Reynistaðarklaustur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Reynistaðarklaustur var nunnuklaustur af Benediktsreglu, stofnað árið 1295 á Reynistað í Skagafirði. Það var annað tveggja nunnuklaustra á landinu og starfaði til siðaskipta.

Gissur Þorvaldsson jarl hafði fyrir dauða sinn 1268 gefið bújörð sína, Stað í Reynisnesi (Reynistað) til klausturstofnunar en þó liðu nærri 30 ár þar til af henni varð. Þá var það Jörundur Hólabiskup sem tók af skarið og fékk í lið með sér auðuga konu, Hallberu að nafni, er síðar varð abbadís, og fleiri mektarkonur til að gefa fé til klausturstofnunar og sjálfur lagði hann klaustrinu til 23 jarðir Hólastóls sem skyldu vera ævarandi eign þess. Hólabiskup átti að vera verndari eða eins konar ábóti klaustursins. Var þar jafnan umboðsmaður biskups eða ráðsmaður í forsvari.

Sennilega hefur klaustrinu hnignað eftir Svartadauða 1402, fáar nunnur lifað eftir og svo mikið er víst að engin abbadís var þar í allmörg ár en Þórunn Ormsdóttir var þar príorinna frá 1408 og tók jafnframt við klausturforráðum úr hendi ráðsmannsins ásamt Þuríði Halldórsdóttur. Þrátt fyrir þetta auðgaðist klaustrið smátt og smátt og samkvæmt máldaga 1446 átti það yfir 40 jarðir auk eyðijarða. Líklega hafa oftast verið í kringum tíu nunnur í klaustrinu.

Klaustrið var lagt niður við skiðaskiptin en Solveig abbadís bjó þó áfram í klaustrinu ásamt nunnunum og sá konungur þeim fyrir lífsuppeldi eins og öðru klausturfólki.

Abbadísir á Reynistað[breyta | breyta frumkóða]

  • Katrín var fyrsta abbadís Reynistaðaklausturs, vígð 1298, og hafði áður verið nunna á Munkaþverá. Hún hvarf þegar úr sögunni og hefur verið talið að hún hafi dáið þegar árið eftir en líkur benda til þess að Katrín og Hallbera Þorsteinsdóttir, sem staðið hafði að stofnun klaustursins með Jörundi biskupi og er sögð hafa orðið abbadís 1299, séu ein og sama manneskjan. Hefur þá Hallbera tekið sér nafnið Katrín þegar hún tók vígslu. Hún dó 1329 eða 1330.
  • Heimildum ber ekki saman um næstu abbadís, nefnd eru nöfnin Guðný Helgadóttir, systir Katrín og Kristín. Líklega hefur Guðný orðið abbadís en tekið sér nafnið Kristín við vígsluna. Hún dó um 1368.
  • Oddbjörg Jónsdóttir var vígð abbadís 1369. Hún hafði áður verið nunna í Kirkjubæ. Hún dó 1389.
  • Ingibjörg Örnólfsdóttir var vígð 1390 eða 1391. Hún dó að öllum líkindum í Svartadauða. Eftir það liðu áratugir þar til ný abbadís var vígð.
  • Þórunn Ormsdóttir varð príorinna 1408 og stýrði klaustrinu fram á fjórða áratug aldarinnar en varð aldrei abbadís.
  • Þóra Finnsdóttir var vígð abbadís árið 1437 af Gozewijn Comhaer Skálholtsbiskupi og hafði áður verið príorinna. Hún er líklega sama manneskjan og Barbara abbadís, sem nefnd er á árunum 1443-1459. Hún dó um 1460.
  • Agnes Jónsdóttir, systir Arngríms ábóta á Þingeyrum, varð þá abbadís. Hún var fyrst skipuð príorinna af Ólafi Rögnvaldssyni biskupi 3. mars 1461 en varð svo abbadís og gegndi því embætti til dauðadags 1507.
  • Solveig Hrafnsdóttir, (Rafnsdóttir) varð næst abbadís og var vígð 1508. Hún var dóttir Hrafns Brandssonar lögmanns og hafði gengið í klaustrið 1493. Hún gegndi embættinu allt til siðaskipta. Solveig dó um 1562 og var þá háöldruð.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Anna Sigurðardóttir: Allt hafði annan róm áður í páfadóm. Nunnuklaustrin tvö á Íslandi og brot úr kristnisögu. Kvennasögusafn Íslands, Rvík 1988, 412 bls. Úr veröld kvenna 3.
  • „Reynistaðarklaustur. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
  • „Vísindavefurinn 18.5.2006: Hvert var helsta hlutverk klaustra á miðöldum?“.