Rihanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rihanna
Rihanna árið 2018
Fædd
Robyn Rihanna Fenty

20. febrúar 1988 (1988-02-20) (36 ára)
Störf
  • Söngvari
  • lagahöfundur
  • leikari
  • athafnakona
Ár virk2003–í dag
Maki
Börn2
Tónlistarferill
Stefnur
HljóðfæriRödd
Útgefandi
Vefsíðarihanna.com
Undirskrift

Robyn Rihanna Fenty (f. 20. febrúar 1988), betur þekkt undir millinafninu Rihanna, er barbadosk söngkona, lagasmiður og fyrirsæta. Hún fæddist í Saint Michael á Barbados en flutti til Bandaríkjanna þegar hún var 16 ára til þess að láta reyna á söngferil undir leiðsögn plötuframleiðandans Evan Rogers.

Árið 2005 gaf Rihanna út stúdíó-plötuna Music of the Sun sem náði ágætum vinsældum og var vinsælasta lagið á plötunni „Pon de Replay“. Innan árs síðar gaf hún út aðra plötuna sína, A Girl Like Me (2006), sem náði meiri vinsældum en fyrri platan og náði lagið „SOS“ miklum vinsældum ásamt lögunum „Unfaithful“ og „Break It Off“. Þriðja platan hennar, Good Girl Gone Bad (2007), náði öðru sæti á Billboard 200-listanum og átti fimm vinsæl lög: „Umbrella“, „Take a Bow“, „Disturbia“, „Don't Stop the Music“ og „Shut Up and Drive“. Platan var tilnefnd til níu Grammy-verðlauna og vann verðlaun fyrir besta rapp- eða söngsamstarfið fyrir lagið „Umbrella“ sem hún söng með Jay-Z.

Rihanna seldi yfir 12 milljónir platna um allan heim á fyrstu fjórum árum ferils síns og hefur fengið nokkur virt verðlaun. Rihanna hefur átt fjórtán smáskífur á toppi Billboard Hot 100-listans.

Rihanna var sæmd titli þjóðhetju Barbados þann 30. nóvember 2021 af Miu Mottley forsætisráðherra við hátíðarathöfn þegar Barbados varð að lýðveldi.[2]

Líf og ferill[breyta | breyta frumkóða]

1988–2004: Æska og plötusamningur[breyta | breyta frumkóða]

Rihanna fæddist í Saint Michael á Barbados og eru foreldrar hennar Ronald Fenty, umsjónarmaður í vöruhúsi, og Monica Fenty. Móðir hennar sem er frá Guyana er hálf-afrísk og faðir hennar er frá Barbados og Írlandi. Hún er elst af þremur systkinum en hún á tvo yngri bræður, Rorrey og Rajad Fenty. Hún byrjaði að syngja í kringum sjö ára aldurinn. Æska hennar var að miklu leyti mótuð af fíkn föður hennar í kókaín og óstöðugu hjónabandi foreldra hennar, sem endaði þegar hún var 14 ára. Rihanna gekk í Charles F. Broom Memorial-skólann og seinna í Combermere-skólann þar sem hún stofnaði tónlistartríó með tveimur bekkjarfélögum sínum þegar hún var 15 ára. Árið 2004 vann hún ungfrú Combermere-fegurðarsamkeppnina.

Þegar hún var fimmtán ára stofnaði hún stelpnaband með tveimur bekkjarsystrum sínum. Árið 2003 kynntu vinir Rihönnu og bandfélaga hennar, þær fyrir plötuframleiðandannum Evan Rogers, sem var í fríi á Barbados með konunni sinni. Hópurinn fékk áheyrnarprufu hjá Rogers og sagði hann að um leið og Rihanna hafi gengið inn í herbergið, væri eins og hinar tvær væru ekki til. Í áheyrnarprufunni söng Rihanna Destiny's Child lagið „Emotion“. Næsta árið skutluðust Rihanna og móðir hennar til og frá heimili Rogers í Stamford í Connecticut. Stuttu eftir að hún varð 16 ára fluttu hún til Bandaríkjanna og flutti inn til Rogers og konu hans. Carl Sturken hjálpaði Rihönnu að taka upp fjögur demó-lög, m.a. ballöðuna „Last Time“, „For the Love of You“ (upphaflega með Whitney Houston) og það sem átti eftir að verða fyrsti smellurinn hennar, „Pon de Replay“, og var demóið sent til margra plötuútgáfufyrirtækja. Það tók ár að taka upp lögin vegna þess að hún gekk í skóla og gat aðeins tekið upp í sumar- og jólafríum. Demóin náðu til Def Jam, sem bauð henni að koma í prufu hjá þáverandi forstjóra, Jay-Z, sem bauð henni strax samning.

2005–2006: Music of the Sun og A Girl Like Me[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að hafa skrifað undir samning hjá Def Jam, eyddi hún næstu þremur mánuðum í að taka upp og klára fyrstu plötuna sína. Hún innihélt lög frá Evan Rogers, Carl Sturken, Stargate og Poke & Tone. Hún starfaði með rapparanum Memphis Bleek á fjórðu stúdíóplötunni hans 534 áður en hún byrjaði á sinni eigin. Hún gaf út smáskífuna „Pon de Replay“ þann 22. ágúst 2005 og náði það öðru sæti á Billboard Hot 100 listanum. Það varð einnig vinsælt um allan heim. Platan, Music of the Sun, kom út í ágúst 2005 í Bandaríkjunum og seldist hún í 69.000 eintökum fyrstu vikuna. Platan hefur selst í yfir tveimur milljónum eintaka um allan heim og náði gullsölu eftir að hafa selst í 500.000 eintökum.

Tónlistin hennar var markaðsett innan soca- og reggítónlistar vegna tengsla hennar við Karíbahafið. Platan fékk misgóða dóma og gaf tímaritið Rolling Stone 2.5 stjörnur af 5. Fleiri tímarit og gagnrýnendur sögðu álit sitt á plötunni sem var misgott.

Mánuði eftir að Music of the Sun kom út byrjaði hún að vinna að annarri stúdíóplötunni sinni. Platan innihélt verk frá plötuframleiðendunum Evan Rogers og Carl Sturken, sem framleiddu meirihlutann af fyrstu plötunni hennar, Stargate, J.R. Rotem og Ne-Yo. Á meðan hún var að taka upp plötuna var Rihanna upphitunaratriði fyrir Gwen Stefani þegar hún var að kynna plötuna sína. Aðalsmáskífan, „SOS“, náði fyrsta sæti á Billboard Hot 100 listanum og var það fyrsta lagið hennar sem náði fyrsta sæti. A Girl Like Me kom út í apríl 2006, aðeins átta mánuðum á eftir fyrstu plötunni. Platan seldist í 115.000 eintökum fyrstu vikuna og náði platínusölu og hefur selt yfir milljón eintök um allan heim. Aftur voru dómarnir misgóðir og sagði tímaritið Rolling Stone „eins og fyrri platan hennar er þessi nokkuð svipuð en er góðir eftirfari en kemur ekki neinu til skila ...“. Gagnrýnendur sögðu einnig að platan væri mitt á milli glaðlegs dancehall/dup-pop og hipp hopp sem blandast klúbbatónlist og ballöðum. Önnur smáskífan, „Unfaithful“, náði miklum vinsældum um allan heim og náði á topp 10 lista í löndum um allan heim, m.a. í Kanada, Frakklandi og Sviss. Þriðja smáskífan, „We Ride“, náði litlum vinsældum en sú fjórða „Break It Off“, sem hún söng með Sean Paul náði mjög miklum vinsældum. Eftir að platan kom út fór hún í tónleikaferðalag sem bar nafnið Rock Tha Bloc Tour og svo fór hún að túra með The Pussycat Dolls frá nóvember 2006 til febrúar 2007 í Bretlandi.

Síðan 2007: Good Girl Gone Bad[breyta | breyta frumkóða]

Rihanna fór í hljóðver snemma árið 2007 ásamt Ne-Yo, Stargate og Timbaland ásamt öðrum til þess að taka upp þriðju sólóplötuna sína, Good Girl Gone Bad. Hún eyddi Grammy-vikunni í að semja lög með Ne-Yo. Markmið plötunnar var að fara í aðra átt með hjálp Timbaland, will.i.am og Sean Garrett en einnig að gæða ímynd hennar fersku og danslegu ívafi. Þegar hún var að taka upp plötuna sagði hún að hún vildi halda fólki dansandi en samt vera í soul-stíl á sama tíma. Hún sagði síðar: „Manni líður mismunandi á hverri plötu og á þessum tímapunkti líður mér eins og ég vilji gera mörg hress lög.“ Hún byrjaði síðan í söngtímum hjá Ne-Yo fyrir þriðju plötuna. Good Girl Gone Bad kom út í júní 2007. Ólíkt fyrri plötum hennar, innihélt þessi fleiri danslög í staðinn fyrir ballöður og reggílög. Platan gaf af sér átta smáskífur, meðal annars smellinn „Umbrella“ með Jay-Z. Til viðbótar var lagið einnig á toppi breska vinsældarlistans tíu vikur í röð, sem gerði lagið að því vinsælasta síðan hljómsveitin Wet Wet Wet gaf út „Love is All Around“ sem sat samtals í fimmtán vikur á toppnum árið 1994. Lagið lenti í þriðja sæti á Billboard Hot 100 listanum árið 2007 sem birtur er af tímaritinu Rolling Stone. Aðrar smáskífur plötunnar voru „Shut up and Drive“, „Don't Stop the Music“ og „Hate That I Love You“ náðu miklum vinsældum eins og „Umbrella“.

Endurútgáfa af þriðju plötunni hennar, titlaðri Good Girl Gone Bad: Reloaded, var gefin út í júní 2008. Rihanna gaf út fyrstu smáskífuna af plötunni „Take a Bow“ sem varð vinsæl um allan heim; einnig var gefinn út dúett með Maroon 5, „If I Never See Your Face Again“ og annar smellur, „Disturbia“. „Disturbia“ náði í 4. sæti áður en lagið fór upp í fyrsta sætið og þar sem önnur smáskífa, „Take a Bow“ var í 2. sæti varð Rihanna sjöunda söngkonan til þess að eiga tvö lög á topp 5-listanum. Eftir það söng Rihanna lagið „Live Your Life“ með rapparanum T.I.. Það gerði Rihönnu að annarri af tveimur söngkonum með flestar smáskífur á þessum áratug en hin er Beyoncé. Good Girl Gone Bad hefur selst í yfir tveimur milljónum eintaka og er orðin tvöföld platínum plata. Hún var tilnefnd í fjórum flokkum á MTV tónlistarverðlaununum árið 2007 og vann hún Risa Smáskífu ársins og Myndband ársins. Árið 2008 fékk hún fyrstu Grammy verðlaunin sín fyrir besta Rapp/Sungna samstarfið til viðbótar við hinar fimm tilnefningarnar, meðal annars plata ársins, besta danslagið, besta R&B frammistaðan í hóp og besta R&B lagið. Til þess að styðja plötuna lagði hún í Good Girl Gone Bad tónleikaferðina þann 12. september 2007 og hélt hún tónleika í Bandaríkjunum, Kanada og Evrópu og hélt síðan á Glow in the Dark tónleikaferðalagið með Kanye West, Lupe Fiasco og N.E.R.D. þann 16. apríl 2008. Rihanna vann líka uppáhalds Popp/Rokk söngkonan og uppáhalds Sálar/R&B söngkonan árið 2008 á bandarísku tónlistarverðlaununum.

Útgefið efni[breyta | breyta frumkóða]

Breiðskífur[breyta | breyta frumkóða]

  • Music of the Sun (2005)
  • A Girl like Me (2006)
  • Good Girl Gone Bad (2007)
  • Rated R (2009)
  • Loud (2010)
  • Talk That Talk (2011)
  • Unapologetic (2012)
  • Anti (2016)

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sanchez, Chelsey; Park, Sabrina; Mackelden, Amy (31. janúar 2022). „Everything We Know About Rihanna and A$AP Rocky's Relationship“. Harper's Bazaar. Afrit af uppruna á 31. janúar 2022. Sótt 31. janúar 2022.
  2. Samúel Karl Ólason (30. nóvember 2021). „Rihanna gerð að þjóðhetju Barbados“. Vísir. Sótt 10. janúar 2022.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]