Ræktunaræti

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þessar bakteríukóloníur vaxa á ræktunaræti sem hleypt hefur verið með agar og steypt í petriskál.

Ræktunaræti, oft einfaldlega nefnt æti, er vökvi eða hlaup til ræktunar örvera eða annarra frumna. Æti eru mismunandi að samsetningu eftir því hvaða frumur á að rækta í þeim. Tvær megingerðir ræktunaræta eru annars vegar æti til frumuræktar, það er, ræktunar einstakra frumugerða úr dýrum eða plöntum, og hins vegar örveruæti, það er, æti til ræktunar baktería, fyrna eða gersveppa.

Helstu gerðir ræktunaræta[breyta | breyta frumkóða]

Almenn örveruæti[breyta | breyta frumkóða]

Örveruætum má gróflega skipta í annars vegar næringaræti („komplex-æti“) og hins vegar skilgreind æti („synþetísk æti“). Næringaræti innihalda flókin eða óskilgreind efni eins og blóð, kjötseyði eða peptón (vatnsrofin prótín), en skilgreind æti innihalda eingöngu þekkt efni, hvert um sig í þekktu magni. Meðal algengra næringaræta má nefna heila- og hjartaseyði (e. brain-heart infusion broth), tryptón-soja seyði (e. tryptic soy broth) og Luria-Bertani seyði. Einnig mætti nefna ölmeski eða brauðdeig sem dæmi um æti fyrir ræktun gersveppa, og hrámjólk sem dæmi um æti fyrir mjólkursýrubakteríur við gerð sýrðra mjólkurafurða á borð við súrmjólk eða jógúrt.

Í skilgreindum ætum er efnasamsetning ætisins að fullu þekkt. Það má því hafa fulla stjórn á því hvaða næringarefni eru til staðar og þannig stjórna að vissu marki þeirri starfsemi sem fruman getur lagt stund á. Þau eru meðal annars notuð til að finna út úr því hvaða næringarefni örverurnar geta nýtt sér og hver ekki. Skilgreind æti innihalda gjarnan, auk orkugefandi næringarefna á borð við sykrur eða amínósýrur, ýmis sölt, steinefni og vítamín. Þau eru gjarnan hönnuð þannig að þau uppfylli aðeins lágmarks næringarþarfir örverunnar sem rækta á og kallast þá lágmarksæti.

Æti má einnig flokka eftir því hvort þau eru föst, hálfföst eða fljótandi. Algengast er að föstum og hálfföstum ætum sé hleypt með agar og er hlaupið steypt í Petriskálar eða ræktunarglös. Agarhlaupið myndar fast yfirborð sem örverurnar geta vaxið á og myndað kóloníur. Fáar örveru geta brotið niður agar og nýtt sér hann sem næringu, og því helst hlaupið á föstu formi.

Frumuræktaræti[breyta | breyta frumkóða]

Frumuræktaræti eru alla jafna flóknari að gerð en örveruætin og þurfa að innihalda þau hormón og vaxtarþætti sem stjórna vexti viðeigandi vefjagerða í lifandi dýri eða plöntu af þeirri tegund sem um ræðir. [1] Í ræktunarætum fyrir dýrafrumur eru hormónin gjarnan fengin með því að bæta blóðvökva í ætið. Algengt er að frumurnar vaxi á föstu yfirborði undir ræktunarætinu, sem þá er á formi vökva.

Sérhæfð örveruæti[breyta | breyta frumkóða]

Blóðagar er greiningaræti sem gefur til kynna hvort bakterían sem á því vex er blóðrjúfandi (það er, sprengir rauðar blóðfrumur). Á báðum þessum skálum vaxa bakteríur sem gefa jákvæða svörun eins og sjá má af því að rauði liturinn er horfinn úr ætinu næst gerlagróðrinum. Hægra megin er Streptococcus, en Staphylococcus vinstra megin.

Mikill fjöldi sérhæfðra örveruæta til hefur verið hannaður. Nefna má til dæmis svokölluð valæti, en það eru æti sem aðeins tiltekinn hópur örvera getur vaxið á, og greiningaræti, en það eru æti þar sem tiltekin gerð örvera gefur tiltekna svörun (veldur til dæmis litarbreytingu í ætinu). Sem einfalt dæmi um valæti má nefna æti sem sýklalyfjum hefur verið bætt í, en í slíku æti geta aðeins sýklalyfjaþolnar örveru vaxið. Sama ætið getur verið bæði val- og greiningaræti.

Eftirfarandi eru nokkur dæmi um sérhæfð örveruæti:

  • Eosín-metýlen blár agar (EMB) inniheldur litarefnið metýlen blátt, en það er eitrað fyrir Gram-jákvæðar bakteríur og því geta eingöngu þær Gram-neikvæðu vaxið. EMB getur einnig verkað sem greiningaræti, en bakteríur sem gerja laktósa mynda svartar kóloníur.
  • Ger- og mygluæti (YM) hefur lágt sýrustig, en ger- og myglusveppir eru að jafnaði sýruþolnari en bakteríur.
  • MacConkey agar er valæti fyrir Gram-neikvæðar bakteríur og er jafnframt greiningaræti, en bakteríur sem geta gerjað laktósa lita ætið bleikt.
  • Mannitól salt agar (MSA) er valæti fyrir stafýlókokka og míkrókokka. Það er einnig greiningaræti þar sem kóagúlasa-jákvæðir stafýlókokkar eyða rauða litnum úr ætinu.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. G. M. Cooper og R. E. Hausman (2009) The cell: a molecular approach, 5. útg. ASM Press, Washington, D.C. ISBN 978-0-87893-356-3