Ródesía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Ródesíu 1968-1979.

Ródesía var nafn Simbabve meðan það var enn bresk nýlenda. Landið hét áður Suður-Ródesía um tíma þegar Ródesía var notað um svæði sem inniheldur það land sem nú heitir Sambía, auk Simbabve.

Nafnið er dregið af nafni breska athafnamannsins Cecil Rhodes sem átti stóran þátt í landvinningum Evrópuríkja í sunnanverðri Afríku. Upphaflega landið Ródesía varð til árið 1888 þegar Rhodes fékk námaréttindi frá innfæddum höfðingjum við vafasamar kringumstæður. Norður-Ródesía (nú Sambía) greindi sig frá Suður-Ródesíu árið 1910.

Suður-Ródesía var áfram bresk nýlenda og varð brátt þekkt sem einfaldlega Ródesía.

Sambandsríkið[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Afríkuríkin fengu sjálfstæði eitt af öðru, bjuggu Bretar til Sambandsríki Ródesíu og Nýasalands sem náði yfir löndin sem nú heita Sambía, Simbabve og Malaví sem þá hétu Norður-Ródesía, Suður-Ródesía og Nýasaland. Sambandsríkið var formlega leyst upp 1. janúar 1964 þegar Malaví og Sambía fengu sjálfstæði. Suður-Ródesía var áfram bresk nýlenda og hét eftir það aðeins Ródesía.

Einhliða sjálfstæðisyfirlýsing[breyta | breyta frumkóða]

Bretar tóku upp stefnu sem fól í sér að Ródesía fengi ekki sjálfstæði fyrr en almennu lýðræði yrði komið á í stað hvítrar minnihlutastjórnar. Stjórn landsins var þá í höndum ródesíska framvarðarins, undir formennsku Ian Smith. 11. nóvember 1965 lýsti stjórn hans einhliða yfir sjálfstæði. Þessi aðgerð var fordæmd af alþjóðasamfélaginu og Sameinuðu Þjóðirnar settu viðskiptabann á Ródesíu, að undirlagi Breta.

2. mars 1970 sleit stjórn Smiths formlega öll tengsl við bresku krúnuna og lýsti yfir stofnun lýðveldis.

Kjarrstríðið[breyta | breyta frumkóða]

Eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna fór fram vopnuð barátta á vegum stjórnmálaflokkanna ZANU („Zimbabwe African National Union“) og ZAPU („Zimbabwe African People's Union“). Þetta varð þekkt meðal hvítra íbúa sem Kjarrstríðið (enska: „Bush War“). Stjórnin hafði yfirhöndina lengi vel, eða þar til nýlendustjórninni lauk í Mósambík 1975. ZANU gerði þá bandalag við FRELIMO og fékk þjálfun, vopn og menn send yfir landamærin.

Fyrstu almennu kosningarnar[breyta | breyta frumkóða]

Í kjölfarið á miklum alþjóðlegum þrýstingi frá bæði Bandaríkjunum og Bretlandi, og samkomulagi við hófsamari þjóðernissinnaða flokka, voru fyrstu meirihlutakosningarnar haldnar í landinu í apríl 1979 þar sem UANC („United African National Council“) vann meirihluta. Abel Muzorewa varð forsætisráðherra 1. júní 1979. Nafni landsins var þá breytt í Simbabve.

Samkomulagið í Lancasterhöll[breyta | breyta frumkóða]

Þótt kosningarnar 1979 hefðu verið lýðræðislegar, þá tóku hvorki ZANU og ZAPU þátt í þeim þar sem þessir flokkar voru bannaðir. Vegna þessa var nýja stjórnin ekki viðurkennd af alþjóðasamfélaginu. Breska ríkisstjórnin (undir stjórn Margaret Thatcher) sendi öllum málsaðilum boð um að mæta á friðarráðstefnu í Lancasterhöll í London síðla árs 1979.

Í London undirrituðu málsaðilar friðarsamkomulag sem fól í sér að Bretar tóku við stjórn landsins um stutt skeið árið 1979 og veittu síðan Simbabve/Ródesíu sjálfstæði 1980 í kjölfar fyrstu alhliða kosninganna í landinu, þar sem Robert Mugabe og flokkur hans ZANU, unnu. 18. apríl 1980 fékk landið formlega sjálfstæði sem Simbabve. Nafni höfuðborgarinnar var breytt úr Salisbury í Harare tveimur árum síðar.