Ritskoðun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita

Ritskoðun er hverjar þær hömlur sem lagðar eru á tjáningarfrelsi einstaklinga af þeim sem með ritkoðunarvald fer. Hugmyndafræði er liggur að baki ritskoðunar er mismunandi eftir menningarheimum eða ástandi sem ríkjandi er. Ritskoðun felst í því að fjarlægja efni eða koma í veg fyrir birtingu þess, þyki það ofbjóða velsæmisvitund almennings, eða af öðrum orsökum skaða ríkjandi viðhorf eða stjórnarfar þar sem ritskoðun er á annað borð beitt.

Í 73. gr. stjórnarskrár Íslands, sbr. 11. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, segir:

Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríksisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Flokkar ritskoðunar[breyta]

  1. Ritskoðun af siðferðilegum ástæðum: Ritskoðun getur verið beitt til að koma í veg fyrir birtingu efnis sem misbjóða almennu velsæmi eða talin eru skaða siðferðisvitund almennings, t.d. bann við birtingu kláms eða sérstakra tegunda kláms,t.d. barnakláms. Einnig birtingu efnis með sérstaklega grófu ofbeldi.
  2. Ritskoðun af stjórnmálalegum ástæðum: Ritskoðun sem beitt er af stjórnvöldum til að hindra birtingu upplýsinga eða skoðana sem stjórnvöld telja skaðleg ríkjandi stjórnhöfum. Í þeim tilfellum telja stjórnvöld að birting upplýsinga eða skoðana sýni veikleika ríkjandi valds og veiti stjórnarandstöðu aukið fylgi. Ennfremur eru fordæmi fyrir að stjórnvöld reyni að beita ritskoðun til að hindra umfjöllun um kosningaáætlun sína eða baráttuaðferðir (sjá Watergate).
  3. Ritskoðun af trúarlegum ástæðum: Ritskoðun af svipuðum meiði og stjórnmálaleg ritskoðun eða þegar ráðamenn ríkjandi trúar eru þess megnugir með stjórnmálavaldi til að ritskoða boðun og skilaboð annarra trúarbragða.
  4. Ritskoðun af hernaðarlegum ástæðum: Við styrjaldarástand er algengt að yfirvöld beiti ritskoðun til að reyna að koma í veg fyrir að hernaðarupplýsingar berist til óvinarins.[1]
  5. Ritskoðun af viðskiptalegum ástæðum: Ritskoðun sem fyrirtæki eða hagsmunasamtök beita eða reyna að beita til að tryggja viðskiptalega hagsmuni sína. Fjölmiðlar geta beitt sjálfa sig ritskoðun til að koma í veg fyrir tap á auglýsingatekjum, með því að birta ekki neikvæða umfjöllun um auglýsendur.

Virk ritskoðun[breyta]

Ritskoðun er virk þegar stjórnvöld eða aðrir þeir sem stjórn hafa á fjölmiðlum eða öðrum birtingarmiðlum tjáningar, skoða efni fyrir birtingu og ákvarða um hvort efnið verður birt eða fyrirskipa breytingar á því. Þetta form ritskoðunar hefur átt verulega undir högg að sækja síðustu ár og áratugi með auknu upplýsingaflæði milli svæða og heimshluta, ekki síst með tilkomu veraldarvefsins.

Íbúar vesturlanda tengja ritskoðun yfirleitt stjórnvöldum sem stjórna með alræðisvaldi, leynt eða ljóst, þ.e. miðstýrðri ógnarstjórn sem stýrist af einstaklingum eða flokksvaldi frekar en stjórnarskrá og lýðræði; þar sem kosningarúrslitum er gjarnan hagrætt, stjórnmálaflokkum beitt til að skapa fjöldafylgi um tiltekinn boðskap flokksins með miðstýrðum aðferðum og engin trygging er fyrir almennum mannréttindum. Dæmi um ríkisvald sem hagar sér á þessa lund eru fjölmörg nær og fjær í tíma og rúmi og má nefna t.d. Þýskaland frá valdatöku Nasista á fjórða áratugnum og nær í tíma, stjórn Roberts Mugabes í Zimbabwe í dag.

Eigin ritskoðun[breyta]

Eigin ritskoðun er þegar höfundar og þeir er stjórna birtingu efnis beita sjálfa sig ritskoðun af ýmsum ástæðum. Ástæðurnar geta verið:

1. Lagalegar. Þ.e. ekki er birt efni sem bannað er með lögum og þannig líklegt að geti skapað þeim sem birtir eða er ábyrgur fyrir birtingu hættu að að vera sóttur til saka og dæmdur til refsingar og/eða skaða-eða miskabóta. "Hver sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári."[2]

Í Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem staðestur var af alþingi 28. ágúst 1979 eru ákvæði sem bæði styrkja ritfrelsi og setja því skorður: "Sérstakar skyldur og ábyrgð felast í því að nota sér réttindi þau sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar. Því má takmarka þessi réttindi að vissu marki, en þó aðeins að því marki sem mælt er í lögum og er nauðsynlegt:

(a) til þess að virða réttindi eða mannorð annarra;

(b) til þess að vernda þjóðaröryggi eða allsherjarreglu (ordre public), eða heilbrigði almennings eða siðgæði."[3]

2. Almenningsálit / ríkjandi viðhorf. Sjálfsritskoðun getur verið beitt t.d. af fjölmiðlum vegna ótta við að reiði almennings beinist gegn viðkomandi falli birting tiltekinna upplýsinga ekki að ríkjandi viðhorfum - eða sé til þess fallin að skaða ímynd viðkomandi miðils eða höfundar. Sem dæmi má nefna er DV nafngreindi mann er sakaður hafði verið fyrir kynferðisafbrot áður en formleg ákæra var gefin út og á meðan málið var í rannsókn. Í kjölfarið reis upp reiðialda almennings og fjöldauppsagnir á blaðinu og skömmu síðar var gert hlé á útgáfunni og ritstjórarnir létu af störfum. Í ljósi þessarar reynslu má telja víst að fjölmiðlar hugsi sig um tvisvar áður en álíka upplýsingar eru birtar.

Á sama hátt virkar "jafningjaþrýstingur" á t.d. vísindamenn sem birta ekki skoðanir eða niðurstöður sem ganga gegn ríkjandi viðhorfum og kenningum nema að vel hugsuðu máli.

3. Persónulegir eða efnahagslegir hagsmunir. Einstaklingar geta ritskoðað eigin verk til að gæta fjárhagslegra hagsmuna, þ.e. til að styggja ekki eða veikja andstöðu þeirra sem þeir byggja fjárhagslega afkomu á. Ennfremur ritskoða einstaklingar verk sín til að særa ekki eða móðga aðila sem þeir tengjast á einhvern hátt persónulegum böndum.

Ritskoðun með takmörkun aðgangs að upplýsingum[breyta]

Í ríkjum á borð við Ísland þar sem bein ritskoðun er ekki stunduð geta stjórnvöld beitt óbeinni ritskoðun með því að takmarka þær upplýsingar sem almenningur hefur aðgang að. Sem dæmi má nefna þá tregðu á að afhenda gögn um símahleranir: „Kjartan segir að gögnin séu geymd á Þjóðskjalasafni og honum hafi í tvígang í sumar verið neitað um aðgang að þeim, bæði um frjálsan aðgang og einnig um aðgang að þeim með sömu skilmálum og sagnfræðingurinn“, Kjartan Ólafsson, fyrrverandi alþingismaður í Mbl. 16.9.2006.[4]


Aukin sókn í Ritskoðun[breyta]

Valdsækin (authoritarian) stjórnvöld hafa aukið ritskoðun síðustu ár og má t.d. nefna aðgerðir stjórnvalda í Bandaríkjum Norður Ameríku í kjölfar hryðjuverkanna 11.september 2001 en stjórnvöld létu loka fjölda vefsíða[5] og hertu mjög á eftirlit með birtingu upplýsinga sem talið var að ógnuðu öryggi almennings (vísan til allsherjarreglu). Á sama hátt hefur um árabil óheimilt að auglýsa áfengi og tóbak á Íslandi með vísan til allsherjarreglu eða til verndar heilbrigði almennings og siðgæði.

Neðanmálsgreinar[breyta]

  1. [1] Lög nr. 9/1940 um heimild fyrir ríkisstjórnina til að banna að veita upplýsingar um ferðir skipa
  2. Lög nr. 19/1940 gr.229[2]
  3. [3] Staðfesting á Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi nr. 10/1979 §19 mgr.3
  4. [4]Vefútgáfa Morgunblaðsins 16.9.2006, skoðað 23.7.2008
  5. [5]Vefsíða Landssambands gegn ritskoðun (National Coalition Agains Censorship, skoðuð 23. júlí 2008