Pyrrhonismi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Pyrrhonsk efahyggja)

Pyrrhonismi er forngrísk efahyggja sem er nefnd í höfuðið á Pyrrhoni frá Elís en á ekki síður rætur að rekja til akademískrar efahyggju, einkum heimspeki Arkesilásar. Upphafsmaður pyrrhonismans var Ænesidemos (uppi á 1. öld f.Kr.) sem hóf feril sinn innan Akademíunnar en fékk sig fullsaddan af þeirri kredduspeki sem hann taldi einkenna akademíska heimspeki á sínum tíma og setti fram róttækari efahyggju sem hann kenndi við Pyrrhon. Rit Ænesidemosar eru ekki varðveitt en varðveittur er útdráttur úr ritum hans. Meginheimildin fyrir þessari heimspeki er hins vegar rit Sextosar Empeirikosar (uppi seint á 2. öld e.Kr.).

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Heimspekileg efahyggja varð til í Grikklandi hinu forna en áður en efahyggjan kom fyrst fram sem slík höfðu ýmsir grískir hugsuðir dregið í efa möguleikann á þekkingu. Xenofanes frá Kólofon hélt því fram að ekkert væri hægt að vita um raunveruleikann og Demókrítos hafði velt upp spurningum um mannlega þekkingu almennt og hvort skynfærin væru áreiðanleg til að afla þekkingar.

Forngrísk efahyggja átti sér tvær rætur. Annars vegar voru upphafsmenn hennar þeir Arkesilás og Karneades sem voru akademískir heimspekingar, þ.e. þeir tilheyrðu Akademíunni, sem var skóli sem Platon stofnaði í Aþenu um 385 f.Kr. Á 3. öld f.Kr. voru akademískir heimspekingar farnir að túlka samræður Platons sem efahyggjurit og töldu að Sókrates hefði verið efahyggjumaður. Þessir efahyggjumenn (sem nefndust ekki efahyggjumenn á sínum tíma, heldur akademískir heimspekingar) áttu fyrst og fremst í rökræðum við stóumenn og frá forsendum stóumanna leiddu þeir út að ekki væri hægt að vita neitt; sjálfir tóku þeir ekki undir forsendur stóumanna og héldu engu fram.

Hin rót efahyggjunnar er hjá Pyrrhoni frá Elís (um 360-275 f.Kr.) sem var sjálfur undir áhrifum frá Demókrítosi. Pyrrhon hélt því fram að það væri ekki hægt að vita neitt vegna þess að heimurinn væri óákvarðanlegur og ómælanlegur í eðli sínu. Í stað þess að leita þekkingar ætti maður að sætta sig við að ekkert væri hægt að vita, losa sig við skoðanir sínar og því myndi fylgja sálarró. Strangt tekið er þetta viðhorf ekki efahyggja (sem ekki gæti fullyrt að ekkert væri hægt að vita) heldur neikvæð kenning um möguleikann á þekkingu.

Heimspekingurinn Ænesidemos, sem lítið er vitað um annað en að hann var akademískur heimspekingur á 1. öld f.Kr., sagði skilið við akademíuna (sem var farin að mildast í efahyggjunni á hans tíma) og sameinaði áhrif frá eldri akademískum heimspekingum (Arkesilási og Karneadesi) við heimspeki Pyrrhons, sem hann sagði að væri raunverulegur efahyggjumaður. Þessi efahyggja heitir pyrrhonismi í höfuðið á Pyrrhoni og er varðveitt í ritum Sextosar Empeirikosar. Þar koma saman efahyggja Arkesilásar og Karneadesar og hugmynd Pyrrhons um sálarró. Þetta er sú heimspeki sem kallast pyrrhonismi.

Ænesidemos tók saman hina tíu hætti efahyggjunnar, sem voru tegundir raka sem efahyggjumenn beittu til að finna jafnvæg rök gegn hvaða annarri röksemdafærslu sem er og ná þannig fram ástandi úrræðaleysis sem leiddi til þess að þeir frestuðu dómi. Í kjölfar Ænesidemosar kom Agrippa, sem enn minna er vitað um en Ænesidemos. Hann mun hafa tekið saman fimm hætti efahyggjunnar. Aðrar samantektir eru varðveittar (svo sem hættirnir átta og hættirnir tveir) en ekki er vitað um uppruna þeirra.

Sextos Empeirikos er meginheimildin fyrir pyrrhonskri efahyggju. Hann var læknir sem var uppi seint á 2. öld e.Kr.. Rit hans eru að mestu leyti varðveitt og vitað er að hann studdist að þónokkru leyti við rit Ænesidemosar og að öllum líkindum rit Agrippu.

Pyrrhonismi hafði sáralítil áhrif í fornöld en gríðarleg áhrif á nýöld, m.a. á Michel de Montaigne sem síðan hafði áhrif á René Descartes.

Heimspeki[breyta | breyta frumkóða]

Pyrrhonistar voru efahyggjumenn. Þeir töldu ekki að það væri ekki hægt að vita neitt; hvernig væri hægt að vita það? Þetta viðhorf skilgreindu þeir sem neikvæða kenningu um þekkingu.[1] En efahyggjumaður getur ekki leyft sér að halda fram neinni kenningu. Þess í stað frestuðu pyrrhonistar dómi um hvort hægt væri að vita eitthvað. Efahyggjumaðurinn neitar því ekki að hægt sé að upplifa eitthvað en frestaði dómi um hvort hægt væri að fjalla um það sem maður upplifir á hlutlægan hátt. Sextos getur t.d. fallist á að hunang virðist vera sætt á bragðið en haldið því fram að það sé vafamál hvort það sé í eðli sínu sætt eða sé sætt í raun. Fullyrðingin „hunang er sætt“ virðist fela í sér meira en einungis frásögn af upplifun manns, nefnilega dóm um hvernig hunang er í raun og veru; þann dóm getur efahyggjumaður ekki fellt. Þess vegna segir Sextos að alltaf þegar pyrrhonistinn segir „x er F“ eigi hann við „x virðist vera F“ enda streitist efahyggjumaðurinn ekki á móti því hvernig hlutirnir virðist vera, sýndinni.

Samkvæmt pyrrhonskri efahyggju þarf maður sem vill öðlast sálarró (ataraxia) fyrst að losa sig við skoðanir manns og „fresta dómi“, það er að segja finna jafnvægi milli sérhverrar staðhæfingar og neitunar hennar og trúa svo hvorugri í kjölfar þess að maður getur ekki skorið úr um hvor sé sönn eða rétt. Það er mikilvægt að átta sig á að frestun dóms er ekki niðurstaðan í röksemdafærslu, heldur sálfræðileg afleiðing þess að geta ekki skorið úr um hvor kenningin eða staðhæfingin er sönn.

Fræðimenn deila um hvort og að hve miklu leyti pyrrhonisti geti leyft sér að hafa skoðanir yfirhöfuð. Sumir telja að Sextos eigi við allar skoðanir og að pyrrhonistinn megi ekki hafa neinar skoðanir. Aðrir telja að þau séu ekki skilaboðin og að pyrrhonistinn geti haft fjölmargar skoðanir en það skipti máli hvernig maður myndar sér skoðanir sínar.

Meðal fræðimanna sem hafa haldið fram hinu fyrrnefnda eru Myles Burnyeat[2] og Jonathan Barnes[3]. Burnyeat telur að pyrrhonistinn megi ekki hafa skoðun á neinu sem getur verið satt eða ósatt. Hann má einungis hafa skoðanir á upplifunum sínum, en samkvæmt Burnyeat var það viðtekið og óumdeilt viðhorf í forngrískri heimspeki að einungis staðhæfingar um ytri veruleika gætu verið sannar eða ósannar. Barnes telur að efahyggjumaðurinn megi ekki hafa neinar skoðanir, einkum og sér í lagi „heimspekivísindalegar skoðanir - kenningar eða kreddur“ (e. „philosophico-scientific opinions - doctrines, principles, tenets“) um neitt sem er óljóst. Hann getur hins vegar tjáð upplifanir sínar með venjulegu máli, t.d. sagt „hunangið er sætt“ þegar honum virðist hunangið vera sætt. Samkvæmt túlkun Barnes er óljóst hvort efahyggjumaðurinn getur haft venjulega skoðun eins og „það er kvöld“.

Michael Frede hefur haldið fram síðarnefndu túlkuninni.[4]. Samkvæmt henni útilokar Sextos ekki allar skoðanir, heldur getur efahyggjumaður haft skoðanir á hverju sem er svo lengi sem þær eru ekki niðurstöður röksemdafærslu, leiðir ekki af slíkum niðurstöðum eða eru afleiðingar heimspekilegra eða vísindalegra pælinga. Skoðanir efahyggjumannsins mega til að mynda vera viðteknar hugmyndir í samfélagi hans og afleiðingar uppeldis hans. En hverjar skoðanirnar eru skiptir engu máli. Inntak þeirra skiptir ekki máli, samkvæmt þessari túlkun, ólíkt túlkun Barnes og Burnyeat. Samkvæmt þessari kenningu getur efahyggjumaður því jafnvel trúað á tilvist guðs eða að guð sé ekki til eða að dygð sé góð. Hann getur aftur á móti ekki verið þeirrar skoðunar að dygðin sé í eðli sínu góð.

Gagnrýni[breyta | breyta frumkóða]

Ein helsta gagnrýnin á efahyggju til forna var á þá leið að ef efahyggjumenn hefðu engar skoðanir, þá gætu þeir ekkert gert, ekkert aðhafst, ekkert sagt. Hvernig getur efahyggjumaður til dæmis gengið út um dyr ef hann ekki einungis veit ekki að dyrnar eru fyrir framan hann, heldur hefur enga skoðun á málinu?

Sextos tekur skýrt fram að þegar efahyggjumaðurinn segir „x er F“ eigi hann við „x virðist vera F“. Ekkert kemur í veg fyrir að efahyggjumaðurinn segi frá því hvernig honum virðist hlutirnir vera. Ef túlkun Michaels Frede er rétt, þá hæfir gagnrýnin um aðgerðaleysi efahyggjumannsins ekki í mark heldur, því efahyggjumaðurinn getur haft hvers kyns skoðanir, svo fremi sem hann réttlætir ekki skoðanir sínar með rökum eða leiðir þær af kenningum. Sé túlkun Barnes rétt, þá er möguleiki á því að efahyggjumaðurinn hafi hversdagslegar skoðanir eins og „þarna eru dyrnar“ þótt hann hafi ekki heimspekivísindalegar skoðanir. Ef túlkun Burnyeats er rétt, þá hefur efahyggjumaðurinn engar skoðanir en eftir sem áður er ljóst af því sem Sextos segir að efahyggjumaðurinn streitist ekki á móti sýndinni og því ætti hann að geta stuðst við sýndina til að rata á dyrnar þótt hann fallist ekki á að hafa neina skoðun um hvar dyrnar séu.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Samkvæmt Sextosi héldu akademískir efahyggjumenn fram neikvæðum kreddum af þessu tagi. Það er næsta víst að einhverjir akademískir efahyggjumenn héldu þessu fram en upphaflega gerður þeir það ekki.
  2. Burnyeat, M., „Can The Sceptic Live His Scepticism“ hjá Myles Burnyeat og Michael Frede (ritstj.), The Original Sceptics: A Controversy (Hackett, 1997): 25-57. Sbr. Burnyeat, M., „The Sceptic in His Place and Time“, ibid., 92-126.
  3. Barnes, J., „The Beliefs of a Pyrrhonist“ hjá Myles Burnyeat og Michael Frede (ritstj.), The Original Sceptics: A Controversy (Hackett, 1997): 58-91.
  4. Frede, M., „The Sceptic's Beliefs“ hjá Myles Burnyeat og Michael Frede (ritstj.), The Original Sceptics: A Controversy (Hackett, 1997): 1-24. Sbr. Frede, M., „The Sceptic's Two Kinds of Assent and the Question of the Possibility of Knowledge“, ibid., 127-152.

Heimildir og frekari fróðleikur[breyta | breyta frumkóða]

  • Algra, K., Barnes, J., Mansfeld, J. og Schofield, M. (ritstj.), The Cambridge History of Hellenistic Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 2005).
  • Annas, Julia og Barnes, Jonathan, The Modes of Scepticism: Ancient Texts and Modern Interpretations (Cambridge: Cambridge University Press, 1985).
  • Bett, Richard, „Aristocles on Timon on Pyrrho: The Text, Its Logic and its Credibility“ Oxford Studies in Ancient Philosophy 12 (1994a), 137-181.
  • Bett, Richard, „What did Pyrrho Think about the Nature of the Divine and the Good?“ Phronesis 39 (1994b), 303-337.
  • Bett, Richard, Pyrrho, his antecedents, and his legacy (Oxford: Oxford University Press, 2000).
  • Burnyeat, Myles (ritstj.), The Skeptical Tradition (Berkeley: University of California Press, 1983).
  • Burnyeat, Myles og Frede, Michael (ritstj.), The Original Sceptics: A Controversy (Indianapolis: Hackett, 1997).
  • Hankinson, R.J., The Sceptics (London: Routledge, 1995).
  • Striker, Gisela, „On the difference between the Pyrrhonists and the Academics“ í G. Striker, Essays on Hellenistic Epistemology and Ethics (Cambridge: Cambridge University Press, 1996): 135-149.
  • Striker, Gisela, „Sceptical strategies“ í G. Striker, Essays on Hellenistic Epistemology and Ethics (Cambridge: Cambridge University Press, 1996): 92-115.
  • Striker, Gisela, „The Ten Tropes of Aenesidemus“ í G. Striker, Essays on Hellenistic Epistemology and Ethics (Cambridge: Cambridge University Press, 1996): 116-134.
  • Svavar Hrafn Svavarsson, „Pyrrho’s dogmatic nature“, The Classical Quarterly 52 (2002), 248-56.
  • Svavar Hrafn Svavarsson, „Pyrrho’s undecidable nature“, Oxford Studies in Ancient Philosophy 27 (2004), 249-295.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]