Sápuverksmiðjan Sjöfn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Auglýsing frá 1954 fyrir þvottaefnið Geysir sem var framleitt hjá Söfn

Sápuverksmiðjan Sjöfn var iðnaðarfyrirtæki sem framleiddi sápu, þvottaefni og ýmsar hreinlætisvörur. Fyrirtækið var eitt af fyrirtækjum SÍS en það var stofnað á Akureyri árið 1932 í félagi af SÍS og KEA.

Sápuverksmiðjan var fyrst í skúr sem áfastur var við Smjörlíkisgerð KEA og í hluta af kjallara í sama húsi. Framleiðslan var í fyrstu að mestu leyti blautsápa. Árið 1934 flutti verksmiðjan í húsnæði við Kaupvangsstræti. Þá var bætt við vélum til kertaframleiðslu, kremvélum og vélum til handsápugerðar, þar á meðal eltivél. Áður hafði verksmiðjan eingöngu framleitt kaldhrærðar sápur en slíkar sápur geta ekki haft meira fituinnihald en 60—65% en með nýju vélunum var mögulegt að framleiða sápur með hærra fituinnihald. Árið 1934 framleiddi Sjöfn blautasápu, stangasápu, handsápu, jólakerti, skóáburð, húðkrem og gljávax en árið eftir bætti hún við framleiðslu á kítti, raksápu, nýjum tegundum haldsápu, hárþvottalegi og júgursmyrsli. Árið 1936 hófst framleiðsla á þvottaduftinu Perlu. Verksmiðjan framleiddi einnig tannkrem.

Frank Hüter við kremvél í verksmiðjunni

Verksmiðjustjóri í sápuverksmiðjunni var Frank Hüter en hann var tekinn til fanga af Bretum við hernámið 1940 og fluttur úr landi. Hann var fangi í skipinu Arandora Star sem sigldi frá Liverpool og sökk þegar það varð fyrir árás þýska kafbátsins U 47. Frank Hüter var meðal þeirra sem björguðust.


Heimildir[breyta | breyta frumkóða]