Sala og endurleiga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sala og endurleiga eru fjármálaviðskipti þar sem eigandi eignar selur hana til annars aðila en leigir svo aftur til langs tíma. Þannig getur hann nýtt eignina áfram án þess að eiga hana. Í slíkum viðskiptum er oftast um fasteignir að ræða. Ástæður endurleigusamninga geta verið margvíslegar, til dæmis þörf fyrir fjármagn eða að draga úr skattgreiðslum. Í raun er um eins konar lánasamning að ræða þar sem í stað afborgana koma leigugreiðslur. Með því móti fær seljandi fjármagn til að fjárfesta eða greiða niður skuldir og minnkar jafnframt skattbyrði sína sem stafar af fasteignum; kaupandinn fær góða ávöxtun á fjárfestingu og afskrifanlega eign með öruggt tekjustreymi til langs tíma.

Samningar af þessu tagi eru vinsælir þar sem um er að ræða stórar fasteignir eða dýr samgöngu- og framleiðslutæki, til dæmis flugvélar. Húsnæði við frístundaaðstöðu (skíðasvæði eða strendur) er stundum selt einstaklingum sem leigja það aftur til umsýslufélags í eigu byggingaraðila sem leigir það áfram til ferðamanna. Eigendur fá þá tryggar tekjur af húsnæðinu og rétt til að nýta það í tiltekinn tíma á ári.

Á Íslandi var þetta um tíma vinsæl leið til fjármögnunar sveitarfélaga, þá með stofnun eignarhaldsfélags sem keypti eignirnar og var að hluta til í eigu sveitarfélaganna sjálfra og að hluta í eigu fjármálastofnana. Gagnrýni á rekstur sumra þessara sveitarfélaga (s.s. Voga og Álftaness) gekk meðal annars út á mikilvægi þess að taka skuldbindingar vegna langtímaleigu með í reikninginn þegar fjárhagsstaða er metin.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.