisslendingar þýskumælandi og því eru elstu bókmenntir Svisslendinga á þýsku. Á 18. öld var franska móðins í Bern og víðar og áhrif frönskumælandi landa urðu meira áberandi.

Meðal sígildra svissneskra bókmennta á þýsku má nefna rit þeirra Jeremiasar Gotthelf (1797 – 1854) og Gottfrieds Keller (1819 –1890). Óumdeildir meistarar svissneskra bókmennta á 20. öld eru þeir Max Frisch (1911 – 1991) og Friedrich Dürrenmatt (1921 – 90) en meðal verka hans má nefna Die Physiker (Eðlisfræðingurinn) og Das Versprechen (Loforðið), sem Hollywood-kvikmynd var gerð eftir árið 2001.

Meðal merkra frönskumælandi höfunda má nefna heimspekinginn Jean-Jacques Rousseau (1712 – 1778) og Germaine de Staël (1766 – 1817). Meðal yngri höfunda eru Charles Ferdinand Ramuz (1878 – 1947), en bækur hans lýsa lífi bænda og fjallabúa við erfiðar aðstæður, og Blaise Cendrars (fæddur Frédéric Sauser, 1887 –1961). Ítölskumælandi höfundar hafa verið mun færri.

Ef til vill er frægasta bókmenntapersóna Svisslendinga Heiða, sem er munaðarlaus stúlka sem býr hjá afa sínum í Ölpunum. Bækurnar um Heiðu urðu vinsælar barnabókmenntir en eru einnig táknmynd Sviss. Höfundur bókanna, Johanna Spyri (1827 – 1901), samdi einnig fjölmargar bækur aðrar um svipuð efni.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Skíðasvæði yfir jöklunum í Saas-Fee

Í Sviss eru vinsælustu íþróttirnar vetraríþróttir á borð við skíðaíþróttir og fjallgöngur en landafræði Sviss hentar ástundun slíkra íþrótta vel.[4] Einnig tengist ferðamannaiðnaður Sviss iðkun vetraríþrótta en margir ferðamenn koma til Sviss á hverju ári til að iðka skíðaíþróttir. Svissneskir skíðaíþróttamenn á borð við Pirmin Zurbriggen og Didier Cuche hafa náð miklum árangri í sínum greinum.

Matarmenning[breyta | breyta frumkóða]

Emmental-ostur er upprunninn í Sviss.

Matarmenning Sviss er margbrotin. Sumt, eins og fondue, raclette og rösti, er fáanlegt alls staðar í landinu en í sérhverjum landshluta hafa einnig þróast sérstakar venjur.[5] Í hefðbundinni svissneskri matargerð eru notuð áþekk hráefni og í öðrum Evrópulöndum, auk sérstakra svissneskra hráefna, til dæmis mjólkurvara og osta á borð við Gruyère eða Emmental, sem eru framleiddir í Gruyères-dal og Emmental-dal. Fjöldi veitingahúsa í landingu er mikill, einkum í vesturhluta landsins.[6][7]

Svisslendingar hafa búið til súkkulaði frá því á 18. öld en það varð ekki frægt fyrr en undir lok 19. aldar þegar nútíma súkkulaðigerð, sem gerði mögulegt að framleiða gæðasúkkulaði, varð til. Uppfinning Daniels Peter á mjólkursúkkulaði árið 1875 var einnig stór og mikilvægur áfangi. Svisslendingar neyta meira súkkulaðis en nokkur önnur þjóð.[8][9]

Vinsælasti áfengi drykkurinn í Sviss er vín. Sviss er þekkt fyrir margbreytileika þrúgnanna sem ræktaðar eru. Svissneskt vín er einkum framleitt í Valais, Vaud (Lavaux), Genf og Ticino og er örlítið meira framleitt af hvítvíni. Vínekrur hafa verið starfræktar í Sviss frá því á dögum Rómaveldis. Helstu afbrigðin eru Chasselas (kallað Fendant í Valais) og Pinot Noir. Merlot-vín eru einkum framleidd í Ticino.[10][11]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Gunnar Helgi Kristinsson (2006). Íslenska stjórnkerfið. Háskóli Íslands. ISBN 9979547138., bls 30-31
  2. „The Swiss education system“ á Swissworld.org. (Skoðað 23. júní 2009).
  3. „The Swiss education system“ á Swissworld.org. (Skoðað 23. júní 2009).
  4. „Íþróttir í Sviss“ Geymt 16 september 2010 í Wayback Machine á europe-cities.com. (Skoðað 14. desember 2009).
  5. „Flavors of Switzerland“ Geymt 20 júlí 2009 í Wayback Machine á Theworldwidegourmet.com. (Skoðað 24. júní 2009).
  6. „The MICHELIN Guide Switzerland 2010 attests to the high quality of gourmet cooking with one new 2 star restaurant and 8 new one star“ Geymt 27 apríl 2011 í Wayback Machine Press information, Michelin. (Skoðað 14. desember 2009).
  7. „Swiss region serves up food with star power“ á Usatoday.com. (Skoðað 14. desember 2009).
  8. „Chocolate“ á Swissworld.org. (Skoðað 24. júní 2009).
  9. „Swiss Chocolate“ Geymt 4 janúar 2010 í Wayback Machine á Germanworldonline.com. (Skoðað 14. júní 2010).
  10. „Wine-producing Switzerland in short“ Geymt 9 apríl 2009 í Wayback Machine á Swisswine.ch. (Skoðað 24. júní 2009).
  11. „Table 38. Top wine consuming nations per capita, 2006“ Geymt 18 ágúst 2010 í Wayback Machine á Winebiz.com. (Skoðað 14. júní 2010).

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Schweiz“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt ágúst 2010.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Wilhelm Tell“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt ágúst 2010.
  • Church, Clive H. The Politics and Government of Switzerland. (Palgrave Macmillan, 2004).
  • Fahrni, Dieter. An Outline History of Switzerland. From the Origins to the Present Day. 8. útg. (Zürich: Pro Helvetia, 2003).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]